Hann komst kannski ekki hratt en hann komst í ferðatösku! Það er nú meira en hægt er að segja um aðra bíla, ekki satt? Mazda var ekkert að grínast með hlutina þegar Mazda ferðatöskubíllinn leit dagsins ljós um 1990. Í Samsonite ferðatösku.

Kalda stríðinu var loks að ljúka, vísindamenn voru með eitthvað stórmerkilegt í pípunum sem þeir kölluðu World Wide Web og tæknin var um það bil að þjappa jarðarbúum meira saman og beinlínis allt virtist mögulegt.

Þetta voru spennandi tímar og bílaframleiðandinn Mazda fór ekki varhluta af því. Mazda MX-5 var gjörsamlega að slá í gegn og árið 1991 átti Mazda eftir að verða fyrsti japanski bílaframleiðandinn til að vinna 23 Hours of Le Mans kappaksturinn. Vetnisbíllinn Mazda HR-X var að taka á sig mynd og já, allt var að gerast. Sprúðlandi hugmyndaauðgi starfsfólks fékk að njóta sín.

Innanhússkeppni

Í þessu skapandi starfsumhverfi var efnt til dálítillar keppni innanhúss hjá Mazda þvert á deildir. Keppnin fólst í því að koma með bestu hugmyndina að hagnýtum fararskjóta. Þeir voru sjö verkfræðingarnir sem lögðu ferðatöskubílinn „á borðið“.  

Stál? Ál? Nei, Samsonite ferðataska var það fyrsta sem sást af sköpunarverki sigurvegara keppninnar. Í ferðatöskunni var þriggja hjóla bíll sem í upphafi var hugsaður til notkunar á flugvöllum. Já, til að auðvelda fólki lífið á flugvellinum.

image

Mynd/InsideMazda

Bíll á einni mínútu

Bíllinn, sem aldrei fékk neitt formlegra nafn en „The Suitcase Car“, var með 33.6cc tvígengisvél (1.7 hö) í 57cm x 75cm stórri Samsonite ferðatösku. Aðeins tók eina mínútu að setja bílinn saman. Hægt var að ná allt að 30 kílómetra hraða á ferðatöskubílnum.

image

Sagt er að ljómandi skemmtilegt hafi verið að aka bílnum og hinn lági þyngdarpunktur hafði sitt að segja þar. Auk þess minnti bíllinn um margt á fyrsta framleiðslubíl Mazda; Mazda-Go frá árinu 1931.

image

Mazda-Go frá 1931. Ljósmynd/Wikipedia

Léttur en samt of þungur

32 kílóa ferðataskan var ekki beint það sem maður myndi kalla praktíska stærð af farangri. Þó svo að markmiðið hafi ekki endilega verið að koma ferðatöskubílnum í fjöldaframleiðslu þá var mikið fjallað um græjuna í fjölmiðlum og það var heldur betur góð auglýsing fyrir framleiðandann.

image

Jæja, er verið að skreppa í ferðalag? Neibb í bíltúr. Mynd/InsideMazda

Það segir sig nú sjálft að ekki getur bensíntankurinn hafa verið stór í bílnum, enda allt lítið til að hægt væri að koma því fyrir í ferðatöskubílnum. Bensínið dugði þó til um tveggja klukkustunda aksturs.

image

Mynd/InsideMazda

Tveir ferðatöskubílar, að frumgerðinni undanskilinni, voru smíðaðir til að hægt væri að sýna þá bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Bandaríkjaeintakið er víst enn til en hitt mun hafa horfið með óútskýrðum hætti.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is