Frá því að ég man eftir mér þá hefur alltaf verið til fólk sem ég vissi um, kannaðist við eða þekkti, og frændfólk sem hefur tekið þvílíku ástfóstri við eitthvað tengt bílum. Svo er enn.

Við erum ekki að tala um almenna bíladellu hér, alls ekki. Við erum að tala um eitthvað sem nálgast trúarbrögð.

Í sumum tilfellum gæti maður ímyndað sér að fólkið sem er verst haldið af þessum kvilla sé að ræða baráttu hins góða við hið illa þegar það predikar yfir þér um átrúnaðinn sinn.

Beturvitarnir

Þetta getur orðið annað hvort grátbroslegt eða pirrandi eftir því hvernig maður er stemmdur eða hvaða „trú“ maður hefur sjálfur.

Trúarerjur og illdeilur

Stundum hefjast rökræður eða rifrildi á milli mismunandi trúarhópa. Sá sem vinnur rökræðurnar er gjarnan álitinn hafa rétt fyrir sér af trúbræðrunum. En af því að söfnuðurinn hefur blinda trú og glápir of mikið á blindandi ljósið fer það alveg fram hjá þeim að þeirra fulltrúi vann bara rökræður en það er hægt þó bulli sé  haldið fram.

Svona trú er ekki bundin við bíla þetta getur átt við allt mögulegt. En niðurstaðan er alltaf sú sama, þetta leiðir til þröngsýni.

Ég er ekki barnanna bestur í þessu, hef oft verið þessi sanntrúaði og trúað einhverju sem sagt er um einhverja bílategund, hlustað t.d. á lofræður um bíltegundir og níð um aðrar og trúað því sem ég heyrði. Svo sannreyndi ég síðar að hvorugt var alveg rétt. Reyndust að mestu vera tröllasögur þegar á reyndi. En bílar og allt annað hefur sína kosti og galla. En þegar maður „sér“ (villu-)ljósið og gengur í söfnuðinn þá hættir maður að sjá það.

Ég er stöðugt að minna mig á það að detta ekki í þetta far aftur svo ég geti séð hlutina eins og þeir eru en ekki í einhverjum hillingum.

Hvað með þig lesandi góður ert þú svona eða þekkir þú þessa týpu?

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is