Það er til heill hellingur af fólki í heiminum sem passa þarf sérstaklega upp á. Ekki endilega vegna þess að það sé klaufalegra en annað fólk eða sjái verr. Nei, þetta er fólkið sem á sér í mörgum tilvikum fleiri óvildarmenn en gengur og gerist. Yfirleitt af pólitískum ástæðum.

Engar áhyggjur gott fólk! Fyrr mun ég dásama breska matargerð en taka upp á því að fjalla um pólitík. Það geri ég ekki.

Hins vegar er það nú svo að í kringum allt þetta fólk sem passa þarf vel og vandlega upp á, sérstaklega í kringum þjóðhöfðingja, eru oftar en ekki voðalega fínir bílar. Þar liggur nú tengingin.

12 menn á hlaupum

Byrjum á leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-Un. Það er æði margt óvenjuleg í kringum hann því þannig vill hann jú hafa það, skilst manni. Þegar hann fór í „visitasíu“ til Suður-Kóreu í september 2018 vakti það athygli margra að hópur manna á hlaupum gætti bíls leiðtogans. Eða öllu heldur leiðtogans sjálfs.

image

Upp brekkur og niður brekkur. Alltaf hlaupa þeir! Skjáskot/YouTube

Tylft manna var á harðahlaupum við bíl leiðtogans. Bíllinn er brynvarin limúsína  af gerðinni Mercedes-Maybach S600 Pullman Guard sem er sko ekkert slor: Twin-Turbo V12 og hestöflin vel yfir 500. Bætum svo körlunum 12 við og þá eru þetta ábyggilega þúsund hestöfl. En auðvitað draga mennirnir ekki bílinn. Hlutverk þeirra mun vera að verja flestar hliðar bílsins. Þó ekki framhliðina. Það væri vesen.

Hér er dálítið sýnishorn (eða sýnishlaup):

Í „strætó“ og leyniskyttur hér og þar (aðallega þar)

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, er voða vinsæll. Það er að segja vinsælt skotmark, ef marka má allan viðbúnaðinn þegar maðurinn fer eitthvert. Fjöldi bíla ekur saman í hóp og leyniskyttur eru, auðvitað í leyni, þar sem þær sjá vel yfir svæðið.

image

Athygli vekur að stundum vill Erdogan nú bara vera í strætisvagni eða rútu sem sannarlega er umkringd fjölda bíla og mótorhjóla. Hér á myndinni (skjáskoti af YouTube) er MAN-rúta forsetans og hún er að sjálfsögðu með skotheldum rúðum og svoleiðis.

Þegar forsetinn krefst þess að fara á rútunni þurfa einhverjir línudansarar að vera uppi  á þaki rútunnar; tilbúnir að plaffa óvini um leið og þeir þurfa að passa sig í blessuðum beygjunum.

Hér er reyndar ekið mjög hægt þannig að karlarnir á þakinu ultu ekki neitt:

Annars virðist Erdogan vera nokkuð spenntur fyrir langferðabílum; fyrir ári síðan varð hann fyrsti forseti heims til að fara í bíltúr í sjálfkeyrandi rafstrætisvagni og er myndin fyrir neðan tekin á þeim merka degi.

image

Mennirnir sem teygðu sig lengst út um glugga

Þegar Shinzo Abe var forsætisráðherra Japans fór nokkuð fyrir honum og fylgdarliði hans. Mikil bílastrolla var þá fyrir framan og aftan bíl ráðherrans og úr varð oftar en ekki dálagleg fylking brynvarinna eðalbíla.

image

Það var eitt nokkuð sérstakt við allt umstangið en það var þegar bíll ráðherrans þurfti að komast framhjá umferðarteppu: Þá fóru lífverðirnir hálfir út um glugga fylgdarbílanna til að gefa öðrum ökumönnum merki um að hægja á sér og hleypa bíl forsætisráðherrans framhjá.

image

Fyrir vikið þurfti ekki að stöðva umferðina eða loka götum á meðan.

Hér má sjá fimi gluggameistaranna:

Áður var fjallað um (með aðstoð myndbands) hvernig málum er háttað hjá Bandaríkjaforseta en hlekkur á þá umfjöllun er hér fyrir neðan. Strollan sem fylgir forsetanum í Vesturheimi er að sjálfsögðu sú stærsta og mesta í heimi.

Það var ætlunin að taka fleiri „varðhunda“ fyrir en látum þessa duga í bili. Maður varð auðvitað bara dauðþreyttur að sjá mennina tólf hlaupa svona mikið í kringum Maybach-inn að það hálfa hefði meira að segja verið yfirdrifið nóg!

Tengt efni: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is