Fólksvagninn, Volkswagen, VW, Bjallan… Bjöllur heimsins eru fjölmargar og ekkert furðulegt að enn sé góður slatti til af þeim 21,529,464 sem framleiddar voru frá 1938 til 2003.

En ekki eru þær þó alls staðar kallaðar bjöllur með vísan til skordýrsins. Alls ekki!

image

Ljósmyndir/Unsplash

Ekki algjör padda!

Nú væri rökrétt að ætla að þar sem fljótlega var farið að kalla Volkswagen „Käfer“ í heimalandinu Þýskalandi (Käfer þýðir bjalla) myndi pöddutengingin loða við bílkvikindið í hvaða landi sem er. Bug eða Beetle-bug kallast bíllinn sá í Bandaríkjunum. Í Kanada, Englandi, Ástralíu og Nýja-Sjálandi er það Beetle.

Padda eða bjalla? Skiptir ekki öllu þó að padda sé nú öllu leiðinlegra og víðtækara en bjalla. Þessi bjöllu-pöddutenging er nú bara tilkomin af lögun bílsins og allt í sóma með það.

image

Tekur paddan á sig ýmsar myndir hér og þar í heiminum og nefni ég nokkur dæmi :

Pulga (fló) í Kólumbíu

Cucaracha (kakkalakki) í Gvatamala og Hondúras

Coccinelle (maríubjalla eða maríuhæna) í Frakklandi

Жук (bjalla) í Rússlandi

Maggiolino (aldinborri sem er bjöllukyns) á Ítalíu

Fusca (svartur maur) í Brasilíu, Úrúgvæ og Paragvæ

image

Fleiri kvikindi bætast við

Nú gerist eitthvað voðalega undarlegt því ekki ólíkari lífverur en froskar og skjaldbökur bætast við heitin blessaðrar „bjöllunnar“.

Sapito (karta eða eitthvert stökkvandi froskdýr) í Perú

Kodok (froskur) í Indónesíu

Ghoorbaghei قورباغه ای  (froskur) í Íran

Agroga عكروكة (lítill froskur) eða  Rag-gah ركـّة (lítil skjaldbaka) í Írak

Peta (skjaldbaka) í Bólivíu

Косτенурка (skjaldbakja) í Búlgaríu

Kaplumbağa (skjaldbaka) í Tyrklandi

Broasca (lítill froskur) eða Buburuza (maríubjalla) í Rúmeníu

image

Svo eru það „búbblurnar“ eða bólurnar

Í Skandinavíu er þetta spes með Bjölluna því þar er hún nú bara bóla:

Boblen (bóla) í Danmörku

Kupla í Finnlandi

Boble í Noregi

Bubbla í Svíþjóð

Bobla í Færeyjum

image

Ástæðan er sennilega sú að ef skordýratengingin fengi að haldast í þessum löndum yrði sumt alveg agalegt:

Bille í Danmörku

Kovakuoriaine í Finnlandi

Bille í Noregi

Skalbagge í Svíþjóð  

Klukka í Færeyjum

Svíar og Finnar myndu koma illa út úr þessu pöddulega séð og þá er nú búbblan eða bólan betri.

image

Alveg óskylt kvikindum hvers kyns

Að lokum er það sérstaki flokkurinn en þar er lítil tenging á milli útlits bílsins og þess sem hann kallast.

Cepillo  (bursti eða hefill, jafnvel skafa) í Dóminíska lýðveldinu

Poncho (sem ég fæ ekki betur séð og skilið en vísi til herðaslárinnar fremur en einhvers „padd-kyns“)  í Chile

Garbus (kryppa) í Póllandi

Og hér er það síðasta og besta:

Banju Maqlub (baðker á hvofi) á Möltu

image

Saga VW Bjöllunnar var rakin í býsna góðri grein eftir Jóhannes Reykdal og hér er hún:  Bíllinn sem vildi ekki deyja

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is