Dekk undir bílum hafa þróast hratt í gegnum tíðina; allt frá fyrstu dekkjunum sem voru úr hreinu „hrágúmmíi“, þar sem gúmmíkvoðan sem kom frá gúmmítrjánum var hert með efnablöndum svo það var hægt að búa til endingargóð dekk undir ökutæki.

Það var síðan árið 1946 sem Michelin kom fram með fyrsta radialdekkið, fyrirrennara flestra dekkja eins og við þekkjum þau í dag.

Gerviefnin koma til sögunnar

Allir dekkjaframleiðendur lögðu áherslu á að endurbæta framleiðslu sína og gera dekkin endingarbetri. Þar á meðal voru japanski dekkjaframleiðandinn Bridgestone, sem hafði framleitt sín fyrstu dekk árið 1930, og hafði gengið í gegnum miklar breytingar eftir heimsstyrjöldina.

Mikið var lagt í rannsóknir á notkun annarra efna til að koma í stað náttúrugúmmís og eins til að gera dekkin sterkari.

Árið 1951 var Bridgestone fyrsta fyrirtækið í Japan til að hefja framleiðslu á dekkja úr gerviefninu „rayon“ og síðan komu „nælondekkin“ til sögunnar árið 1959.

Nælondekkin og Ísland

Íslenski markaðurinn tók „nælondekkjunum“ fagnandi – hér voru komin dekk sem voru ótrúlega endingargóð, og vandamálið samfara lélegum íslenskum vegum að dekkin vildu springa, var mun minna en í eldri gerðum dekkja.

Fyrstu „nælondekkin“ sem hingað komu voru framleidd fyrir hlýrra loftslag en er venjulega hér á landi, og þess vegna voru dekkin glerhörð í kulda að vetri. Það varð til þess að þau voru hálli og oft var eina ráðið að setja keðjur undir bílinn þegar snjór var að einhverju ráði á vegum.

Þeir sem eldri eru muna kannski eftir því þegar „spariskór“ komu með nælonsóla sem voru nánast óbrúklegir að vetri vegna þess hve hálir þeir voru – sama átti við um dekkin.

Bronkóinn og dekkin frá Rolf

Þannig hagaði til um 1970 að sá sem þetta skrifar hafði eignast Ford Bronco. Dekkin undir bílnum voru orðin nokkuð slitin og það þurfti að endurnýja þau.

Ég var að vinna á Laugavegi 178 á þessum árum og í því sama húsi var heildverslun Rolf Johansen. Ég hafði kynnst Rolf ágætlega og ekki síður Friðriki Theódórssyni, góðum músíkant, sem var líka skrifstofustjóri hjá Rolf.

Heildverslun Rolf Johansen var á þessum árum umboðsaðili Bridgestone á Íslandi, og einn daginn hittumst við Frikki á ganginum og hann hafði tekið eftir því að ég var kominn á þennan ágæta Bronkó. Ég spurði hann þá á móti hvort hann ætti ekki góð dekk undir bílinn handa mér.

Hann greip þetta strax á lofti, tók í öxlina á mér og dró mig inn ganginn á heildsölunni, opnaði þar dyr og benti mér á fjögur dekk sem þar voru í stafla. „Hérna eru nákvæmlega dekkin sem þú þarft“! sagði Friðrik og kaupin voru handsöluð.

Þessi dekk höfðu komið sem sýnishorn, alvöru jeppadekk með stórum „kubbum“ en engu „fíngerðu“ mynstri eins og tíðkast á öllum dekkjum í dag. Þetta voru alvöru „nælondekk“! Og það var ekki búið að finna upp lausnina sem heitir „míkróskurður“ á þessum árum.

image

Ekki er til mynd af dekkjunum góðu sem hér er verið að ræða um, en þá var hvorki komið fíngert snjómynstur né naglar í dekki eins og fljótlega varð algengt.

Þegar Bronkóinn hringsnérist

Dekkin fóru undir jeppann næsta dag og voru frábær í akstri þarna um haustið, en svo kom veturinn, einn af þeim snjóameiri á þessum árum og þá var gott að vera á góðum jeppa – mínum ágæta Bronkó!

Þess vegna var oft gripið til þess ráðs að setja bara keðjur að framan, en sleppa þeim að aftan.

Ein ökuferð á Bronkónum þannig búnum eftir mikla snjókomu daginn áður var minnisstæð. Á þessum tíma átti ég heima í Setbergshverfinu ofan Hafnarfjarðar og ók því Hafnarfjarðarveginn daglega til vinnu.

Þegar ég kom á Arnarneshæðina var enn á veginum mikill snjór sem hafði troðist í umferðinni þannig að þar voru hæðir og hólar úr troðnum snjó á veginum en stundum nánast autt á milli.

Þegar það fór að halla í átt að Kópavoginum var engin umferð og því hraðinn aðeins aukinn, en á einu augnabliki snerist bíllinn á veginum og í stað þess að keyra niður brekkuna – þá var ég farinn að keyra upp aftur til baka. Þetta gerðist svo snögglega að ég hreinlega áttaði mig ekki á þessu. Það var svo mikil hálka í þessum troðna snjó að þegar ég stoppaði til að skoða málið, þá var varla stætt á veginum. Blessuð „nælondekkin“ sýndu þarna greinilega hvers þau voru máttug – eða þannig!

image

Því miður finn ég ekki myndir hjá mér af Bronkónum á þessum dekkjum, en hér er mynd sem þáverandi nágranni minn á Hraunbergsveginum, eins og gatan hét þá, Guðbjartur Gunnarsson skipstjóri, tók einmitt sömu dagana og ökuferðin var farin sem lýst var hér að ofan, og Bronkóinn stendur þarna við húsið okkar í baksýn.

En sem betur fer náðu dekkjaframleiðendur fljótlega tökum á því að gera „nælondekkin“ heppilegri fyrir hvaða veðráttu sem er, og sú þróun leiddi til þeirra dekkja sem við þekkjum í dag.

[Áður birt 1. janúar 2022]

Fleira dekkjatengt:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is