Verstappen varð heimsmeistari í Formúlu 1, ekki bara vegna þess að hann er frábær ökumaður heldur líka vegna þess að liðið hans og liðsfélagi, Sergio Perez, unnu með honum að settu marki: Að vinna keppnina.

image

Max „þakkar“ bílnum og dekkjunum fyrir framlagið, en dekkin áttu sannarlega sinn þátt í sigrinum. Myndir: Getty/Red Bull

Tímasetningar voru frábærar hjá liðinu. Það er auðvelt að segja að heppnin hafi fylgt Verstappen og Red Bull í dag en tilfellið er að Verstappen vann titilinn vegna þess að hann var á nýjum dekkjum á ögurstundu, á síðasta hring keppninnar, tók fram úr Hamilton, vann keppnina og þar með titilinn.

Einstök samvinna ökumanna Red Bull

Perez átti líka sinn þátt í sigri Verstappens. Þegar Hamilton var búinn með eitt dekkjastopp var Perez fyrir framan hann, langt fyrir framan reyndar. Perez hægði á sér, nógu mikið til að fá Hamilton nærri sér og hægði svo á honum svo Verstappen komst í tæri við hann.

image

Perez að hægja á Hamilton og Verstappen nálgast.

Eins og annar íslenskur lýsandi keppninnar (á Viaplay), Kristján Einar Kristjánsson, orðaði það: „Þvílíkur maður! Ég hef séð þetta reynt áður en aldrei séð þetta virka,“ sagði hann um þessa einstöku samvinnu ökumanna Red Bull.

image

Allir af stað í upphafi keppninnar á meðan dagsbirtu naut enn við. Hamilton var heldur betur snöggur að ná forystu.

Slagurinn var því ekki bara Hamilton gegn Verstappen, nær væri að tala um Hamilton gegn Verstappen, Perez og Red Bull-maskínunni sem stýrði öllum aðgerðum sinna manna. Mercedes, með Toto Wolff fremstan í flokki, virtist ekki eiga nein „strategísk“ svör við útspilum Red Bull og því fór sem fór.

Engu að síður hampa þeir titli framleiðenda þetta árið og það skiptir miklu máli þegar litið er til þeirra tekna sem liðin hafa af sölu sjónvarpsréttar hvers árs.

Skyndilega breytt staða

Hamilton hafði til þess að gera örugga forystu þegar 6 hringir voru eftir af keppninni en þá ók Nicholas Latifi (Willliams) á einn veggja brautarinnar og stoppaði á brautinni með ónýtan bíl. Þá kom öryggisbíll út á brautina og ljóst að hópurinn myndi þéttast og Verstappen komast upp að Hamilton.

Red Bull tók þá ákvörðun að kalla báða ökumenn sína inn og skipta um dekk. Þetta átti eftir að verða afdrifarík ákvörðun. Verstappen fór út og kom aftur inn á brautina en þá voru enn fjórir bílar á milli hans og Hamiltons; bílar sem Hamilton var búinn að hringa en Verstappen ekki.

image

Reglur Formúlu 1 kveða á um að bílar sem hafa verið hringaðir, mega afhringa sig (fara fram úr öllum sem og öryggisbíl), þegar keppnisstjóri gefur merki þar um. Þannig komst Verstappen alveg upp að Hamilton.

Keppnisstjórn gaf hins vegar út að þessi leiðrétting skyldi ekki fara fram að þessu sinni og því mótmælti Christian Horner liðsstjóri Red Bull harðlega og voru þau mótmæli tekin til greina.

Þegar öryggisbíllinn fór af brautinni var einn hringur eftir af keppninni. Þá var Hamilton á haugslitnum hörðum dekkjum en Verstappen á glænýjum mjúkum dekkjum; ójafn leikur og framúrakstur Verstappens reyndist auðveldur.

image

Mikil spenna var hjá liðinu og enginn gat setið kyrr!

Það verður sjálfsagt ekki hægt að skera úr um hvor ökumannanna sé betri en Verstappen hafði betur. Hann bæði ók hraðar og nýtti sér það sem liðið hans og liðsfélagi gátu gert til að hjálpa honum. Verstappen er því heimsmeistari og er vel að þeim titli kominn.

B-O-M-B-A-N

Við þetta má bæta að Mercedes liðið lagði fram kæru á framkvæmd keppninnar; reyndar tvær kærur.

image

Ólafur Guðmundsson, fyrrum dómari í Formúlu 1, sagði að í fljótu bragði snérist fyrri kæran um það hvort þeir bílar sem voru á milli Hamiltons og Verstappens hafi enn átt að vera á milli þeirra þegar öryggisbíllinn fór af brautinni.

image

Ólafur Guðmundsson, Monza 2003.

Klukkan 19:50:

image

Fyrir fáeinum mínútum bárust þær fréttir að dómnefnd hefur vísað báðum kærunum frá og Mercedes hefur áfrýjað þeim úrskurði til FIA. Annað þessu tengt er að finna hér.

image

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Ljósmyndir: Bryn Lennon/Getty Images/RedBull

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is