Með misjöfnum hætti skemmta menn sér en hér er grátbrosleg örfrétt úr Tímanum í ársbyrjun 1961. Segir þar frá manni sem skemmti sér ásamt félaga að nafni Bakkus.

image

Skjáskot/Tíminn

„Það telst víst ekki til tíðinda þótt menn fagni nýja árinu á vegum Bakkusar konungs og það gerði einn af góðborgurum Hafnarfjarðarkaupstaðar. Fór vel á með Bakkusi og borgaranum, og þar kom, að þeim félögum fannst rétt að bregða sér í ökuferð um nágrennið.

Var þá haldið út og leitað að farkosti. Varð fyrir valinu öskubíll kaupstaðarins, og settist borgarinn undir stýri, en Bakkus við hliðina.

Var síðan ekið vítt og breitt um götur bæjarins og nýja árinu fagnað. En þar kom að öskubíllinn komst í sjálfheldu í umferðinni og komst hvergi. Fundust mönnum þá mikil undur að lyftitæki aftan á bílnum, sem venjulega eru notuð til að lyfta öskutunnum, voru hífð upp og niður í sífellu. Þótti þá vegfarendum, sem raunar undruðust þetta ferðalag öskubílsins, einsýnt, að ekillinn væri „hífaður", og dreif brátt að menn, sem drógu manninn út úr öskubílnum og fluttu hann til síns heima.“

Í svipuðum dúr úr íslenskum sögusarpi:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is