Pólstjarnan – ein mikilvægasta stjarnan á himni

Þessa dagana er Brimborg að kynna nýtt merki í bílaheiminum á Íslandi – Polestar – sem þýðir einfaldlega Pólstjarnan.

Heitið á þessu vörumerki er runnið úr smiðju frænda okkar hjá sænska bílaframleiðandanum Volvo – en af hverju þetta nafn?

image

Jú það er einfalt! Þegar þeir í Gautaborg voru að leita að nýju nafni sem er óumdeilanlega með tengingu við okkar heim hér á Norðurlöndum, var þetta einfalt val – þessi stjarna var „leiðarstjarna“ víkinganna og þeirra frumkvöðla sem leituðu „nýrra“ heimkynna. Manna á borð við fyrstu landnámsmennina og þeirra sem síðar leituðu lengra vestur og fundu Grænland og Ameríku!

Hvað er Pólstjarnan og hvers vegna hún er mikilvæg?

Pólstjarnan, eða Polaris, er beint fyrir ofan norðurpól jarðar. Pólstjarna er stillt af við ás jarðar, vegna þess að hún er yfir norðurpólnum er hún eina stjarnan sem hreyfist ekki svo hún er mikilvæg fyrir stefnumörkun og til að finna réttar áttir.

Upphaflega sérstakt merki fyrir kappakstursbíla

Polestar er sænskt bílamerki stofnað árið 1996 af samstarfsaðila Volvo Cars Flash/Polestar Racing og var keypt árið 2015 af Volvo, en Volvo var keypt árið 2010 af kínverska fyrirtækinu Geely í Hangzhou í Zhejiang.

Polestar er með höfuðstöðvar í Gautaborg í Svíþjóð og fer framleiðsla bíla þeirra fram í Kína.

Fyrirtækið þróar rafbíla og býður upp á vélbúnaðaruppfærslur og hagræðingu vélbúnaðar fyrir Volvo í gegnum Polestar Engineered deild sína.

Tilkynnt um framleiðslu rafbíla

Í júní 2017 tilkynnti Volvo að Polestar myndi hefja framleiðslu hágæða rafmagnsbíla undir eigin nafni og merki. Polestar virkar einnig sem nýsköpunarstofa fyrir Volvo og þróar hönnun og tækni sem er meira á tilraunastigi.

Liðið var síðar selt og endurnefnt Polestar Racing, og byrjaði að smíða sína eigin keppnisbíla byggða á Volvo, seint á árinu 2000.

Árið 2009 varð vörumerkið opinber samstarfsaðili Volvo til að breyta núverandi gerðum, undir vörumerkinu Polestar Performance. Volvo keypti að lokum bæði fyrirtækið og vörumerkið í júlí 2015 og þá bauð Polestar endurbættar gerðir beint frá söluaðilum sínum.

image

Polestar 1 kemur til sögunnar

Fyrsti Polestar bíllinn var kynntur 17. október 2017: Polestar 1, lúxus 2+2 coupé, innblásinn af Concept Coupé frá Volvo sem kynntur var árið 2013. Í þeim bíl má greina áhrif frá Volvo P1800.

Polestar 1 er með rafdrifnu tvinndrifkerfi og eru samanlögð afköst 600 hö og 1.000 Nm, sem koma frá tveimur 110 hestafla mótorum að aftan.

Bíllinn er með 34 kWh rafhlöðu og drægni upp á 150 km í hreinni rafstillingu. Polestar 1 var smíðaður í nýrri sérbyggðri Polestar framleiðslumiðstöð í Chengdu í Kína, frá og með 2019 og framleiddir hafa verið um 500 bílar á ári.

image

Úr verksmiðju Polestar í Chengdu í Kína.

image

Ný verksmiðja Polestar í Chengdu í Kína.

image

Polestar 2 er kominn til Íslands.

Polestar 2

Árið 2019 tilkynnti Polestar um Polestar 2; millistærð 100% rafbíls. Hann var afhjúpaður með rafrænum hættti, 27. febrúar 2019 og var viðburðinum streymt frá höfuðstöðvum Polestar í Gautaborg í Svíþjóð. Strax á eftir var bíllinn frumsýndur opinberlega  á bílasýningunni í Genf 2019.

Og núna er Polestar kominn til Íslands

Fyrir helgina var Brimborg með sérstaka kynningu fyrir blaðamenn á þessum nýja rafbíl í höfuðstöðvum sínum, og í framhaldi hófst reynsluakstur okkar og fleiri blaðamanna á þessum nýja bíl.

    • Það verður hægt að panta Polestar 2, hágæða rafbíl með afburða aksturseiginleika, á polestar.com/en-is/ frá og með 25. nóvember næstkomandi
    • Brimborg er opinber umboðsaðili fyrir Polestar rafbíla á Íslandi
    • Fyrsti Polestar Space sýningarsalurinn opnar 25. nóvember hjá Brimborg í Reykjavík
    • Polestar 2 Long range Dual motor kostar frá 6.750.000 kr.

image

Polestar 2 í sýningarsal Brimborgar. Fyrst um sinn er bíllinn til sýnis í höfuðstöðvum Brimborgar, en unnið er að smíði nýs sérstaks sýningarsalar fyrir þennan nýja bíl, og þar verður öll hönnun umhverfisvæn og unnið er samkvæmt svonefndum BREEAM-staðli, sem miðar að smíði með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi.

Miklar væntingar

„Ég trúi því að sérhæft, hágæða rafbílamerki á borð við Polestar sem státar af afburða aksturseiginleikum muni hrista rækilega upp í bílamarkaðnum og leggjast af krafti á árarnar með okkur Íslendingum við að ná metnaðarfullu markmiði Íslands um að verða fyrsta jarðefnaeldsneytislausa landið í heiminum árið 2050.

Við hjá Brimborg erum eðlilega mjög spennt fyrir því að vera orðin opinber umboðsaðili Polestar á Íslandi, “ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

„Við bíðum þess með eftirvæntingu að kynna Polestar upplifunina fyrir neytendum og það er enginn vafi á því að bíll á borð við Polestar 2 mun festa sig í sessi sem leiðandi á markaði hágæða rafbíla.“

image

Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar við kynninguna á Polestar.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is