Sumar nýjungar í bílum slá algjörlega í gegn. Aðar virðast aðalllega pirra fólk og sumir sjá ekki tilganginn með þeim. Lítum nánar á þessar minna vinsælu nýjungar!

Gervihljóð og túður fyrir ekki neitt

Man ég eftir fyrsta skipti sem ég ók bíl srm var með plathljóði. Það var tvinnbíll og þegar ég setti í sport stillingu breyttist hljóðið alveg rosalega. Maður ætti náttúrulega ekkert að segja frá þessu en jæja, ég geri það nú samt. Já, ég sem sagt var rosalega lengi að átta mig á því að þetta væri plat. Botnaði bara ekkert í þessu undarlega hljóði sem kom þótt ég tæki ekki einu sinni almennilega á bílnum.

Svo áttaði ég mig og bölvaði því hversu auðtrúa maður getur stundum verið. Virðist ég ekki vera sú eina sem hef látið platast og fann ég fjölda greina um það hve fólki þykir þetta kjánalegt. Það hlýtur að vera fólkið sem hefur látið gabbast, er það ekki?

Það vilja fæstir láta plata sig. Þess vegna eru túður og loftinntök sem ekkert gera algjörlega óþolandi. Eins og „hood scoop“ á rafbíl! Arg! Minnist þess nú einungis að hafa séð svoleiðis á heimasmíðaðri vitleysu sem ég skifaði um hér og er mynd af þeim rafbíl hér: 

image

Skjáskot/YouTube

Þetta er álíka galið og að setja reykháf á stafrænan arin.

Svo eru það hinar ýmsu túður í innréttingum sem ekkert gera annað en að vera skraut og sömuleiðis púströr sem eru bara rör. Hafa ekkert með pústið að gera.

image

Svona plat má panta víða. Skjáskot/Amazon

„Nýkominn með bílpróf“ stillingar

Einhverjir nefndu að þetta væri nú alveg óþolandi asnalegt en ég er ekki sammála. Þetta eru sem sagt stillingaratriði í sumum bílum (bíllyklum eða appi) eins og til dæmis í Volvo XC40 sem ég skrifaði um hér og birti texta úr þeirri með góðfúslegu leyfi höfundar:

„Eitt sem mér fannst mjög spennandi og gæti nýst til að hrella aðra notendur bílsins: Ef maður á táning sem er nýkominn með bílpróf og hann suðar um að fá fína bílinn lánaðan (þá segir maður auðvitað NEI en jæja, gefum okkur hið gagnstæða) þá er hægt að stilla hámarkshraða bílsins og tryggja þannig að sá nýprófaði fari ekki að spæna upp malbiki. Svo, til að hann brjóti ekki og bramli viðkvæm bifhár eyrnaganga sinna og nærstaddra, þá má setja „stoppara“ á hljóðstyrkinn í græjunum. En auðvitað eru allir svo indælir að engum dytti svona lagað í hug. Úps…!“

Afturrúður sem fara ekki alla leið niður

Þetta getur nú gert fólk agalega pirrað! Rúða sem fer hálfa leið niður. Þetta er eins og vörusvik. Færð bara helminginn af loftinu sem þú ættir að fá (ok, ekki alveg en samt)!

image

Þetta er asnalegt og erfitt að vera svalur aftur í með svona bjánarúðu. Til hvers er þetta eiginlega? Jú, sennilega til þess að missa ekki besta vin mannsins út um gluggann. Hundinn.

Hann kann sér ekki hóf þegar hann rekur hausinn út og gæti kannski húrrað út.

En bíðum nú við? Er það ekki bílstjórinn sem stjórnar því hve neðarlega rúðan fer? Jæja, kannski hundar séu farnir að gera þetta sjálfir og þá er nú eins gott að hafa vit fyrir þeim!

Aftursætisáminning

Því miður kemur það fyrir erlendis að börn eru skilin eftir í bílum í snarkandi sól og það getur haft algjörlega hræðilegar afleiðingar. Það var af þeirri ástæðu sem GMC setti aftursætisáminningu í bíla.

image

Auðvitað finnst manni þetta galið ef ekki er hugsað út í hina raunverulegu hættu í útlandinu. Þá hugsar maður: „Bíddu, heldur þú að ég fari að gleyma krökkunum aftur í bílnum?“ En jú, því miður eru dæmi um að þörf sé á svona búnaði einhvern tíma og einhvers staðar.

Start/stop takkinn og lykillaust aðgengi

Ýmsar síður tóku þessi atriði sem dæmi um óþarfa en ég veit ekki með það. Hef reyndar lent í bölvuðum vandræðum með bíl í miklu frosti og engan lykil en það má kannski rekja til klaufaskapar eða kannski var eitthvert trix sem fór framhjá mér.  

image

Sjálfvirki start/stop búnaðurinn er hins vegar eitthvað sem slökkva má á en búnaðurinn sem drepur á vélinni þegar bíllinn stöðvast er hugsaður til að draga úr mengun í stórborgarumferð t.d. í umferðarþvögu o.s.frv. Ekki galin hugmynd en búnaðurinn getur greinilega pirrað einhverja eins og svo margt annað.  

image

Sumir halda því fram að þessi búnaður auki eldsneytiseyðslu en ýmislegt bendir til hins gagnstæða.

Snarkandi arinn og kaffihúsaskvaldur

Rafbílar eru hljóðlátir, eðli máls samkvæmt. Það finnst einhverjum bílaframleiðendum algjörlega hrópa á þörfina fyrir hávaða. Afsakið, hljóð og stemmningu á ég auðvitað við. Hér er hljóðdæmi:

Raddgreining og raddstýring

Í grein á Forbes er þetta eitt atriði sem tekið er fyrir og vitna ég í það hér:

image

Það er auðvitað erfitt fyrir okkur að segja nokkuð til um þetta því íslenska er ekki mál sem bílar skilja svo glatt.

image

En hér er ágætt dæmi um hvernig þetta getur nánast farið með menn þegar illa gengur. Þessi Skoti varð alveg sótillur þegar raddgræjan skildi ekki skoska framburðinn:

„Gesture Controls“ eða látbragðstúlkun

Það er erfitt að ímynda sér að ekki sé truflandi að stjórna græjum með handahreyfingum við akstur. En kannski er þetta bara eins og hvað annað sem venst.

Samt sem áður er víða á veraldarvefnum bent á að þetta sé álíka tilgangslaust og plathljóð úr platpúströri. Hvað veit maður? Hef aldrei prófað svona!

Einhver spaugarinn í útlöndum benti á að þetta virkaði nú sjaldnast og í besta falli liti maður út eins og hljómsveitarstjóri sem í örvæntingu reyndi að stjórna sinfóníu eftir Stravinsky!

image

Truflandi? Mynd/futureelectronics

Það er nú ekki annað hægt en að brosa að þessu. Detti lesendum fleiri nýjungar í hug sem illa gagnast eða hreinlega eru óþolandi þá endilega skrifið athugasemdir á þráð greinarinnar á Facebook!

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is