Hefurðu heyrt söguna af Samir? Hinum hræðilega bílstjóra? Þetta er mögnuð og jafnframt fáránleg saga af gríni sem spunnið hefur örlagaþráð í lífi margra frá 2013. Enn sér ekki fyrir endann á þeim ósköpum sem hófust með nokkurra mínútna talsetningu YouTube myndbands.

Já, við skulum bara orða það svona: Þetta er myndband sem sýnir tvo bjálfa á ferð og heimurinn hefur heldur betur getað skemmt sér yfir því.

Áhorfstölur segja sitt um hversu vinsælt myndbandið hefur verið en sú útgáfa sem hér er stuðst við hefur verið spiluð yfir 20 milljón sinnum á YouTube síðan í mars 2014. Hafið í huga að þetta er ekki einu sinni fyrsta útgáfan því sú kom á YouTube árið 2013 en hana er ekki lengur að finna. Var hún 3:30 mínútur að lengd en ýmsar styttri útgáfur hafa lifað góðu lífi til dagsins í dag og sennilega hafa lesendur séð einhverja þeirra.  

image

Samir Thapar er þessi vinstra megin. Nafnið á hinum fylgdi ekki. Skjáskot/Facebook

Það er samt eiginlega nauðsynlegt, áður en sagan af þeim félögum verður sögð, að horft sé á umrætt myndband, það er að segja eina útgáfu þess sem er 2 mínútur að lengd. Svo verður rakið hvernig þetta atvikaðist allt saman!

Alls ekki lélegur bílstjóri og kóarinn reynslumikill

Það er svo margt sem er ekki alveg rétt á internetinu; stundum er um saklaust grín að ræða en stundum er grínið meiðandi og getur jafnvel skemmt fyrir fólki. Eins og í þessu tilviki.

image

Samir í viðtali sumarið 2013. Skjáskot/YouTube

Þegar grennslast er fyrir um „versta ökumann í heimi“ og „hræddasta aðstoðarökumann rallsögunnar“ kemur nefnilega eitt og annað í ljós sem lítið hefur verið fjallað um, alla vega í samanburði við myndbandið útbreidda.

Til dæmis hefur komið í ljós að Samir er alls ekki slæmur bílstjóri! Langt því frá meira að segja, þó að hann hafi í þessari keppni verið ryðgaður eftir langt hlé vegna meiðsla.

Samir var enginn nýliði þegar þarna var komið sögu árið 2013 enda þreytti hann frumraun sína í indverska rallinu árið 1992, fyrir þrjátíu árum síðan. Árið 2014 vann hann sex titla og árið 2013 var hann í þriðja sæti yfir heildina í INRC (Indian National Rally Championship).

image

Keppt hefur verið í INRC frá árinu 1988. Mynd/Indian National Rally Championship/inrc.com

Kóarinn eða aðstoðarökumaðurinn eins og maður á auðvitað bæði að skrifa og segja, Vivek Ponnusamy, hafði sömuleiðis keppt í akstursíþróttum í rúma tvo áratugi þegar grínið var birt árið 2013.

Langlíf ósannindi og glataður ferill  

Enn þann dag í dag er fjallað um þá félaga sem hlægilegustu ralláhöfn sögunnar – allt út af þessu talsetta myndbandi. Þó svo að löngu sé komið í ljós að um grín hafi verið að ræða þá hafa þau skilaboð ekki komist sérlega vel til skila. Margir trúa því að þarna hafi tveir kjánar verið á ferð og hefur verið hlegið dátt að myndbandinu.

Það liðu rúmar þrjár vikur frá rallinu þar til talsetta myndbandið birtist á YouTube þann 8. ágúst 2013. Tæpum tveimur vikum síðar var maður handtekinn, grunaður um að hafa dreift myndbandinu og talsett það.

image

MMC EVO X sem þeir Samir og Vivek kepptu á.

Tuttugu og tveggja ára ferill aðstoðarökumannsins Viveks Ponnusamy var í raun alveg í klessu um leið og myndbandið náði eyrum og augum heimsins. Enda hljómaði maðurinn (sem talaði fyrir Ponnusamy) eins og algjört flón. Skömmu eftir birtingu var risastórum akstursíþróttasamningi rift við blessaðan manninn. Svona trúðu margir að myndbandið væri ekta.

Sá handtekni

Indverskir fjölmiðlar greindu frá því í lok ágúst 2013 að maðurinn sem lögregla handtók hafi verið á vegum keppinautanna og var sagt að hann hefði gengist við því að hafa átt við umrætt myndband. Myndband sem Samir hafði deilt og var það 40 mínútna langt en sá handtekni bjó til fyrrnefnda 3:30 langa útgáfu með aukahljóðum.

image

Hann klippir ekki mörg myndbönd meðan hann er í járnum. En hann gæti talsett...

Maðurinn vann hjá fyrirtæki í Mumbai sem hafði eitthvað með akstursíþróttir að gera en það kemur í raun ekki fram hvers eðlis það var. Maðurinn sem greint var frá að héti Yohan Chetna, var handtekinn á hóteli í Chennai og þaðan lá leiðin beint í steininn.

Já, lesendur góðir. Þetta er æði ruglingsleg frásögn, enda er málið með eindæmum ruglingslegt og ber heimildum ekki alltaf saman, eins og sjá má þegar smellt er á krækjur hér og þar í greininni.

image

Samir kátur og sæll. Skjáskot/YouTube

Síðan þá hefur Samir komið víða við; meðal annars í Pandora skjölunum, í fangelsi og svo er hann framkvæmdastjóri risavaxins iðnveldis og í hópi ríkustu manna Indlands.

image

Grafalvarlegir fótboltaspekingar. Samir er lengst til vinstri. Þeir eru vel „treflaðir“ blessaðir.

Jú og hann á líka fótboltalið!

Aðstoðarökumaðurinn Vivek Ponnusamy virðist í dag vera framleiðandi dekkja sem munu eiga sérstaklega vel heima undir rallýbílum.

Annað álíka galið: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is