Árið 2021 voru 11.080 bílar afskráðir á Íslandi. Einhverjir fóru í endurvinnslu (eða til úrvinnslu), sumir „týndust“ eða var stolið og þeir mögulega fluttir úr landi. Svo  kemur það áhugaverða: 1.057 bílar voru fluttir úr landi. Það eru að meðaltali 88 bílar í mánuði, 22 stykki vikulega, já eða um 3 bílar á dag!

Týndu bílarnir

Það er erfitt að týna bíl, en hefur maður þó lent í því. Það var alveg grábölvað og ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð þegar ég kom út úr Þjóðarbókhlöðunni á háskólaárum mínum, gjörsamlega úrvinda og vissi varla hvort ég væri að koma eða fara.

Fann ég bílinn á 10 mínútum en trúið mér (þið sem aldrei hafið týnt bíl) að þetta er andstyggileg tilfinning.

image

Það er sannarlega andstyggilegt að týna bílnum. Þessi virðist hafa lent í einhverju álíka óheppilegu. Mynd/Unsplash

Þess vegna þótti mér áhugavert að sjá að af þeim 11.080 bílum sem afskráðir voru á Íslandi 2021 voru 130 bílar einfaldlega „týndir“. Ég er viss um að þeir eru ekki við Þjóðarbókhlöðuna og sennilega ekki heldur við önnur bóka- eða skjalasöfn.

image

Flokkun þeirra týndu 2021

Þarna eru til dæmis 2 vörubílar (N3) með leyfða heildarþyngd yfir 12.000 og 9 „vörubílar“ (N2) https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/822-2004 með leyfða heildarþyngd undir 12.000 (t.d. pallbílar).  

image

Á tíu ára tímabili höfum við samtals „týnt“ 1.370 bílum og þeir bara gjörsamlega gufað upp… Skjáskot/Hagstofa Íslands

Hvað verður um þessa bíla?

Fleiri en undirrituð hafa leyft þessum útflutningstölum að koma sér á óvart, enda hefur útflutningur á bílum ekki verið svo mikill síðan 2009. Hefur talan farið lækkandi síðan þá með einhverjum undantekningum.

image

Tölur yfir útflutning á bílum frá Íslandi síðustu tíu árin. Skjáskot/Hagstofa Íslands

Fyrir fáeinum vikum birtist í Morgunblaðinu frétt um vaxandi útflutning á bifreiðum og þar segir meðal annars: „Eft­ir hrunið voru sett lög í lok árs 2008, sem heim­iluðu að end­ur­greiða vöru­gjald af vél­knún­um öku­tækj­um sem voru af­skráð og flutt úr landi og giltu þau til árs­loka 2009. Ein­mitt það ár fór út­flutn­ing­ur bíla í hæstu hæðir. Þá voru flutt­ar út 2.253 bif­reiðar, en næst­mest var flutt út 2006 eða 1.133 bif­reiðar. Árið 2010 voru flutt­ar út 954 bif­reiðar, en síðan dróst þessi út­flutn­ing­ur sam­an með hverju ár­inu til árs­ins 2016.“

image

9.620 bílgarmar fóru til úrvinnslu á síðasta ári. Hér sést yfir starfsstöð Hringrásar og sýna skemmtiferðaskipin að þetta er tekið „fyrir Covid“. Mynd/M. Brand

Ekki erum við að flytja út tjónabíla?

Í nýlegri frétt á vef FÍB (Félags íslenskra bifreiðaeigenda) er fjallað um ófullnægjandi regluverk í kringum tjónabíla. Í fréttinni er haft eftir framkvæmdastjóra þjónustusviðs BL að töluvert sé „um útflutning á tjónabifreiðum og að gert sé við þá ytra eða þeir fari í partasölu en sömuleiðis að íslenskir aðilar taki það í sínar hendur. [Hann] segir jafnframt tíðkast að bílar fái skráningu frá aðilum með burðarvirkisvottorð til að geta skráð bílinn aftur á götuna þar sem liggja þarf fyrir að bíllinn hafi farið í viðgerð,“ segir m.a. í fréttinni sem lesa má hér.

Árið 2020 fluttust rúmlega 2.160 Íslendingar af landi brott og gera má ráð fyrir ekki svo ólíkri tölu fyrir árið 2021, eða í kringum 2000 manns miðað við hversu dregið hefur úr brottflutningi Íslendinga síðustu fimm árin.

image

Rúmlega þúsund bílar voru fluttir út árið 2021 og á það svo sem ekkert skylt við hversu margir Íslendingar flytja af landi brott. Skjáskot/Hagstofa Íslands.

Það kunna eflaust að vera ótal skýringar á því hversu margir bílar voru fluttir úr landi árið 2021. En sennilega hafa brottfluttir Íslendingar ekki tekið þessa bíla með sér. Þó svo að Íslendingar eigi ýmis met í hinu og þessu.

Í frétt FÍB sem vísað er í hér að ofan kemur einnig fram að félagið muni funda með stjórnvöldum, Samgöngustofu og Neytendastofu sem fyrst til að finna flöt á regluverkinu í kringum tjónabíla og munum við fylgjast með framvindu mála.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is