Japan, land tækninnar! Það skyldi þó ekki vera að Japanir séu orðnir þreyttir á öllum tækninýjungunum og óski þess helst að eiga bara gamlan farsíma með tökkum og ósnjallan bíl?

Eitt og annað bendir til þess og byrjum á þessu:

Japanir virðast margir hverjir reiðubúnir að greiða rúmar fjórar milljónir ISK (31.000 dollara) fyrir Lada Niva Travel (köllum hana samt Lödu Sport áfram og fallbeygjum Lada, er það ekki?) en það er rúmum tveimur milljónum meira en Ladan blessuð kostar í Rússlandi.

image

Eftir að hafa skoðað myndir og myndbönd innan úr nýrri Lödu Sport finnst manni eitthvað undarlegt við að tala um „vel búinn“ bíl af þeirri gerð. Mælaborðið og „græjurnar“ virðast nefnilega nokkuð móðins ef við ákveðum að árið sé 1997.

image

Árgerð 2022 er gjörólík fyrri árgerðum. En ekki hvað!

Japanir eru nefnilega sagðir ægilega spenntir fyrir „vel búinni“ Lödu Sport en ein þeirra er Lada Niva Travel Luxe Offroad. Langt nafn en það er í lagi. Verðið sem nefnt var hér að ofan á einmitt við um þá útgáfu bílsins. 132% meira kostar hún í Japan en Rússlandi. En hver spyr svo sem hvað bíll kostar í framleiðslulandinu? Fæstir, hugsa ég.

Í hverju felst „lúxið“?

Grunngerðin kostar um 1.480.000 kr ($11.270) í Rússlandi en Luxe Offroad fæst fyrir rúmar 1.770.000 kr ($13.495). Hver er munurinn?

image

Afþreyingarkerfið og skjárinn eru æði nýmóðins. Fer bara eftir hvaða ár maður miðar við. Árið 2000 hefði þetta t.d. þótt afar nýmóðins.

Ekki má gleyma „off-ródinu“ en bíllinn kemur á 16 tommu álfelgum og reffilegustu dekkjum, en það skulum við segja til að flækja þetta ekki um of. Alltaf eru bílarnir beinskiptir og fimm gíra.

Ef marka má kólumbíska bílablaðið AutoExtra þá ættu kaupendur Luxe Offroad ekki að hrapa að neinum ályktunum á borð við þær að einhver almennilegur öryggisbúnaður sé í bílnum. Svo er nú ekki, umfram öryggisbelti, ABS og tvo loftpúða. Já, tvö stykki, takk fyrir. Fleira er það nú eiginlega ekki, að því gefnu að kólumbíska blaðið fari ekki með fleipur.

image

Nú kann ég smávegis í nokkrum tungumálum og hef meira að segja sótt Japan heim en þrátt fyrir það, ótrúlegt en satt, skildi ég hvorki haus né sporð í þessu fallega pírumpári.

image

Þá mundi ég skyndilega eftir að hægt  er að „trixa“ eitt og annað með því að hægri-smella og þá var nú gaman að lesa! Og líka fyndið, sbr. „Fyrirtækið var stofnað fyrir um þrjátíu árum og ég held að það sé fólk sem kaupir bíla [...].“ Já, en stundum mætti nú halda að því væri öðruvísi farið en nú er blaðamaður kominn svo langt út fyrir efnið að það er spurning hvort hann rati aftur á sporið.  

Rússneska tímavélin

Það er skemmtilegt að í Japan sé áhugi á bílum sem virðast hafa ferðast þangað úr fortíðinni. Á fyrrnefndri síðu er Lada Sport kölluð „rússneska tímavélin“ og sé blaðamaður ekki alveg úti að aka er þá átt við að bíllinn komi úr fortíðinni en ekki framtíðinni.

image

Þetta er Lada Sport, árgerð 2021. Einnig kölluð „rússneska tímavélin“ af Japönum.

