Alþingi fer á (ó-)kostum árið 2020 í (ó-)lagasetningum

-lagaumhverfið með notaða bíla og tryggingar ökutækja hefur verið nánast gjöreyðilagt

Árið 2020 er afar óhagstætt kaupendum notaðra bíla en „heiðurinn” af því á Alþingi Íslands.

Við höfum áður fjallað um ósanngjörn tryggingalög sem tóku gildi 1. janúar 2020 í þessari grein og viðbrögð þriggja hagsmunaaðila við þeim eins og sjá má hér.

image

Við hjá Bílablogginu fréttum um nauðungarsölu sem mun fara fram í þessum mánuði að kröfu eins tryggingafélagsins sem byggist á þessum (ó-)lögum.

Umræðuna má finna hér. Eigandi bifreiðarinnar er fimmti eigandi bílsins síðan tryggingaskuldin myndaðist. Í svona tilfellum, þó það sé ómögulegt eða því sem næst fyrir væntanlegann kaupanda eða bílasala að komast að því hvort það hvíli tryggingaskuld á bílnum, þarf nýi eigandinn að greiða skuldina eða tapa bílnum. Það virðist ekki sjálfgefið að tryggingafélag þurfi að samþykkja að taka við greiðslu skuldarinnar það gæti mögulega haldið nauðungarsölunni til streitu og hirt allann ágóðann af sölunni. En kannski eru einhverjar tálmanir sem koma í veg fyrir það í öðrum lögum?

Lögin um bifreiðatryggingarnar fóru í gegnum Alþingi með umræðum í mýflugumynd og í gegnum nefnd.

En þetta var ekki það eina sem Alþingi afrekaði á árinu. Í mars síðastliðnum voru felldar út greinar í ýmsum lögum og m.a. nokkrar í lögum um verslunaratvinnu. “IV. KAFLI, Um sölu notaðra ökutækja.” var breytt verulega.  

Það er örugglega gott mál að einfalda lög en það er verra þegar það leiðir til breytinga sem bæta ekkert eða færa hluti í verra horf.

Ég hlakka til að fara út í blómabúð, kaupa mér notaðan bíl og fá svo tilkynningu frá sýslumanni um að hann verði settur á nauðungarsölu á næstu dögum af því einhver fyrri eigandi greiddi ekki tryggingu af bílnum.

Á Alþingi situr afgreiðslufólk, sýnist mér, sem hefur ekki áhuga á vinnunni sinni. Lesa ekki lögin sem er verið að greiða atkvæði um eða hreinlega skilja þau ekki eða hvaða afleiðingar lagabreytingarnar hafa. Ef það fer fram einhver umræða þá er útilokað fyrir þann sem ber frumvarpið fram að skipta um skoðun og taka rökum. Fúsk og andvaraleysi!

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is