Í gær birti IslandusBÍLAR tilkynningu á vefsíðu sinni þar sem varað er við svindlurum sem fyrirtækið segir að hafi notfært sér upplýsingar frá Islandus Europe. Þannig hafi þeir herjað á viðskiptavini þess sem hafi í góðri trú greitt tugi milljóna inn á bíla sem ekki eru til.

„Sextíu milljónum hafi verið stolið“

Segir í tilkynningunni að lögregla hafi upplýst að sextíu milljónum hafi verið stolið af innlutningsaðilum bíla á síðustu mánuðum. „Kaupendur bíla hafi þannig greitt fyrir bíla í góðri trú án þess að fá þá afhenta. Í lok síðasta árs varð Islandus Europe ehf. vart við slíka tegund svindls og lét lögreglu vita,“ segir þar en minnst er á innflutningsfyrirtækið Bensínlaus ehf. í sömu andrá og má skilja það sem svo að hér sé átt við það fyrirtæki. [„Í kjölfar samskipta við lögregluna svo og viðskiptavini og starfsmenn Bensínlaus ehf. viljum við vekja athygli á eftirfarandi“].

Segja ellilífeyrisþega hafa tapað 8,5 milljónum

Af óprúttunum náungum sem minnst var á í inngangi segir Islandus að þeir hafi stofnað nýtt fyrirtæki sem „og hafa þeir herjað á viðskiptavini Islandus með auglýsingum um svokallaðar “forpantanir” á nýjum bílum sem enn eru ekki komnir frá verksmiðju,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins.

„Samkvæmt vitneskju Islandus hefur fólk greitt umræddu [Bensínlaus ehf.] fyrirtæki milljónir króna án þess að bíllinn hafi verið keyptur eða greiddur erlendis. Í einu tilviki greiddi ellilífeyrisþegi 8,5 milljónir inn á bíl eftir að hann fékk sendan handskrifaðan samning með engu verksmiðjunúmeri. Bíllinn finnst ekki og málið komið til lögreglu.“

Birta upplýsingar frá Credit Info um samkeppnisaðilann

Áfram heldur umfjöllunin um Bensínlaus þar sem fullyrt er að fyrirtækið hafi fengið „milljóna króna styrk frá Vinnumálastofnun eftir að hafa ráðið til sín tuttugu starfsmenn til úthringinga með innistæðulausum tilboðum. Laun og launatengd gjöld vegna þessara starfsmanna eru í vanskilum. Stjórnendur fyrirtækisins þ.á.m. aðstoðarframkvæmdastjóri, eru nú hættir störfum. Undanfarið hafa bæði viðskiptavinir og þrír fyrrum starfsmenn umrædds fyrirtækis verið í sambandi við Islandus þar sem þeir eru uggandi um sína stöðu og leita þeir leiða til að aðstoða viðskiptavini og uppræta svindlið.“

Islandus vísar ekki í heimildir sem rennt gætu stoðum undir þessar fullyrðingar. Hins vegar birtir fyrirtækið eftirfarandi:

image

Skjáskot af síðu Islandus/Islandus.is

„Islandus hefur jafnframt verið tjáð að aðilar án fjármagns, sem hafa starfað innan nefnds fyrirtækis undirbúi nú að gangsetja enn eina eftirlíkinguna af innflutningskerfi Islandus.Islandus hefur varað við eftirlíkingum af þjónustu félagsins.“

Nánar er farið ofan í þessi mál á vefsíðunni Islandus.is.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is