Popparinn Noel Gallagher, sem oft er kenndur við hljómsveitina Oasis, er ekki með bílpróf. Það hefur þó ekki hindrað hann í bílakaupum. Það væri ekki í frásögur færandi nema sökum þess að hann keypti eitt sinn Jaguar fyrir 20 milljónir en steingleymdi því.

image

Gleyminn? Eða bara rosalega upptekinn náungi? Skjáskot/YouTube

Fyrrum gítarleikari Oasis, Noel Gallagher, varð mjög hissa þegar bílaflutningavagn stoppaði fyrir framan húsið hans með gasalega flottan Jaguar Mark II árgerð 1967. Hann vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og horfði heillaður á ökutækið.

image

Í ljós kom að hann hafði, tveimur árum fyrr, keypt bílinn og látið sérfræðinga gera drossíuna upp. Það gerðu þeir og að verki loknu var bíllinn sendur heim til verkkaupans. Sá hafði steingleymt þessu öllu saman og varð að vonum undrandi.

Hann greindi frá þessu fyrir einhverjum árum síðan og segir sagan að bíllinn hafi farið beint inn í skúr og staðið þar óhreyfður síðan. Hvort það sé satt og rétt, þ.e. að enginn hafi ekið bílnum síðan þá, látum við liggja á milli hluta. Ljóst þykir þó að popparinn hafi ekki ekið honum þar sem hann hefur aldrei lært að aka bíl.

image

Í bresku sorp...afsakið, bresku pressunni, var haft eftir Gallagher að hann hafi á þeim tíma (sem hann keypti bílinn), ætlað sér að læra að aka. Það hafi hann þó ekki gert og þess vegna ekki hugsað meira um bílinn sem hann keypti fyrir tæpar 20 milljónir króna.

image

Úr viðtali sem hér er vitnað í. Skjáskot/YouTube

Hér er hlekkur á viðtal þar sem Noel Gallagher var spurður út í „dýrustu mistökin“ og þá nefndi hann einmitt þessa sögu; söguna af Jagúarnum.

image

Þetta er fremur sérstakur „fyrsti bíll“ en Gallagher sagðist hafa keypt hann því þeir væru af sömu árgerð: 1967. Reyndar kemur fram í viðtalinu sem vitnað er í hér að ofan að einu sinni hafi bílnum verið ekið (konan hans ók, enda með bílpróf) en síðan hafi Jaguar-inn staðið óhreyfður. Þetta rennir stoðum undir sögusagnirnar sem voru þá ekki alveg út í bláinn.

image

Bíllinn virðist vera til sölu núna á 125.000 pund (tæpar 22 milljónir króna) en nú er stóra spurningin hvort nokkur þori að kaupa bílinn ef ske kynni að eigandinn, Noel nokkur Gallagher, skyldi hafa gleymt að hann ætlaði að selja bílinn. Bíllinn er í góðu standi, ónotaður og vel upp gerður en tæknilegar upplýsingar um bílinn má finna hér.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is