Ekinn aðeins 603 km frá upphafi

    • V6, 3.8 lítra vél með túrbínu
    • Fjögurra gíra sjálfskipting
    • Vél byggð eftir aðferðarfræði frá McLaren Performance / ASC
    • Einn af aðeins 547 eintökum
    • GNX handbók

image
image
image

Níundi áratugurinn var kannski ekki sérlega spennandi hvað ameríska bíla varðar. Á markaðinn herjuðu stjórnvöld með nýjum reglugerðum um öryggi, eldsneytiseyðslu og útblásturslosun.

image
image

Þróuninni var haldið áfram og þegar yfir lauk kom fram vél sem var 3,8 lítra túrbó, sem sett var í umræddan Buick GNX árið 1987.

Vélin var framleidd eftir forskrift frá McLaren Performance Technologies /ASC. GNX-inn var pakkaður af nýju stöffi frá túrbínuframleiðandanum Garrett sem var brautryðjandi í túrbínuframleiðslu upp úr 1950 í Bandaríkjunum.

image
image

Vélin var búin keramik forþjöppu/túrbínu til að þola meiri hita og millikæli sem gerði að verkum að vélin skilaði 276 hestöflum og togaði 488 Nm.

Fjöðrunin var stífari og undir bílnum voru Goodyear Gatorback dekk á 16 tommu felgum. Felgurnar voru aðeins breiðari og náðu út fyrir brettin. Loftgöt voru á framstuðara til að ná fram meiri kælingu.

image
image

Buickinn var búinn fjögurra þrepa sjálfskiptingu, mismunadrifi með spólvörn, vökvastýri og vökvabremsum, veltistýri og rafmagni í rúðum og læsingum, skriðstilli (cruise control) og loftkælingu. Allt var þetta staðalbúnaður í kagganum. Niðurstaðan: öflugur sportari sem fór úr 0-100 km/klst. á aðeins 4,7 sekúndum. Það var mesta hröðun hjá amerískum bílaframleiðanda á þeim tíma.

Aðeins voru smíðuð 547 eintök af bílnum. Allir svartir og með svartri og grárri innréttingu og sérstökum hvítum Stewart Warner mælum.

image
image
image

Fram í voru sportsæti með sérstökum höfuðpúðum. Sætin voru með með ísaumi og stýrið sérstaklega sportlegt. Þessi bíll er númer 385 í framleiðsluröðinni af þeim 547 eintökum sem framleidd voru. Bílnum hefur verið framúrskarandi vel við haldið frá því að hann var afhentur og kílómetramælirinn sýnir aðeins 603 km. Upprunalegir límmiðar eru í gluggum og GNX handbók fylgir bílnum.

Þar sem bíllinn var seldur rétt áður en þetta var skrifað lá verðið ekki fyrir á sölusíðu bílsins.

image
image
image

Á tímabili var Buick GNX konungur götunnar og sannaði að það var ekki aðeins vélarstærðin sem gilti. Bílar sem þessi eru afar fáir og hafa því ótvírætt söfnunargildi enda hefur verð þeirra hækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Það eru reyndar mjög fáir til með svona lágri kílómetratölu.

image
image
image
image
image
image

Heimild: LMC motorcars - Legendary motorcars.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is