Þá skipti lengdin máli

Fyrir svona fimmtíu árum voru það stórir bílar með stórum vélum sem þóttu flottastir allra. Í dag er meiri áhugi á litlum bílum með litlum vélum. Við tókum nokkra af lengstu fólksbílum sögunnar til skoðunar. Bíla frá þeim tíma þegar lengdin skipti máli.

Reyndar pældu nokkrir af framleiðendunum í styrk stuðaranna og vildu að bílar sínir þyldu allavega smá aftanákeyrslu.

Vegakerfi Bandaríkjanna var stútfullt af stórum bílum á sjötta og sjöunda áratugnum. Þeir voru með risastuðara, löng og mikil húdd – enda vélarnar engin smásmíði og krómið var í algleymingi.

Hér kemur upptalning á þeim stærstu í sögu bandarísku bílanna.

1962 Dodge Custom 880

image

Dodge Custom var framleiddur til ársins 1965. Dodge-inn var um 5,4 metrar að lengd og kom með tveimur vélarstærðum; V8, 265 hestafla og V8, 305 hestafla vélum sem þóttu ekki nærri nógu stórar fyrir þessa stærð af bíl.

1975 Dodge Charger SE

image

Orðið Charger fær mann til að hugsa um meiri kraft en minni. Charger SE er ekki líkur nafna hans sem við þekkjum í dag. Hann hentaði illa í Nascar vegna klossaðrar innréttingar og stórra sæta. Lengdin á þessum var tæpir 5,5 metrar. Því miður náði kagginn ekki miklum vinsældum og var aðeins framleiddur í 31 þúsund eintökum árið 1975.

1970 Ford LTD

image

Þessi seldist í tæpum 7.800.000 eintaka að meðtöldum systurbílum hans af Mercury gerð frá 1969 og 1978. Slatti af bílum það. Þetta var einn stærsti bíll sem Ford bauð upp á á áttunda áratugnum.  LTD minnti aðeins á Thunderbirdinn, allavega hvað grillið og lokuð ljósin varðar. Það var nokkuð vel í lagt með vélarstærðir. Hægt var að fá 302 V8 vél, 5 lítra og 7 lítra. Ford LTD var um 5,5 metrar að lengd.

1971 Buick Riviera

image

Þriðja kynslóð Buick Riviera kom á markað 1971. Þetta var breiður og mikill bíll með rosalegum afturenda (bátslaga). Bíllinn náði því miður ekki flugi þrátt fyrir heilmikla fyrirhöfn í hönnuninni. Til dæmis voru lofttúður á skottlokinu sem áttu náttúrulega að draga inn loft en tóku meira af vatni en lofti.

1969 Dodge Polera

image

Fimm mismunandi boddý gerðir í boði og 230 (3,7 lítrar), 381 (6,2 lítrar) og 440 (7,2 lítra) vélar. Dodge ætlaði þarna að sigra heiminn með fimm mismuandi gerðir í boði af þessum risa.

1973 Chevrolet Impala Custom Coupe

image

Árið 1973 hljómuðu auglýsingar GM frekar eins og framboðsauglýsingar en bílaauglýsingar. „Betri leið til að sjá Bandaríkin”.  Grunngerðin var með frekar lítilli 360 (6 lítra) V8, 145 hestafla vél sem hugsuð var til að þú gætir lullað hraðbrautirnar án þess að vera alltaf að stoppa og taka bensín. Hins vegar var Impala einnig í boði með 455 (7,5 lítra) V8, 245 hestafla rokki sem saup aðeins meira bensín. Impala þessi var rúmir 5,6 metrar að lengd.

1976 Cadillac Eldorado Convertible

image

Á þessum bíl hefði verið gott að hafa myndavél í mælaborðinu sem sýndi fram fyrir húddið. Þvílík lengd á húddum þessara fáka. Þessi kaggi var aðeins 2,4 tonn að þyngd og Cadillac vildi með þessum bíl leggja áherslu á að þetta yrði síðasti blæjubíllinn í þessum stærðarflokki. Hann væri einfaldlega of þungur og eyddi of miklu. Það var heldur engins smásmíði í vélarsalnum, 8,2 lítra V8 vél sem gaf sem gaf þó aðeins um 235 hestöfl. Caddinn var um 5,7 metrar að lengd.

1976 Ford Thunderbird

image

Hugsið ykkur tímann sem fór í að bóna stuðarana á þessum risum. Og þá var grillið eftir. Fordinn var með 460 (7,5 lítra) V8 vél, kostaði um milljón á verðlagi ársins 1976. Thunderbirdinn var um 5,8 metrar að lengd.

