Gist í rútu Dolly Parton

Þó að tónlistarkonan Dolly Parton hafi ekki sungið sitt síðasta þá hefur hún lagt rútunni sem hún hefur notað á tónleikaferðalögum síðastliðin 13 ár. Nú geta áhugasamir gist í rútunni og fundið fyrir nærveru Dolly Parton þó svo að hún sé nú ekki í rútunni sjálf.

image

Rútan er af gerðinni Prevost og er staðan á akstursmælinum nokkuð há. En það gerir sennilega lítið til því ekki er ætlunin að fara eitt eða neitt á farartækinu heldur bara að slaka á, sofa og eta. Frá því síðla árs 2008 til mars 2022 var dálítið flakk á Parton. Á þessum þrettán árum var rútunni ekið 360.000 mílur, eða um 590.000 kílómetra.

image

Dolly Parton í sínu fínasta pússi. Mynd/Wikipedia

Algengustu ferðirnar voru á milli Nashville í Tennessee til Los Angeles. Vegalengdin er um 3.400 kílómetrar og voru þær æði margar ferðirnar þar á milli á tímabilinu.

Ók Dolly Parton sjálf?

Nei, hún hefur áratugum saman haft meira en nóg að gera og á meðan bílstjórinn Tim Dunlap sá um aksturinn sinnti Parton hinum ýmsu verkefnum um borð í rútunni. Mestum tíma varði hún í að skrifa bækur og handrit fyrir þætti og kvikmyndir. Og auðvitað samdi hún tónlist og lagatexta líka.

image

Parton var aldrei ein á ferð, því að bílstjóranum undanskildum var besta vinkonan og aðstoðarmanneskjan Judy Ogle iðulega með í för. Fleiri hafa ferðafélagarnir verið á þessum þrettán árum enda nóg pláss í rútunni. Parton er sögð hafa nostrað við fólkið sem ferðaðist með henni og smurt ofan í það samlokur í gríð og erg.

Hitt heimilið

„Hvað er svona merkilegt við þennan strætó?“ kann einhver að spyrja. Jú, það er nefnilega ekki eins og þetta hafi bara verið farartæki heldur var rútan í raun og veru annað heimili konunnar þegar hún var á tónleikaferðalagi.

image

Dolly Parton árið 1977. Bráðhugguleg en sennilega átti hún ekki rútu á þeim tíma. Mynd/Wikipedia

Parton mun vera meinilla við að fljúga og því lagði hún töluvert upp úr því að rútan væri sem þægilegust og heppileg til lengri ferða. Flest innan í rútunni var sérhannað til að uppfylla óskir Parton.

Parton vildi ekki að upplifunin væri eins og á einhverju farfuglaheimili og því eru innréttingar, tæki og búnaður í hefðbundinni stærð. Baðkar er auðvitað í rútunni, sem og ísskápur, rúm (nokkur), fataskápar og sérstakt herbergi fyrir allar hárkollurnar!

Besta heimilið

Parton er ein þeirra sem á fleiri heimili en eitt og af þeim sagði hún einhverju sinni að rútan væri best allra: „Ég á heimili út um öll Bandaríkin, en best kann ég við rútuna. Í rútunni finn ég hjólin snúast; ég er nefnilega sígauni inn við beinið,“ er haft eftir henni á vefsíðunni þar sem bóka má gistingu í rútunni.

image

Í „sígaunavagninum“ eins og Prevost rútan er gjarnan nefnd eru handmálaðar veggskreytingar og allt eftir kúnstarinnar reglum. Mikið bleikt og mikið „bling“.

Ekki alveg gefins að prófa

Til að öðlast innsýn inn í líf Dolly Parton í rútunni þarf að lágmarki að bóka tvær nætur og kosta tvær nætur rúmlega 1.3 milljónir króna. Rútan er í Pigeon Forge í Tennessee í nokkurs konar Dolly Parton veröld sem nefnist Dollywood.

image

Að sjálfsögðu er hægt að leigja bleikan Jeep Wrangler til að flakka um svæðið. En ætli þetta sé ekki komið gott í bili. Svona áður en kandíflossbragðið verður óbærilegt.

Aðrir húsbílar og heimili á hjólum:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is