Hvað gerir maður til að vekja athygli á mikilvægu málefni? Tjah, það segir sig nokkurn veginn sjálft: Maður fer á rallýbíl, mjög gömlum rallýbíl, á Suðurskautslandið. Ekki satt?

Nei, það er nú síður en svo sjálfgefið.

image

Project 356 World Rally Tour er eitthvað sem bandarísk kona að nafni Renée Brinkerhoff hefur undirbúið í nokkuð mörg ár. Eins og heitið „World Rally Tour“ ber með sér er rallað um allan heim.

image

Hún er ekkert blávatn hún Renée Brinkerhoff!

Það þýðir þá auðvitað ekki að sleppa Suðurskautslandinu. Enda gerði hún það ekki.

image

Hún er þar einmitt núna. Suðurskautslandið vill nefnilega ekki sleppa henni alveg strax en Renée átti (ásamt föruneyti) að fljúga þaðan í gær en það gekk ekki því veðrið var, og er sennilega ennþá, alveg tryllt.

image

Mynd tekin aðfararnótt þriðjudags 14. desember.

Rússnesk flutningavél sækir hópinn en þetta er merkileg vél af gerðinni Ilyushin IL 76-TD ef mér skjátlast ekki (það eru nú ekki margar gerðir af Ilyushin-vélum sem geta lent á ís-flugbrautinni  á Suðurskautslandinu). Reyndar gat vélin ekki lent í gær út af veðri – en nú er undirrituð komin svo langt frá kjarna málsins að þetta er orðið skammarlegt. Afsakið öll!

image

Bíðum nú við! Gleymdist ekki eitthvað hér?

Jú, mikil ósköp! Þessi grein kemur með upplýsingar í öfugri röð. En vindum okkur loks í það af hverju Renée er að ralla út um alla jarðarkúluna, 32.000 kílómetra allt í allt:

Hún er með þessu að vekja athygli á háalvarlegu vandamáli sem eitthvað þarf að gera í: Barnamansal.  

Árlega eru 1.200.000 börn seld mansali og á því vill þessi kona, fjögurra barna móðir sem komin er á sextugsaldurinn, vekja athygli og gera eitthvað í málunum. Ekki ætla ég að svara nokkru um hvernig áheitasöfnunin gengur fyrir sig en um það má lesa hér.

Hvernig ekur Renée 65 ára gamla rallýbílnum sínum á ísnum?

Það er nefnilega það sniðuga að búið er að græja þann gamla með skíðum og beltum og af ferðasögunni hennar á Instagram er ekki annað að sjá en að allt hafi gengið ljómandi vel.

image

Project 356 stendur ekki fyrir bílinn, sem er af gerðinni Porsche 356 A. Það vísar heldur ekki til árgerðarinnar, 1956, og er ekki heldur talnavíxl manneskju sem ætlaði að skrifa 365 fyrir meðaldagafjölda hvers árs.

image

Nei! Þetta er vísun í vegalengdina sem ekin var á Suðurskautinu á flotta rallýbílnum; 356 mílur eða 587 kílómetrar.

image

Áhugarallari sem er nú sennilega orðinn nokkuð „pro“!

Þó svo að Renée Brinkerhoff hafi lítið komið nálægt akstursíþróttum áður en hún fór út í þetta risavaxna verkefni þá myndi ég segja að hún hljóti að vera komin fram úr okkur flestum sem keppum í ralli út frá hinum hefðbundna mælikvarða.

image

Hún er nefnilega búin að aka rúmlega 30.000 kílómetra (eins og komið var inn á hér að ofan) og eftir þessa ferð, þ.e. þegar Suðurskautslandið sleppir henni og hún kemst heim, þá hefur hún rallað 32.000 kílómetra í þessu verkefni.

image

Renée hefur rallað í öllum heimsálfum á þessu eðaleintaki sem bíllinn hennar er, og það á hvers kyns undirlagi og í hvaða veðri sem hægt er að láta sér detta í hug.

Hin ýmsu röll hafa passað vel inn í leiðangurinn hennar og má þar nefna býsna krefjandi keppnir á borð við Peking-to-ParisEast African Safari Classic Rally og La Carrera Panamericana.

image

Þvílík kona! Þetta er nú alveg ótrúlega magnað hjá henni og þegar ég leitaði að greinum um Renée út frá Instagram-inu hennar rambaði ég á þessa grein þar sem ýmislegt má lesa um bílinn hennar og Renée sjálfa.

image

Já, hún er mögnuð og gaman að til sé svona fólk.

Ljósmyndir (stúdíó): Mark Riccioni/Porsche

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is