Febrúarmánuður er frægur hér á landi. Frægur fyrir veður sem er eflaust með því versta í heimi sé mið tekið af höfðatölu. Svo vont var veðrið í febrúar bæði 1981 og 1991 að bílar tókust á loft og Engihjallinn í Kópavogi varð frægur, rétt eins og sjálfur febrúar. Þá var nefnilega „fokið í flest skjól“ í orðsins fyllstu.

Fréttamanni nóg boðið

„Þetta er hið ógeðslegasta veður á alla lund,“ sagði fréttamaðurinn Óðinn Jónsson í útvarpsfréttum þann 3. bebrúar árið 1991. Það er nú ekki oft sem fréttamenn nota orðið „ógeðslegt“ en þarna var mínum fyrrum kollega, Óðni Jónssyni, svo endanlega nóg boðið af veðurofsanum að orðið ógeð var vel við hæfi til að lýsa því sem boðið var upp á af veðurúrvali náttúrunnar. Hlusta má á upptökuna af frétt Óðins hér.

image

Hér má sjá nýbyggingu í Engihjallanum og allt á tjá og tundri. Mynd úr frétt Ríkissjónvarpsins 1981.

Enda eru þessi ósköp sem Íslendingar upplifðu í febrúar 1981 og 1991 enn með versta veðri sem gengið hefur yfir landið frá því orðasambandið „vont veður“ varð til. Eða svo gott sem.

Færri hlöður fjúka nú

Það eru færri hlöður á Suðurlandi sem geta fokið í óveðrinu núna en hins vega fleiri ökutæki og hjólhýsi eins og Trausti kom skemmtilega inn á í sömu frétt og vísað var í hér fyrir ofan:

„Það fuku engir tjaldvagnar eða hjólhýsi fyrir hundrað árum og almennt er það mun meira sem getur fokið í dag heldur en snemma á síðustu öld. Síðan er misjafnt hvar veðrið ber niður. Eðlilega verður meira tjón ef það gerir fárviðri í þéttbýli heldur en í dreifbýli þar sem minna er af mannvirkjum og munum."

Trausti sagði líka að ljóst væri að veðrin 1991 og 1981 væru einhver þau alverstu sem sögur færu af hér á landi.

image

Veðrið lagði þessa bensíndælu að velli. Það fór margt á hliðina í veðurofsanum 1991. Skjáskot/YouTube

Það er um að gera að rifja þetta upp til að minna á að ekkert sé svo vont að það geti ekki versnað en líka til að minna á að þetta hefur sko verið mun verra en það er núna. Með fullri virðingu fyrir leiðindunum sem gengið hafa yfir landið síðustu klukkustundrnar með tilheyrandi óþægindum og tjóni.

Bílar tókust á loft og bústaður fauk í heilu lagi

Sem fyrr segir þá var urðu tugþúsundir Íslendinga fyrir tjóni vegna veðurofsans þann 3. febrúar árið 1991. Þann dag varð nefnilega mesta tjón sem orðið hefur á mannvirkjum í einu fárviðri hér á landi, að þávirði meira en 1 milljarður króna.

Annað af langbylgjumöstrunum á Vantsendahæð hrundi í óveðrinu, í Önundarfirði fauk sumarbústaður á haf út í heilu lagi og í Hrunamannahreppi splundraðist fjárhús.

Já, þó að rafmagn hafi sums staðar farið af í nótt og svona þá er þetta kannski ekkert 1991-veður.

image

Þó að myndgæðin verði ekki metin í fiskum má vel sjá að þarna í Engihjallanum árið 1991 fauk bíll. Skjáskot/youTube

„Engihjallaveðrið“ sem frægt er vísar þó aðallega til veðurofsans árið 1981 þó svo að Engihjallinn hafi endurvakið frægð sína áratug síðar með sendingum bíla í loft upp og fleira í þeim dúr.

Tengt efni:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is