Köttur fastur uppi í tré? Sjaldgæft hér á landi en hefur þó gerst. En að bíll sé fastur uppi í tré er mun sjaldgæfara og þá ekki bara hér heldur í heiminum öllum. Þeir detta nefnilega fljótlega niður úr íslenskum hríslum. Nei, að öllu gamni slepptu þá var bíll í raun og veru fastur uppi í tré í 37 ár.

Vindum okkur í bílana eins og okkar er siður hér á Bílabloggi.

Plymouth Fury III frá 1973 með voðalega fínan mótor (Police Interceptor, 440 V8) var einn daginn kominn upp í tré í bænum Abbeville í Lousiana. Þetta tré var reyndar við einbýlishús en þjóðvegur 82 liggur þar skammt frá og var almenna skýringin á þessum ósköpum sú að bíllinn hefði flogið af veginum og endað uppi í tré.

image

Þessi skýring þótti ekkert ótrúleg þarna árið 1983. Óvenjulegt atvik en ekki ómögulegt miðað við staðsetningu og allt það. En þó voru ýmsar sögur, sem gengu í þessum 10.000 manna bæ, um það hvernig þessi 9 ára gamli bíll hefði endað uppi í gömlu eikartré.

Ein sagan sagði að hópur ungra skáta hefði verið að leysa verkefni sem hefði tjah, farið dálítið úrskeiðis. Önnur gekk út á að eigandinn, sem var og er einmitt íbúi í húsinu, hefði ætlað að sýna lögreglustjóranum á staðnum hvar Davíð keypti ölið og komið bílnum þarna fyrir gagngert til að ögra stjóranum eftir eitthvert karp þeirra á milli.

image

Plymouth Fury III frá 1973. Ekki sami bíll en samt eins og trjábíllinn var einhvern tíma.

Einhvern veginn þannig voru tvær af þeim sögum sem gengu fyrst um sinn. En eftir því sem árin liðu varð bíllinn í trénu að kennileiti sem var ekkert undarlegra í augum bæjarbúa en jólaskraut sem aldrei var tekið niður. Eins og ein kona, þá íbúi í Abbeville, orðaði það árið 2012 þegar einhver gerði bílinn í eikinni að umfjöllunarefni:

Eins og ekkert væri eðlilegra.

Það sem fer upp kemur (stundum) niður aftur

Bíllinn var tekinn „tekinn niður“ úr trénu fyrir rúmum þremur árum, eða þann 13. febrúar 2019. Af því tilefni var rætt við eiginkonu mannsins sem átti bílinn. Sagði Debi Barron Steen eftirfarandi í viðtali við fréttastofu WWAY:

Áhugavert viðhorf en eiginmaðurinn sagði þó í öðru viðtali að hann hefði nú fyrst og fremst viljað fá bílinn niður úr trénu til að kanna ástandið á honum. Sem sagt bílnum – ekki trénu. Hann nefndi það seinna að einhver myndi kanna hvernig ástatt væri fyrir trénu.

image

Það er vandaverk að koma niður úr tré.

Blessaðri eikinni sem hafði þá borið þessa tveggja tonna byrði í heil 37 ár! En sannleikurinn um það hvers vegna Plymouth Fury III frá 1973 endaði uppi í tré þegar undirrituð var smábarn (árið 1983) átti enn eftir að koma fram. Og kannski er hann ekki enn kominn fram. Bíllinn flaug í það minnsta ekki upp í tré, eins og margir íbúar Abbville höfðu haldið í einhverja áratugi.

Charley Steen leysir frá skjóðunni

Einmitt, ég hélt sjálf að þetta væri leikarinn Charlie Sheen sem ætti þarna hlut að máli og var snögg að afgreiða söguna (áður en ég hóf alvöru „grams“) sem þvætting. En nei, aldeilis er þetta annar Kalli. Allt annar Kalli.

image

Ekki þessi náungi sem sagt. Þetta er Charlie Sheen en eigandi bílsins heitir Charley Steen. Ljósmynd/Wikipedia

Þegar bíllinn var kominn til jarðar ákvað eigandinn, Charley Steen, að segja söguna af því hvernig ökutækið „lenti“ uppi í tré árið 1983.

image

Kominn niður úr trénu. Trénu, sem varð samstundis tveimur tonnum léttara.

Steen er frá Abbeville og hefur búið í þessu sama húsi í 40 ár. Sem segir okkur að fjölskyldan hafi verið tiltölulega nýflutt í húsið þegar bíllinn fór þangað sem hann fór. Áhugaverð leið til að kynna sig í nýju hverfi en jæja, hvað um það!

image

„Þetta var sérstakt og afskaplega skemmtilegt tímabil í lífi mínu,“ sagði hann í viðtali þar sem hann blés á 30 ára gamlar sögusagnir.

image

Skrautlegur en þó ekki nógu gamall til að geta talist svakalega gamall. Hvað þá til að geta talist eiga erindi upp í tré. Þar eiga bílar varla heima.

Kona Steens sagði t.d. að þeir hefðu málað bílinn rauðan, bláan, gulan og grænan eins og sést á gömlu myndunum í skjáskotinu af myndaalbúminu.

image

Úr myndaalbúmi Steens. Skjáskot: klfy.com

Í færslu á Facebook frá júlí 2017 þar sem bíllinn var til umræðu eftir að ákveðið var að fjarlægja hann úr eikinni (tveimur árum áður en það var gert) kom fram að félagarnir hefðu verið alræmdir í bænum. Þeir hafi átt það til að klæða sig upp sem trúðar og þannig óku þeir um bæinn með hávaða og látum. Það hafi ekki farið framhjá mörgum þegar piltarnir voru í stuði.

Dag nokkurn í ársbyrjun 1983, skömmu áður en Steen fór í frí til frænda síns við Lake Tahoe, ræddi hann við vin sinn og kvaðst viss um að á meðan hann yrði í burtu myndu mestu sprellikarlarnir í vinahópnum taka bílinn til að hrekkja hann. Lykillinn hafði brotnað í svissinum og þess vegna var auðvelt að taka bílinn.

image

Steen horfir á bílinn sem hafði færst upp á við á tæpum fjórum áratugum. En ástandið á bílnum fór niður á við. Skjáskot:klfy/com

„Þá kom vinur minn með þessa líka frábæru hugmynd um að koma bílnum bara fyrir uppi í tré. Þá gæti enginn notað bílinn á meðan. Og það var einmitt það sem við gerðum,“ sagði Steen en hann lýsti því ekki nákvæmlega hvernig þeir fóru að þessu. Þó gat hann þess að hann hefði fest bílinn með keðju „til að hann færi ekki á flakk og framhaldið þekkjum við,“ sagði hann.

Sé þetta raunverulega skýringin þá var þetta einkabrandari sem entist býsna lengi.

image

Fleiri furðusögur úr hinum stóra heimi: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is