Nýr 2022 Mazda CX-60

Nýr 2022 Mazda CX-60 tengitvinnsportjeppinn sem var frumsýndur í dag er öflugasti bíll fyrirtækisins frá upphafi

Mazda CX-60 er fyrsti tengitvinnbíll vörumerkisins og er hannaður til að fara í samkeppni við sportjeppa eins og BMW X3

image

Gefum Felix Page hjá Autocar orðið:

„Mazda CX-60 er kominn í efsta sæti evrópskrar vörulínu vörumerkisins, og kemur með fyrstu tengitvinn-aflrás Mazda, sem parar saman 2,5 lítra fjögurra strokka bensínvél og rafknúinn mótor í nýja átta gíra gírkassanum. Útkoman er 323 hestöfl og 500 Nm, sem gerir þetta að öflugasta fólksbíl vörumerkisins hingað til.

Á sama tíma veitir 17,8kWh rafhlaða akstursdrægni allt að 60 km. Þessar tölur gera bílinn vel samkeppnishæfan gagnvart PHEV keppinautum á svipuðu verði; Volvo XC60 Recharge og BMW X3 xDrive40e.

Búist er við að aflrás CX-60 PHEV komi honum úr 0-100 km/klst á 5,8 sekúndum og losi aðeins 33g/km af CO2 á WLTP blönduðum akstri.“

image

Beint í samkeppni við þýsku úrvalsmerkin

Auto Express á Englandi dregur ekki neitt úr heldur, og gefum hér Yousuf Ashraf hjá Auto Express orðið:

image

CX-60 er stærri en CX-5 crossover og er í anda „Kodo“ hönnunarstefnu Mazda sem leggur höfuðáherslu á einfaldleika.

Mjúkur framendinn er með stóru, vængjuðu grilli sem blandast inn í framljósin með mjóum LED dagljósum (sem einnig eru stefnuljós), í samræmi við núverandi „fjölskyldusvip“ Mazda.

image

Nýjar drifrásir og tengitvinn

CX-60 er með glænýjum aflrásum í öllu framboðinu. Frá og með kynningu verður hann aðeins boðinn sem tengitvinnbíll, sem parar saman 2,5 lítra fjögurra strokka bensínvél við rafmótor fyrir samtals 323 hestöfl.

image

Rafmótorinn er knúinn af 17,8kWh rafhlöðu sem hægt er að fullhlaða á fjórum klukkustundum úr venjulegri heimahleðslustöð. Mazda heldur því fram að CX-60 geti ekið allt að 60 km í hreinum rafknúnum akstri, á allt að 100 km hraða, en vörumerkið gefur upp skilvirkni upp á 188mpg og 33g/km af CO2.

Ný dísilvél í lok þessa árs

Í lok þessa árs mun Mazda setja á markað 3,3 lítra línu sex strokka dísil með 48V mild-hybrid tækni. Bensínbíll með 3,0 lítra líínu-sexu kemur í kjölfarið árið 2023, aftur með mildu blendingskerfi og Skyactiv X-tækni frá Mazda.

image

CX-60 notar Skyactiv Scalable Architecture frá Mazda og tekur upp „Kinematic Posture Control“ kerfið frá MX-5 sportbílnum.

Kerfið beitir bremsunum á innra afturhjólið til að koma í veg fyrir veltihreyfingu yfirbyggingar og rafhlöður fyrir blendingskerfið eru festar á milli fram- og afturöxla CX-60.

image

570 lítra farangursrými

Þrátt fyrir flækjur tvinnkerfisins hvað varðar pláss býður CX-60 upp á 570 lítra farangursrými, sem er á pari við keppinautana.

Hægt er að fá bílinn í þremur útfærsluþrepum: Exclusive-Line, Homura og Takumi.

Grunngerð bílsins fær 18 tommu felgur og svarta yfirbyggingarklæðningu, Homura bætir við svörtum 20 tommu felgum, svörtum hliðarspeglum og dekkra grilli. Að innan fá bílar í næsta búnaðarstigi m.a. hita í aftursætin, umhverfislýsingu og sjálfvirkt sætisstillingarkerfi.

image

Þetta gerir ökumanni kleift að tilgreina hæð sína í upplýsinga- og afþreyingarkerfinu, með innri myndavélum sem skynja augnstöðu þeirra og stilla sæti, stýri og spegla eftir þörfum.

(vefsíður Autocar og Auto Express – myndir frá Mazda)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is