Þetta á þó við um ónotaða bíla sem framleiddir voru árið 2020 (og því árgerð ´21) og þeir eru virkilega eins og við munum eftir þeim. Gamaldags út í gegn. Enda fást þeir með afslætti í Japan þessa dagana. Rússneska tímavélin, árgerð 2021, kostar með dúndurafslætti, frá  2.900.000 JPY sem eru tæplega 3.500.000 krónur. 500.000 kr ódýrari kostur en 2022 árgerðin.

image

Útfærslurnar af Lödu Sport sem fást í Japan eru sennilega fleiri en tímabeltin í Rússlandi. Þessi pallbílsútgáfa af ´21 árgerðinni kostar litlar 4.450.000 kr

image

Ofur-Lada er vígaleg og kostar sitt eða 5.250.000 krónur. Enda fágæt mjög og eintökin aðeins 150 í Japan.

Þessi sturlaði bíll er auglýstur með eftirfarandi texta: „Hvaða bíll er nú þetta? Er þetta Mercedes-Benz G-Class? Hummer H1? Toyota Mega Cruiser?

image

Eins og að kaupa sjaldgæfan hund  

Oft hefur maður skemmt sér við að lesa smáa letrið þegar vörur eru keyptar frá Bandaríkjunum. Það sem stendur hins vegar með stóru letri (ekki smátt eins og í Bandaríkjunum þar sem flest er þó stórt) á síðu japansks söluaðila sem sérhæfir sig í innflutningi á Lada Sport er svoleiðis mun skemmtilegra en hið fyrrnefnda.

Japan og það sem er japanskt er engu líkt!

Hér er dæmi um stóra letrið en þetta eru heilræði (mörg erindi voru á síðunni en hér fyrir nokkur til gamans, þýdd m.a. með aðstoð bitlausra verkfæra) sem beint er til hugsanlegra kaupenda:

Fyrst og fremst, hvort sem bílar

eru notaðir eða nýir,

þá eru þeir tæki.

Þegar bílar eyðileggjast,

eru þeir ónýtir.

Hafir þú áhyggjur af því

að þú munir skemma bílinn,

skaltu vinsamlegast

halda aftur af þér

og ekki kaupa hann.  

Að eignast innfluttan bíl,

fyrir milligöngu okkar

er svipað því að eignast hund,

af sjaldgæfri tegund,

með ræktanda hans þér við hlið.

Þá þarf að vanda til verka.

Það er hlutverk okkar,

ræktendanna,

að koma bílum okkar

til unnenda vítt og breitt.

Þú annast fágætan bílinn af alúð

Og við verðum alltaf til taks.

Þetta er okkar hjartans mál.

Skiljir þú það ekki,

neitum við að selja þér bíl.

Þannig komumst við hjá

óþörfum leiðindum

og illindum okkar á milli.

Og fyrir neðan romsuna er mynd af hundi.

Opnast-lokast-opnast-opnast…

Nokkrar drastískar breytingar hafa orðið á Lödu Sport síðan t.d. árið 1994 (bara ágætt dæmi og ekki verra ár en mörg önnur, minnir mig) og þá á ég alls ekki við þær augljósu útlitsbreytingar sem orðið hafa frá árgerð ´21 til árgerðar ´22.

image

Heldur eru drastísku breytingarnar í fljótu bragði þær að árið 1994 var hröðunin frá 0 upp í 100 km/klst 21 sekúnda en núna bara 19 sekúndur. Hámarkshraði hefur líka breyst umtalsvert en hann var 132 km/klst árið 1994 en er nú 140 km/klst.

Í bílnum var og er 1.7 l bensínvél sem skilar um 80 hestöflum. Kannski ekki sama gerð en sömu tölur. Gírarnir eru fimm og voru fimm.  

Eyðslutölurnar eru svipaðar eða rúmlega 10 l/100 km en eflaust eitthvað minna þegar bíllinn er ekki í gangi.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is