Båstnäs heitir staður í Årjäng í Svíþjóð. Hann er alveg við landamæri Noregs og aðeins rúma hundrað kílómetra frá Osló. Þar er einhver áhugaverðasti bílakirkjugarður álfunnar og hann er grænni og eldri en flestir slíkir garðar.

image

Gamli bær bræðranna Ivansson. Ljósmynd/Unsplash.com

„Här slutar allmän väg“ stendur á skilti áður en komið er að Båstnäs og það er ekki að furða að þjóðvegurinn endi skammt frá þeim stað sem bílarnir enduðu sína vegferð. Í bílakirkjugarðinum sem um ræðir eru um 1000 bílar en flestir eru þeir frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar.

image

Áður en lengra er haldið inn í skóginn í Båstnäs er rétt að skreppa rúm sjötíu ár aftur í tímann.

image

Klóku bræðurnir Rune og Tore Ivansson

Bræðurnir Ivansson byrjuðu með „bílapartasölu“ í kringum 1950. Þetta var ekki formleg partasala eins og við þekkjum þær í dag en bræðurnir keyptu bíla, hlutuðu þá niður og seldu megnið af hlutunum hinum megin við landamærin, þ.e. að segja í Noregi.

image

Mikill skortur var á flestu í Noregi eftir seinna stríð og nánast ógjörningur að nálgast varahluti í landinu. Staðsetningin í Båstnäs var kjörin og yfir landamærin fóru varahlutirnir.

image

Raunar var það svo að í Noregi voru lög um vélknúin ökutæki mjög ströng og ef ég hef skilið þetta rétt þá voru dýrir bílar fluttir inn í pörtum og þeir settir saman þegar komið var yfir landamærin. Þannig mátti fara í kringum lögin því það var víst í lagi að sækja bílaparta yfir til Svíþjóðar þó að vesen væri að flytja inn bíla í heilu lagi.

Þarna er komin skýringin á fjölda bílapartasala í Svíþjóð alveg upp við landamæri Noregs.

image

Bræðurnir Rune og Tove Ivansson bjuggu á sveitabæ í skóginum, tóku bíla í sundur (einkum ameríska) og höfðu það ágætt. Partasölunni var formlega lokað árið 1970.

Íbúar bílanna og friðsæld skógarins

Náttúran og bílarnir virðast hafa gert nokkurs konar samkomulag á þessari landræmu í Båstnäs. Á fimmtíu árum hefur náttúran pakkað bílunum inn í mjúka sæng mosans og í skjóli trjánna og annars gróðurs hafa gömlu „grænu“ bílarnir orðið að híbýlum fyrir smáfugla.

image

Friðsæll skógurinn í Båstnäs. Mynd/Unsplash.com

Í dag er svæðið í eigu barna Rune Ivarsson en bræðurnir Rune og Tore dóu fyrir fáeinum árum.

image

Systkinin Thomas og Pia leyfa ferðalöngum að skoða sig um í bílaskóginum og taka myndir en það er að sjálfsögðu bannað að nema nokkuð á brott þaðan.

image

Fjöldi bóka hafa verið skrifaðar um þennan sérstaka stað og er ekki óalgengt að ljósmyndarar og bílaunnendur ferðist langar leiðir til að skoða þetta svæði og safna heimildum um heim sem eitt sinn var og spes stað þar sem tíminn stendur í stað, að plöntunum undanskildum.

image
image
image

Flestar myndirnar sem hér eru birtar koma úr grúppu á Facebook en hana má skoða hér.

Annað tengt tímanum og tímaleysi: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.  

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is