1977 Dodge Royal Monaco

image

Frekar hefðbundinn dreki en samt með smá lúxus enda öskubakki bæði fram í og aftur í. Aukabúnaður var til dæmis læst bensínlok og digital klukka í mælaborði. Dodge-inn var um 5,73 metrar að lengd.

1970 Buick Electra 225

image

Electran hafði reyndar aðeins flökt um í stærðarrófinu. En árið 1970 skipti lengdin máli. Buickinn kom með 455 (7,5 lítra) V8 vél sem gaf hvorki meira né minna en 370 hestöfl. Þetta var því enginn aumingi sem þarna fór um götur og torg. Þessi Buick Electra 225 var um 5,7 metrar að lengd.

1972 Lincoln Continental Mark IV

image

Lincoln þótti með þeim flottari í drekageiranum við hlið Ford Thunderbird, enda frá sama framleiðanda. Þennan kagga var hægt að fá í fjölda sérútgáfa. Hægt var að fá bílinn í Gucci, Givenchi og Cartier útgáfum. Þá var um að ræða eitthvert glitur í mælaborðum, sérlit og límstafi með nafni eiganda. Lincolninn náði tæpum 5,8 metrum að lengd.

1970 Imperial Crown

image

Chrysler hafði notað Imperial nafnið frá þriðja áratugnum. Frá 1955 til 1975 framleiddi Chrysler Crown til að keppa við Cadillac og Lincoln. Chryslerinn var svo sem ekki hlaðinn lúxus en það sem hann hafði til að bera voru reyndar flott leðursæti og 440 (7,2 lítra) V8 vél sem gaf um 350 hestöfl. Crown var um 5,8 metrar að lengd.

1975  Cadillac Coupe de Ville

image

Hér erum við að sjá einn þann lengsta, nánast eins og alvöru snekkja að lengd. Cadillacinn var sérlega vel búinn. Hægt var að velja um loftpúða fyrir ökumann og skriðvörn sem aukabúnað. Og að sjálfsögðu hvíta hringi á hjólbarðana. Caddinn var um 5,9 metrar á lengd.

1978 Chrysler New Yorker Brougham

image

Þetta var síðasta ár Chrysler í drekasögunni. 6,5 lítra bensínvél var staðalbúnaður. Aukabúnaðurinn var AM/FM steríógræjur með rafstýrðu loftneti og rásaleit með fótstigi. Hægt var að fá bílinn með minni vélum í Kaliforníu þar sem eldri borgarar Bandaríkjanna höfðu komið sér fyrir og þurftu kannski ekki eins öfluga bíla. New Yorkerinn var um 5,86 metrar að lengd.

1974 Oldsmobile Ninety Eight LS

image

Eitt elsta bílamerkið í Bandaríkjunum er Oldsmobile. 7,5 lítra V8 bensínvélin fór þessum bíl alveg prýðilega. Árið ’74 voru reglur þannig að bíllinn átti að geta þolað aftanákeyrslu á tæplega 10 km hraða. Þess vegna voru stuðararnir aðeins þykkari. Ninety Eight var um 5,9 metrar að lengd með þessum risa stuðurum.

1979 Lincoln Continental Town Car

image

Ef ykkur fannst Continental Mark IV langur þá er þessi Continental Town Car stærri. Ég er að segja ykkur það! Hér var allt lagt í sölurnar, lúxus á lúxus ofan og lengdin aldrei meiri. Þarna gastu keypt þér „minnisvarða” um húddlöngu drekana sem voru að leggja upp laupana. Þessi náði 5,92 metrum að lengd.

1975 Buick Electra 225

image

Árið 1975 var Electran einn sá stærsti á markaðnum. Buick fullyrti að þetta væri bíllinn fyrir þá sem vildu ófrávíkjanlegan lúxus. En 455 (7,5 lítra) V8 vélin hafði því miður lent í niðurskurði á hestöflum vegna útblásturstakmarkana og bensíneyðslu. Vélin gaf aðeins 205 hestöfl. Lengdin var um 5,94 metrar.

1973 Imperial LeBaron

image

Hér erum við að tala um methafann. Einn lengsti bíll sem Kaninn hefur framleitt og markaði sögulok Imperial gerðar Chrysler. Bíllinn var 5,97 metrar að lengd og skottið átti svo sannarlega sinn þátt í þeirri lengd. Í lok áttunda áratugarins hurfu „teppin” eins og þessir bílar voru stundum kallaðir hér á landi af markaðnum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is