• Einstakur Renault 4L kynntur til að fagna 60 ára afmæli fornbílsins

    • Renault hefur tekið höndum saman við hönnuðinn Mathieu Lehanneur og búið til einstaka rafmagnsútgáfu af upprunalega 4, með óvenjulegri hönnun á afturenda

Í ár er 60 ára afmæli hins upprunalega Renault 4. Af því tilefni hefur Renault tekið höndum saman við franska hönnuðinn Mathieu Lehanneur og búið til einstaka rafmagnsútgáfu af þessum klassíska bíl. Afturendi bílsins er hálfopinn og hugmyndin sótt úr helst til óvenjulegri átt: Nefnilega hótelsvítu.

image

Renault Suite Nº4 (eins og Lehanneur kallar bílinn) er í sömu stærð og klassíski bíllinn, en afturhluta bílsins hefur verið skipt út fyrir pólýkarbónat-kúlu sem er með slétt og náttúrulegt viðargólf.

Samhliða hafa framsætin verið klædd með blöndu af flaueli og chenille (sem er baðmullar- eða silkiþráður) en ætlunin er að líkja eftir hönnun fransks hótels.

Fínn í sunnudagsbíltúrinn

Á þakinu er sett af gagnsæjum sólarrafhlöðum sem hleypa ekki aðeins birtu inn í farþegarýmið, heldur hlaða rafhlöðu rafbílsins á ferðinni til að auka drægnina. Útdraganlegur bekkur er festur á afturstuðarann sem veitir skjólsælt útisæti undir opnanlegum afturhleranum.

image

Yfirbyggingin hefur verið máluð í þriggja þrepa ferli en það er gert  til að láta málminn líkjast steinsteypu, en grillinu hefur verið skipt út fyrir gljáandi álbita.

image

Allt efni sem notað er í verkefninu var framleitt í Frakklandi og koma sum þeirra meira að segja frá fyrsta flokks húsgagnaframleiðendum í París.

Svíta á hjólum

Framtíðarsýn Lehanneur fyrir Renault svítu Nº4 var að búa til færanlegt rými sem gerir ökumanni kleift að upplifa andrúmsloft lúxushótelsvítu, hvar sem hann er staddur.

Hann sagði: „Ég vildi sameina heim bíla og arkitektúrs til að búa til hótelherbergi undir berum himni. Þetta er jafnvel betra en fínasta svíta því bíllinn er nákvæmlega þar sem þú vilt hafa hann, hvort sem það er við sjóinn, úti á túni eða á akstri um draumaborgina.“

Renault segir að bíllinn, Suite Nº4, sé knúinn af „100 prósent rafmótor“, þó að vörumerkið eigi enn eftir að staðfesta upplýsingar um aflrásina.

(frétt á vef Auto Express – myndir frá Renault)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is