Næstu þrír rafbílar Skoda verða minni en Enyaq

Sjö sæta rafmagnsjeppi er ekki líklegur en forstjóri Skoda segir „aldrei að segja aldrei“

Við fjölluðum um frumsýningu á nýja Skoda Enyaq iV í vikunni, og í tilefni frumsýningarinnar fjallaði forstjóri Skoda um það sem væri í vændum hjá fyrirtækinu:

Í stuttri tölu við kynningu á Enyaq iV Coupe sagði Schafer eftirfarandi: „Enyaq iV fjölskyldan er aðeins byrjunin á herferð okkar í rafrænum hreyfanleika. Við erum nú þegar með þrjú rafknúin farartæki á leiðinni sem verða kynnt á næstu árum.“

image

Næstu þrír bílar frá Skoda verða minni rafbílar - sagði forstjórinn við kynninguna á Enyaq iV.

Spurður hvort við gætum séð sjö sæta rafbíl í Skoda-línunni sagði Schafer: „Aldrei að segja aldrei. Eitt skref á eftir öðru - við elskum Enyaq og það er forgangsverkefni okkar.“

Búnir að festa sér nafnið „Elroq“

Fyrr á þessu ári lagði Skoda fram skráningu á vörumerki fyrir „Elroq“ nafnið, sem mögulega vísar til lítils rafmagnsjeppa sem er svipaður að stærð og Karoq sem er með brunahreyfli.

Hin tvö módelnöfnin sem eftir eru ættu einnig að byrja á „E“ þar sem Skoda mótar nöfn sín fyrir rafbíla með þeim hætti.

Allir þrír rafbílar ættu einnig að vera byggðir á útgáfu af MEB grunni Volkswagen Group, sumir hugsanlega á MEB Entry-grunninum sem verið er að þróa fyrir minni rafmagnsbíla.

Einfalda innri búnað án þess að draga úr gæðum

Eitt sem er nokkuð öruggt er að Skoda mun ekki gera málamiðlanir um gæði innanrýmis. Fyrirtækið hefur sagt að það ætli að draga úr flækjustigi í flota sínum um 40 prósent til meðallangs tíma, en þessi hagræðing verður gerð með því að fjarlægja nokkra sérsniðna valkosti.

Schäfer sagði: „Staðreyndin er sú að á síðasta áratug höfum við orðið mjög flókin. Við höfum leyft okkur þann munað að hafa – ég held að það hafi verið um 16 mismunandi stýri í Octavia.

Hvers vegna er það nauðsynlegt? Viðskiptavinir okkar kunna ekki að meta þetta. Það er mýta að trúa því að þetta muni selja fleiri bíla eða gera viðskiptavini okkar ánægðari - það er bull.“

Enyaq ruddi brautina

„Þannig að við fórum í gegnum gerð fyrir gerð, skoðuðum valkostina og komumst að því að við myndum gefa viðskiptavinum okkar meira með því að þétta framboðið. Og Enyaq ruddi brautina þegar hann kom á markað.“

image

Innanrýmið í nýjum Enyaq iV Coupe sem frumsýndur var í vikunni.

Draga úr losun en óákveðið með framhald brunavéla

Skoda gaf einnig út nokkrar frekari upplýsingar um víðtækari stefnu sína og áform um að draga úr CO2 losun sinni á næsta áratug.

Fyrirtækið stefnir á 50 prósenta minnkun á flota sínum samanborið við framleiðslu árið 2020, þó að Skoda hafi ekki enn ákveðið hvenær framleiðslu brunahreyfla bíla verði hætt.

Framleiðsluaðferðir verða einnig uppfærðar til að lækka koltvísýringslosun, þar sem tékkneskar og indverskar verksmiðjur Skoda miða að núllkolefnislosun frá 2030 og áfram.

Selja bíla gegnum app

Skoda mun einnig flytja sölukerfi sitt á netið og færast frá hefðbundnum umboðum yfir í snjallsímaforrit þar sem kaupendur geta tilgreint og pantað nýja bíla.

(Automotive News Europe)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is