Nú fara bílauppboð á Íslandi og víðar öðruvísi fram en áður fyrr. Það eru hvorki hróp né köll innan úr mannþyrpingu og spennan á vefuppboði allt öðruvísi en í Vökuportinu fyrir 25 árum. Hér er spaugileg saga af frænkum sem buðu í bíl á uppboði og það uppboð fór sko ekki fram á vefnum.

Bílauppboðið

Þetta er frekar vandræðaleg saga og þess vegna kýs ég að nafnið mitt komi ekki fram. Svo er mál með vexti að ég hreint út sagt elska bíla. Það var því auðsótt mál fyrir frænku mína að fá mig með sér á bílauppboð til að finna einhvern góðan bíl fyrir hana. Ég hef lag á að finna góða bíla.

Það er samt ein regla sem ég hef reynt að fylgja og hún er sú að karlmaður skuli ekki fara með á slík bílauppboð nema viðkomandi sé bifvélavirki. Meira að segja maðurinn minn skilur þetta og ef hann er staddur á sama uppboði lætur hann bara eins og hann þekki mig ekki. Ég vil sjá um þetta sjálf.

Karlar reyna nefnilega að yfirbjóða hina karlana en flestir sýna tveimur konum mikla kurteisi og kunna varla við að koma með hærra boð í einhvern bíl sem þær langar greinilega að eignast.

image

Hver á hæsta boðið? Mynd: Wikipedia

Nema hvað! Frænka mín kom með kærastann með sér. Óttaleg hengilmæna, strákbjálfinn sá. Já, ég hristi bara höfuðið og sagði ekki orð um það að hún skyldi hafa tekið hann með, þótt það væri gegn mínum „reglum“. Við  röbbuðum svo aðeins um bíla og eftir smástund fann ég að hann virti mig og þá þekkingu sem ég hef á bílum. Auk þess var honum ljóst hvert planið var.

image

Mynd/Unsplash.com

Jæja, við frænkurnar fórum og greiddum fyrir bílinn á meðan kærastinn beið fyrir utan. Ekki leið á löngu þar til kærastinn hringdi í frænku. „Ég er úti í bíl. Startaði fínt og rauk í gang. Hann malar bara og bíður eftir ykkur. Eruð þið ekki að koma?“

Furðulegt símtal

Um mánuði síðar átti ég stórfurðulegt samtal við uppboðshaldarann sem hringdi í mig: „Sæl vertu. Bíllinn sem þú keyptir er enn hérna á stæðinu hjá okkur,“ sagði hann.

Er hann hvað? Nei, hvaða vitleysa! Hann var fyrir utan húsið. Ég opnaði meira að segja útidyrnar og horfði út á bílastæðið; þar var bíllinn. Á sínum stað.

Maðurinn gaf mér upp tegundina, árgerð, lit og jú, þetta passaði allt. Hann bað mig að koma á bílnum og hann skyldi sýna mér bílinn sem væri hjá honum. Þá gætum við athugað VIN númerin á bílunum.

Þá mundi ég eftir honum! Kærastaómyndinni!

Ef svo væri í pottinn búið að tveir eins bílar hefðu verið á sama uppboðinu þá var það auðvitað HANN sem hafði tekið rangan bíl! Sem gerði okkur að bílþjófum!

image

Mynd/Unsplash.com

Í ljós kom að það voru, ótrúlegt en satt, tveir nákvæmlega eins bílar á svæðinu. Eftir að ég hafði bombað spurningum á kærastaafstyrmið ullaði hann því út úr sér að hann hefði „sest inn í bíl sem leit út eins og sá sem við höfðum boðið í“ en ekki spurt kóng eða prest heldur bara tekið bílinn og gert okkur þrjú að glæpamönnum. Dásamlegt.

Héðan í frá eru kærastar stranglega bannaðir með í för á uppboð. B-A-N-N-A-Ð-I-R.

Þess má geta hér í lokin að síðar bætti „nafnlausa“ frænkan við söguna örlitlum bút því lesendur Quora.com vildu auðvitað fá að vita hvað hafi orðið um bílinn sem kærastinn tók. Hún bætti við mynd af bíl (myndin sem hér fylgir) og skrifaði:

image

Mynd/Quora.com

Ég ók sem sagt bílnum til uppboðshaldarans og reyndi hvað ég gat til að líta út eins og saklaus móðir og bað í huganum um að lögreglan biði mín ekki. Starfsfólk uppboðsins staðfesti að um tvo nákvæmlega eins bíla hefði verið að ræða.

Fleiri mannlegar bílasögur eða sögulegar bílverur:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is