Það er ömurlegt að muna ekki hvar maður lagði bílnum. Kannast einhver við tilfinninguna sem því fylgir? Það sem flestum dettur í hug (held ég) eftir nokkurra mínútna leit, er að bílnum hafi hreinlega verið stolið.

Umheimurinn og athyglisgáfan

Já, árið var sumsé 1997 og sum ykkar jafnvel enn ekki orðin að hugmynd. Heimurinn var auðvitað töluvert öðruvísi og þá fyrst og fremst vegna þess að farsíminn var ekki nálægt því eins sjálfsagður hlutur og hann er í dag. Segulbandstæki voru enn í bílum og þeir flottustu bæði með geislaspilara og segulbandstæki.

image

Módem og minningin um biðina löngu eftir tengingu rifjast upp. Mynd/Wikipedia

Veraldarvefurinn var tiltölulega nýtt fyrirbæri og sumir sannfærðir um að „internetið væri nú bara bóla“. Aðrir voru með kvíðahnút vegna yfirvofandi 2000-vanda á meðan þeir svölustu stofnuðu „hotmail“ eða „yahoo“ aðgang til að senda tölvupóst. Magnað ár, 1997!

Það voru færri hlutir sem stálu athygli manna í þá daga en samt tókst manninum í Frankfurt að týna bílnum sínum. Maðurinn, sem bjó í borginni og ók þar daglega, gat bara lífsins ómögulega munað hvar hann hafði lagt bílnum.

Eftir að hafa í heila fimm daga þrautkannað hvern einasta blett sem hann gæti hugsanlega hafa lagt skrjóðnum virtist ekki annað koma til greina en að bílnum hefði verið stolið.

image

Ljósmynd/Unsplash.com

Maðurinn fyllti út skýrslu þess efnis og tíminn leið án nokkurra fregna af bílnum. Lífið hélt áfram og allt gekk sinn vanagang.

Hindraði framkvæmdir

Tuttugu árum síðar, árið 2017, höfðu yfirvöld í Frankfurt samband við manninn sem var orðinn 76 ára gamall og löngu hættur að velta örlögum bílsins forðum daga fyrir sér. Þannig var að verktakafyrirtæki hafði samband við yfirvöld því einhver bíll var fyrir þar sem jafna átti húsbyggingu við jörðu.

Verktakarnir gátu ekki fundið eiganda bílsins en hann varð að færa bílinn til að unnt væri að halda framkvæmdum áfram.

image

Frankfurt árið 2015. Töluvert breytt borg frá því 1997. Ljósmynd/Wikipedia

Engan óraði fyrir því að eigandi bílsins hefði, fyrir tuttugu árum, tilkynnt um bílstuld og gengið út frá því að téður bíll myndi ekki sjást framar.  

Ekki bifast síðan þá

Í ljós kom að bíllinn hafði staðið á nákvæmlega sama punktinum í tvo áratugi; þar sem maðurinn skildi við hann á því herrans ári, 1997.

image

Bíllinn; á sama stað í öll þessi ár.

Því miður höfðu árin farið hrjúfum höndum um bílinn og druslan fór ekki í gang. Ótrúlegt nokk. Nei, í pressuna fór garmurinn en þar lauk sögunni þó ekki.

Óvæntur „glaðningur“

Nei, þetta er ekki búið. Það var sko ekki það versta að bíllinn færi í brotajárn. Bílnum hafði verið lagt í þetta bílastæði í júní 1997. Bílastæðið var ekki ókeypis. Þar var nefnilega gjaldskylda og hafði verið allan tímann.

image

Þetta leit nú ekki svona út eftir tuttugu ár en gera má ráð fyrir að nokkrir miðar hafi á tuttugu árum haft viðkomu og staldrað stutt við undir þurrkublaði á bílnum sem hér er fjallað um. Mynd/Wikipedia

Hvernig það mál fór veit ég ekki, enda hefur manngreyið sennilega varla gasprað um þetta í fjölmiðlum á sínum tíma. Þetta var nefnilega svolítið klaufalegt.

[Birtist fyrst í apríl 2022]

Af öðru týndu og gleymdu:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is