Það ráku margir upp stór augu og enn aðrir settu á sig gleraugu þegar fjallað var um skrapatól nokkurt í gær sem sagt er að lagt hafi 2 milljónir kílómetra að baki. Nú er kjörið tækifæri að reka upp enn stærri augu, sækja sjónaukann og gleraugun því hér er fallegur bíll sem hefur afrekað annað eins.

Nú er einmitt rúmur mánuður síðan Toyota Corolla árgerð 1993 trillaði yfir 2 milljóna kílómetra markið. Þessi Corolla er í eigu Nýsjálendings að nafni Graeme Hebley.

Að því gefnu að ummál jarðar sé 40.075 km (equatorial circumference en muninn á útreikningi meridional og equatorial ummáls má sjá hér á síðu Space.com) þá er það nú svo að þessari Corollu hefur verið ekið vegalengd sem samsvarar 50 heimsreisum, þ.e. umhverfis kúluna góðu.

Hebley er 71 árs og hefur frá því á sjöunda áratugnum unnið við blaðadreifingu. Já, hann er maðurinn sem kemur dagblöðum til fólksins á Nýja-Sjálandi og það gerir hann sex daga vikunnar. Hebley fer með blöðin frá höfuðborginni Wellington til New Plymouth. Og auðvitað aftur til baka.

„Ég legg alla jafna af stað um kl. 23 og kem heim 13 til 14 tímum síðar,“ sagði Graeme Hebley í samtali við nýsjálenskt dagblað.

Einföld uppskrift að langlífi

Hebley ekur um 5000 kílómetra á viku og þess vegna hefur þessi hirðusami bíleigandi, frá því hann eignaðist Corolluna (sem hann notar við blaðadreifinguna), farið með hana til Guthrie's Auto Care hálfsmánaðarlega og þar hefur bíllinn verið þjónustaður síðustu 22 árin.  

image

Við Guthrie's Auto Care sem hefur þjónustað Corolluna síðan árið 2000.

Bílinn keypti Hebley árið 2000 og hafði bíllinn fram til þess árs verið notaður til vörusendinga í miðbæ Tókýó. Þessi Corolla var aðeins ekin 80.000 kílómetra þegar Hebley eignaðist hana og fyrir fáeinum vikum kom að þessum merku tímamótum: „Ég horfði á kílómetramælinn fara aftur á núllið og hugsaði með mér að þetta væri nú bara nokkuð gott hjá gömlu minni. Tvær milljónir kílómetra!“

Skipt um tímareim hátt í 20 sinnum

Þessi þjónusta hefur greinilega skilað sínu en fátt hefur þurft að gera við Corolluna, annað en þetta hefðbundna. Engar meiriháttar aðgerðir. Skipt hefur verið um tímareim hátt í tuttugu sinnum og svo eru það auðvitað hjólalegurnar en annars, segir bifvélavirkinn John Sherman hjá Guthrie´s, hefur þetta vara verið lítið sem ekkert og bíllinn upprunalegur að mestu.

Eilífðarvél í huga eigandans

Bifvélavirkjanum sem vísað var í hér að ofan, óraði aldrei fyrir því að bíllinn kæmist þessa vegalengd án einhverra vandkvæða og hafði meira að segja hvatt Hebley til að leggja bílnum fyrir nokkru síðan. En, nei, aldeilis ekki. Hebley var ekki á þeim buxunum og er enn sannfærður um að Corollan eigi heilmikið eftir.

Myndir: The New Zealand Herald

Tengdar greinar: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is