Það var á þessum degi, 8. nóvember, á því herrans ári 1956, sem mesti skandall bandarísks bílaiðnaðar fékk nafn.

Þá var hann ekki tengdur skandal en það varð hann nú skömmu síðar, blessaður. Jú, hér talað undir rós en hættum því í snatri. Umfjöllunarefnið er Ford Edsel.

Við endurbirtum í síðustu viku grein um „frægasta flopp“ bílaiðnaðarins ​​en Ford Edsel hefur löngum talist táknmynd mistaka í bílaframleiðslu. Þessi bíll var heljarinnar skaðræði fyrir bílaframleiðandann Ford því fáir vildu eignast Ford Edsel; málmhestinn sem svo margir markaðsgúbbar höfðu veðjað á að næði miklum vinsældum á bandarískum markaði.

image

Vinsældir öðlaðist hann ekki, síður en svo. Umtalaður, jú, en alls ekki vinsæll!

Markaðurinn virtist þurfa á Edsel að halda

Markaðsrannsóknir fyrir nýja millistærðarbílinn, er seinna hlaut nafnið Edsel, hófust árið 1955 og var vinnuheiti bílsins einfaldlega „E bíll“. Þ.e. „tilraunabíll“. Þessar markaðsrannsóknir gáfu til kynna að eftirspurn væri eftir bíl í millistærð, ef hann myndi kosta mun minna en aðrir bílar í sama stærðarflokki. Þetta taldi framleiðandinn mögulegt.

image

Þann 8. nóvember 1956, fyrir sléttum 65 árum síðan, samþykkti Ford Motor Company að Edsel skyldi hann heita. Bíllinn sem færi í framleiðslu og kæmi á markað árið 1958.  

image

Edsel Bryant Ford var elsti sonur Henry Ford og var bíllinn nefndur Edsel, syninum og minningu hans til heiðurs. Sonurinn var forstjóri fyrirtækisins frá árinu 1919 til 1943, en hann lést það sama ár.

Miklar voru væntingarnar til bílsins en þegar allt kom til alls náði hann eingöngu 1,5% marakaðshludeild á bandarískum bílamarkaði árið 1958. Tveimur árum síðar var vörumerkið Edsel ekki lengur til nema sem samheiti yfir rækileg viðskiptaleg mistök.

Bjart var yfir Edsel-fólkinu á þessum degi fyrir 65 árum en birtunni tók að bregða mjög skyndilega og endaði í svartamyrkri tveimur árum síðar .

Endilega lesið um helstu atriðin í stuttri sögu Ford Edsel hér.  ​​

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is