Í gærmorgun fjölluðum við stuttlega um bílakarlinn Bandaríkjaforseta. Eftir því sem hann tjáir sig meira um rafbílavæðinguna í Vesturheimi, fjölgar vísbendingum um að hann þurfi aðeins að strjúka rykið af bílaáhuganum og „uppfæra“ sig.

image

Slegið á létta strengi. Ljósmynd/General Motors

„Rafvæðing bíla hefst hér í Detroit. Í bílaiðnaði er það Detroit sem er í broddi fylkingar á heimsvísu, á sviði rafbíla,“ sagði forsetinn þar sem hann ávarpaði starfsfólk GM í heimsókn sinni í fyrradag. Tilefni heimsóknarinnar var formleg opnun verksmiðjunnar Factory ZERO EV.

Augnablik. Hér fer ekki saman hljóð og mynd. Sagði maðurinn þetta virkilega? Ójá, það gerði hann.

Svo rifjaði hann upp eitthvað sem hann sagði fyrir „löngu síðan“ - og átti þá við janúar síðastliðinn - og þegar forsetinn hafði fundið það í spjaldskrá hugans sagði hann:

„Þá ræddi ég um mikilvægi þess að Bandaríkin yrðu leiðandi í rafbílaframleiðslu. Og ég man eftir magnaðri yfirlýsingu ykkar [GM] sem kom í kjölfarið: Að árið 2035 myndi GM eingöngu framleiða rafbíla.Og það gerðuð þið! Þið rafvædduð bílaiðnaðinn í heild. Þið tókuð forystuna. Og það skiptir verulega miklu máli.“

Verst var þó að sjá ekki framan í áheyrendur þegar þessi rosalegi vísdómur hraut af vorum forsetans. Ef einhverjir héldu að þarna væri gríninu lokið og Laddi myndi taka af sér grímuna og segja „djók!“ þá var ekki komið að því. Maðurinn hélt áfram:

„Á áhrifaríkan hátt hafið þið stuðlað að bættu loftslagi með því að draga úr notkun olíu um milljarða tunna. Olíu sem ekki verður notuð þegar við verðum öll komin á rafbíla.“

Svona tóku Bandaríkin fram úr Kína á methraða

Já, ekki skánaði það hjá karli því næst sagði hann áhorfendum dálítið, eins og hann væri að ljóstra upp vel varðveittu leyndarmáli:

„Sko, þar til nú, hefur Kína verið fremst í flokki í þessu kapphlaupi. En nú breytist það.“

Það er svolítið ruglandi að rétt áður en hann sagði þetta, fullyrti hann að Detroit væri í „broddi fylkingar á heimsvísu, á sviði rafbíla“ skyndilega var það Kína og Bandaríkin í þann mund að taka fram úr…

image

Þetta, segir forsetinn, að sé sko aldeilis góður bíll. Rafbíll-INN á markaðnum. Mynd/General Motors

En hann byrjaði reyndar töluna á því að vera dálítill gaur þegar hann sagði við starfsfólk GM (eftir að hafa tekið rækilega á Hummer EV) að þessi Hummer væri „one hell of a vehicle, man!“ Og ekki treystir undirrituð sér til að þýða þessi orð yfir á íslensku en fólkið fagnaði mjög og þegar það þagnaði, sagði forsetinn: „JÓ!“ eins og fólk gerir þegar það er sultuslakt og svalt.

Tesla? Er það eitthvað ofan á brauð?

Hann sagði stoltur að GM verði 100% „í rafmagninu“ árið 2035, en bíðum nú við: Tesla er það og hefur alla tíð verið 100% rafbílamegin í tilverunni, eins og allir vita. Afsakið mig: Eins og næstum allir vita. „Þið [GM] rafvædduð bílaiðnaðinn í heild. Þið tókuð forystuna,“ sagði maðurinn.  

Það er dálítið eins og hann hafi aldrei heyrt minnst á Tesla eða neitt annað en GM; Smjör, ostur, sulta, tesla... Eitthvað ofan á brauð bara.

Þetta er nú alveg einstakt! En hvað liggur að baki? Jú, hann er ekki ómeðvitaður um að til sé eitthvert rafdót í Bandaríkjunum sem nefnist Tesla. Hann veit það vel. En honum er illa við utanaðkomandi dót, eins og Tesla virðist vera í augum hans.

image

Nú er þetta tengt pólitík og þar sem ég er örlítið smeyk við hunda þá læt ég pólitík alveg eiga sig. Þetta hefur eitthvað með skattlagningu, ættjarðarást, innlenda framleiðslu og atvinnuöryggi að gera. En það er víst svo kjánalega augljóst hversu markvisst forsetinn sniðgengur Tesla að meira að segja mamma hans Elon Musk er farin að gera grín að forsetanum og spottar hann opinberlega án þess að blikna:

Sonurinn, Elon Musk, skrifar einfaldlega „andvarp“ fyrir neðan færsluna, enda orðinn hundleiður á þessum undarlegheitum forsetans.

image

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is