Á fimmtánda ári keypti bílasafnarinn Jay Leno sinn fyrsta bíl; Ford pallbíl frá árinu 1934. Síðan hefur hann átt mjög marga bíla en fyrsti bíllinn er alltaf merkilegur, sama hversu mikill skrjóður eða glæsikerra hann kann að hafa verið!

Bíllinn var á stæði við bensínstöðina í bænum. Það mikilvægasta og það sem pabba fannst best við þennan bíl, var að hann var ógangfær.

Ég hafði safnað dálitlum peningum, átti orðið 350 dollara og við keyptum bílinn. Ég man nú ekki alveg hvernig við komum bílnum heim; hvort við drógum hann eða hvað. Hvernig sem við fórum að því þá var hugmyndin sú að næstu tvö árin myndi ég dytta að bílnum og finna út úr því sjálfur hvernig ég gerði gripinn gangfæran,“ sagði grínistinn og bílasafnarinn mikli, Jay Leno, í viðtali við vefinn Petrolious fyrir að verða áratug síðan.

Þetta hefur verið árið 1964, þegar Leno var á fimmtánda ári og enn dálítið í bílprófið.

„Á þessum tíma, alla vega í mínu tilviki, var ökuskírteinið eitthvað svipað og iPhone er í dag, eða tölvan. Þegar ég var strákur gat maður ekkert farið á staði í sýndarveruleika eða eitthvað svoleiðis. Maður gat bara farið á staðinn. Bíll hafði þess vegna svo miklu meiri þýðingu fyrir mann.

image

Jay Leno á Hispano-Suiza árið 1993. Mynd/Wikipedia/Alan Light

„Einhver ömurlegasti dagur lífs míns var þegar ég var sextán og hálfs. Hverfið okkar var einhverja ellefu kílómetra frá miðbænum og ég var á leiðinni þangað, upp eftir, á reiðhjóli. Louie vinur minn, hálfu ári eldri en ég og kominn með bílpróf og allt, kom akandi á blæjubíl pabba síns og var stelpa með honum í bílnum. „Jay, ertu á leiðinni upp eftir?“ Ég svaraði: „Já, við sjáumst upp frá.“ Svo hjóla ég og hjóla, og svona þremur korterum eða klukkutíma síðar kem ég þangað og auðvitað voru allir farnir. Þá hugsaði ég með mér að þetta bara gengi ekki lengur. Ég yrði að fá bílpróf. Þetta væri alveg út í hött.

Lærdómurinn sem fólst í sláttuvélinni

Nema hvað, næstu tvö árin vann ég í bílnum; pússaði og blettaði. Við höfðum uppi á bílamálara sem var til í að mála bílinn fyrir 100 dollara sem var í þá daga dágóð summa. Þannig að þetta var ekkert ódýrt en vinnubrögðin voru góð og vandað til verka. Maður þurfti samt að vinna alla undirbúningsvinnuna sjálfur,“ sagði Jay Leno sem tjah, réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur, ef svo má segja.

„Almáttugur,“ sagði pabbi minn sem fylgdist með aðförunum. Þetta var heddpakkningin. Þú þarft eiginlega á henni að halda,“ sagði hann. „Ó, já ókei,“ svaraði ég.

Þannig komst ég að því hvað heddpakkning er. Og ég kynntist líka sælutilfinningunni sem fylgir, þegar það sem maður var að skrúfa sundur og saman, kemst í lag. Þegar vélin fer í gang og virkar. Það var alveg mögnuð tilfinning!

Þá var ekki haft samband við barnavernd

Við bjuggum í nokkurs konar úthverfi og áttum frekar stórt land eins og flestir á svæðinu á þessum tíma. Þá gat maður ekið um og búið til brautir og hvaðeina. Svo smalaði maður saman krökkunum í kring og þá var ekið í hringi, driftað og já, burnout og donuts á meðan mamma horfði skelfingu lostin á út um eldhúsgluggann! Þetta var það sem krakkar gerðu í þá daga.

Maður gat keypt bíl fyrir tíu eða tuttugu dollara og þá á ég við bíl sem virkaði. Það er eiginlega fjarstæðukennt að hugsa til þess í dag. Enginn hafði samband við barnaverndaryfirvöld þó að einhver tólf ára gutti væri að spóla í næsta garði. Svona lærðum við. Með því að gera hlutina.

Heimreiðin okkar var rúmlega 100 metra löng og öll unglingsárin var maður að æfa sig að bakka þetta og svo fram og aftur og já. Ég held að þetta sé skýringin á krónískum hálsríg sem ég hef verið með allar götur síðan,“ sagði þessi ágæti náungi, Jay Leno, sem virðist hafa fengið ágætt „start“ í lífinu og á þessar ljúfu æskuminningar.  

Látum hér staðar numið í bili en ég hugsa að það verði nú framhald því „næsti fyrsti bíllinn“ hans Jay Leno er áhugaverður og sömuleiðis næstu tvöhundruð bílar!

Annað tengt bílasafnaranum:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is