Það er eins gott að hafa húmor fyrir sjálfum sér og eiga nóg af peningum þegar 15 milljón dollara (tveggja milljarða króna) kaggi er næstum skemmdur vegna klaufsku manns sjálfs!

image

McLaren F1 GTR. Myndir/Instagram/@fanchracing

Það var einmitt raunin í tilviki Frakkans François Perrodo, kappakstursökumanns og stjórnarformanns olíufyrirtækisins Perenco. Hann er einn eigenda þess stóra fyrirtækis en það er með starfsemi í 16 löndum.

Hefði ekki gerst í Frakklandi

Það var í sunnudagsbíltúr með félögunum sem honum urðu á þessi agalegu mistök. Hann dældi dísil í stað bensíns á bílinn. Bíllinn er þessi líka svakalegi McLaren F1 GTR sem metinn er á 15 milljónir dollara.

image

Myndir/Instagram/@fanchracing

François deildi sögunni af þessum ósköpum á Instagram og gerði grín að eigin klaufaskap:

image

François Perrodo á Blancpain GT Series. Myndir/Instagram/@fanchracing

Hann skrifaði að vinir hans gerðu nú óspart grín að honum en þeir límdu límmiðann, sem sjá má hér efst, á bensínlokið á bílnum hans eftir óhappið. „Meira að segja hundurinn hlær að mér þegar ég kem heim,“ skrifaði olíustjórinn og ökuþórinn en hann hefur m.a. keppt í 24 Hours of Le Mans, V de V Series og Blancpain GT Series Endurance Cup.

Fullur bensíntankur af dísil

Það leið ekki á löngu eftir „bensín“stoppið þar til bíllinn fór að láta undarlega og François gat ekkert tjónkað við hann. Hann hélt að bíllinn væri bara með einhverjar tiktúrur og almenna dynti (svona eins og tveggja milljarða króna ökutæki eiga til…) en nei, það var eitthvað undarlegt við bílinn sem hann kom ekki einu sinni í gang eftir að hann stoppaði loks.

image

Sérfróður beitir fyrstu hjálp. Myndir/Instagram/@fanchracing

Þeir eru ekki margir bifvélavirkjarnir sem hafa þekkingu og réttindi til að  krukka í McLaren F1 og þaðan af síður F1 GTR. François var svo lánsamur að ná í Paul Lanzante hjá Lanzante Motorsport. Lanzante vann einmitt 24 Hours of Le Mans árið 1995 á nákvæmlega svona bíl. En viti menn; Lazante kom bílnum ekki heldur í gang.

image

Myndir/Instagram/@fanchracing

Það var þá sem olíubaróninn áttaði sig á eigin mistökum: Tankurinn var fullur af dísil. Sem betur fer skemmdi þetta ekki bílinn og François Perrodo gat hlegið að þessum mistökum sínum eftir að búið var að koma hlutunum í lag.

image

Kátur og glaður ásamt félögum við bílinn eftir „aðgerðina“.Myndir/Instagram/@fanchracing

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is