Bílar sem voru látnir hverfa ofan í vatnsþró nokkra skammt frá Glasgow á tíunda áratug síðustu aldar, hafa loks verið fjarlægðir. Mörgum til ánægju er þessi fúli pollur nú minna fúll en áður og óþefurinn ekki eins stækur.

image

Glen Dam vatnsþróin í  Paisley er í 10 mínútna akstursfjarlægð frá miðbænum í Glasgow. Þar, í jaðri almenningsgarðs, hafa yfirvöld í fjögur ár vitað af níu bílum á botninum en bílarnir hafa sennilega verið þar síðustu 25 árin eða svo.

image

Í síðustu viku var „tappinn“ tekinn úr þrónni og bílflökin fjarlægð. Þegar vorar geta gestir almenningsgarðsins vonandi þefað af nýútsprungnum blómum í stað þess að anda að sér hinum óbærilega dauni sem lagt hefur af þessari „bílarotþró“ í svo mörg ár.

Bílarnir sem þarna hvíldu eru eftirtaldir: 1988 Rover 827, 1995 Citroen AX, 1994 Ford Mondeo, 1989 Citroen XM, 1988 Nissan Prairie, 1987 Vauxhall Astra, 1990 Peugeot 605, 1984 Vauxhall Carlton og svo einn lítill Fiat Uno.

image

Enginn hefur stigið fram og greint frá hvers vegna bílarnir níu voru þarna en þeir fóru leynt, að óþefnum undanskildum. Áhugavert væri að vita hvers vegna einmitt þessir bílar luku akstri á þessum stað án þess að „nokkur“ tæki eftir.

Paisley er með stærri borgum í Skotlandi en þar búa tæplega 80.000 manns.

Annað efni tengt dapurlegum örlögum bíla: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is