Rafliðar og bilanagreining tengd þeim

Rafliðar eru það sem flestir kannast við sem relay sem er enska orðið. Rafliðar sitja oftast sáttir við hliðina á öryggjum sem eru í plastkössum sem í daglegu bifvélavirkjamáli eru kallaðir öryggjabox sem er ekki ólíklegt að ættu að kallast varkassar á íslensku.

image

Nokkrir dæmigerðir rafliðar og sökkull fyrir rafliða.

Rafliði er rofi sem er yfirleitt virkjaður með öðrum rofa og veitir straumi að einhverjum rafmagnsnotanda eins og kæliviftum, ljósum eða eldsneytisdælu.

image

Inni í rafliða er rafsegull  og snertlur á armi (efst á myndinni).

Í eftirfarandi stutta myndbandi eru mjög hnitmiðaðar skýringar á virkni rafliða. Takið eftir því þarna er fjallað um 5 póla rafliða (flestir eru 4 póla í bílum) sem eru oft notaðir fyrir aðalljós og þá eru tveir útgangar; annar fyrir háa og hinn fyrir lága geislann.

image

Skoðið teikninguna vel en skýringar fylgja hér á eftir

Bilanaleit í rafkerfi hefst oftast á því að kanna hvort öryggin séu í lagi. Ef þau eru í lagi þá beinist leitin gjarnan að rafliða sem er í þeim hluta rafkerfis bílsins sem er bilaður.

Viðfangsefnið er Opel/Vauxhall Corsa sem startar ekki. Lyklinum snúið en ekkert gerist.

Ein fljótleg leið til að finna út úr hvorum megin við rafliðann bilun er, er að tengja vír á milli 30 og 87 (eða 87a) í sökklinum í öryggjaboxinu.

Bara tengja snöggt á milli og sjá hvort notandinn fer í gang. Ef hann gerir það þá eru yfirgnæfandi líkur á því að notandinn og allt rafkerfið frá öryggjaboxinu sé í lagi.

En þá er annað hvort rafliðinn bilaður eða hann fær ekki jörð eða straum. Þá er hægt að tengja straum frá 30 eða 86 í öryggjaboxinu (fastur straumur frá rafgeymi eða svissstraumur) inn á 86 á rafliðanum og tengja vír frá 85 á rafliðanum í jörð eða 85 í öryggjaboxinu.

Það kemur að miklu gagni að hafa rafmagnsteikningar við höndina í svona bilanaleit.

Einn möguleiki til að fá rafmagnsteikningar í símann (bæði Apple og Android) er að ná í Carmin sem er ókeypis forrit en hægt að kaupa áskrift ef maður vill geta prentað og sleppa við auglýsingar o.fl. Þetta forrit er ekki með nærri því allar rafmagnsteikningar sem maður þarf á að halda en maður getur þó fengið þær margar fyrir lítið eða ekkert fé í gegnum Carmin.

[Birtist fyrst í febrúar 2022]

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is