Það þótti heldur betur magnað árið 1968 þegar bifreið var flutt frá Íslandi til annars lands með þotu!

Fyrirsögn fréttarinnar: „Bifreið til London á tveim tímum – Gullfaxi með nýstárlegan farm“

„Þota Flugfélags Íslands annaðist nú fyrir skömmu nýstárlega flutninga. Nú eru ekki lengur vandræði því samfara að flytja bifreiðir millilanda. Liggi mönnum á slíkum flutningum er vandinn ekki annar en að hafa samband við Flugfélagið og að fáum klukkustundum liðnum er bíllinn kominn í fjarlægt land. Þetta gerðist nýlega. Bíll í eigu brezks ríkisborgara var fluttur héðan til London með Gullfaxa, þotu Flugfélagsins,“ sagði í frétt Vísis.

image

Þotan, sem var af gerðinni Boeing 727, var keypt ný frá verksmiðjum framleiðandans og var henni ákaft fagnað við komuna til landsins í júní 1967. Eins og glöggt má sjá af framhaldi fréttarinnar var Gullfaxi mikill og merkur gripur.  

image

Gullfaxi á Reykjavíkurflugvelli. Ljósmynd/Tíminn, 27. júní 1967

„Eins og kunnugt er af fréttum er þotan útbúin stórum vörudyrum, og eins og sjá má á myndinni, sem tekin var, þegar bíllinn var settur um borð hér í Reykiavík, áttu starfsmenn félagsins ekki í neinum vandræðum með að koma bifreiðinni fyrir. [...] Í vetur hefur framhluti þotunnar verið nýttur til vöruflutninga, en um þessar mundir aukast farþegaflutningar á ný og öll 114 sæti flugvélarinnar verða nýtt til farþegaflutninga.“

image

Auglýsing sem birtist í Tímanum nokkrum dögum eftir komu Gullfaxa til landsins.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is