Chevrolet Nova SS

Chevrolet Nova var vinsæll bíll á sjöunda og áttunda áratugnum. Líkt og margir amerískir bílar var hann hannaður og settur í framleiðslu án mikils tilkostnaðar og í talsvert miklum flýti. Bíllinn kom á markað 1962 og var þá kallaður Chevy II. Dýrasta gerðin fékk nafnið Chevrolet Nova.

Sá var settur á markað til höfuðs VW Bjöllu (sem er næsta óskiljanlegt) og gríðarvinsælum Ford Falcon.

image
image
image

Chevy II

Chevy II eða Nova 400 var boðinn í tveggja og fjögurra dyra útgáfum með skotti og sem skutbíll, tveggja dyra kúpubakur og blæjari. Chevy II kom upphaflega með fjögurra strokka 120 hestafla vél á meðan Novan fékk 3.2 lítra sex sílindra línuvél.

image
image
image

SS merki um afl

Það var síðan um 1963 sem Chevrolet kynnti SS pakkann Nova í blæjuútgáfunni og kúpubaknum. Þá kynnti Chevrolet V8, 4.6 lítra vél sem gaf um 195 hestöfl og síðar vél sem gaf 220 hestöfl.

Chevrolet kynnti á sama tíma nýja vél sem kölluð var „Turbo-Thrift”, sex strokka vél sem gaf 155 hestöfl (hún var ekki einu sinni tengd túrbínu).

Þrátt fyrir alla kostina tók salan dýfu hjá GM á Chevrolet. Minni sala kom þó aðallega til vegna samkeppni við hinn meðalstóra Chevelle.

image
image
image

Aftur dró úr sölu Novunnar vegna samkeppni við bíla innan GM. Þeir töpuðu semsagt fyrir sjálfum sér í samkeppninni. 1965 komu þeir með nýjar V8 vélar sem voru 250 og 300 hestafla, 5.4 lítra buddur.

Vandræðagripurinn Corvair fékk dramatíska uppfærslu og  sama ár hélt Chevy II áfram að tapa fyrir Ford Falcon.

Það er síðan ekki fyrr en 1968 að Novan kemur með því lagi sem kallað hefur verið fastback. Bíllinn var boðinn í tveggja og fjögurra dyra útgáfum, kúpan og blæjan fengu að fjúka. Nú hét bíllinn Nova í öllum gerðum og fór að gera það gott.

image
image
image

Allt frá sleða upp í kagga

Vélarúrval Novunnar varð nokkuð fjölbreytt við þessar breytingar. 90 hestafla, fjögurra strokka, 2.5 lítra vél var sú minnsta. Tvær línusexur, 230 kúbik og 250 kúbik voru í boði. Tvær nýjar V8 vélar voru einnig í boði, 200 hestafla 307 kúbika, 5 lítra og 295 hestfla 350 kúbika, 5.7 lítra.

1968 Nova SS fékk síðan 295 hestafla 350 kúbika vélina sem gerði bílinn að alvöru kagga.

image
image

Novan átti miklum vinsældum að fagna fram eftir áttunda áratugnum en fór síðan að dala eins og margir amerískir bílar þess tíma.

Snubbóttur endir

Ég man eftir að faðir minn ætlaði að festa kaup á Novu árið 1977. Þá hét bíllinn Chevrolet Concourse og þótti afar flottur. Hjá Sambandinu var hann seldur í tveggja og fjögurra dyra útfærslum – með 6 eða 8 strokka vélum.

Councoursinn sem var í raun bara Nova hélt velli til ársins 1978 og var þá bíllinn, eins og flestir þekkja hann, dottinn uppfyrir.

GM hætti með hann og ætlaði að sigra heiminn með framleiðslu framhjóladrifinna bíla og kölluðu þá Chevrolet Citation.

image
image
image
image
image
image
image
image
image
image
image
image
Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is