Flottur „sportari“ með klassískar rætur

Aston Martin hefur sent frá sér myndir af glæsilegum opnum sportbíl sem verður frumsýndur á Monterey Car Week í Kaliforníu núna um helgina.

Ísland er svo sannarlega ekki besta landið fyrir opna alvöru sportbíla, en samt er gaman að segja frá þeim og skoða.

image

Frá „sérsmíðadeild“ Aston Martin

Bíllinn var búinn til af Q-deild framleiðandans, en deildin fagnar tíu ára afmæli sínu sem sérsmíðadeild Aston Martin. Þeir sem þar starfa sjá um viðskiptavinina sem eru með „alvöru“ bankareikningana.

Q-deildin á heiðurinn af sköpunarverkum á borð við Vulcan og Victor auk allrar sérsmíði sem þeir sinna beint fyrir viðskiptavini.

image

Samkvæmt Aston Martin er DBR22 innblásinn af bílnum sem við sjáum hér á myndinni í baksýn - DBR1, goðsögninni sem tryggði Aston eina sigur í 24 tíma Le Mans. Það var árið 1959 með hina goðsagnakenndu Carroll Shelby og Roy Salvadori sem ökumenn.

Hugmyndin fylgir nútímahönnun Aston Martin en er með opnu grilli úr koltrefjum. Sama efni er notað í hina hluti yfirbyggingarinnar.

image

Undir langri vélarhlífinni er tveggja túrbó V12 frá Aston Martin, sem í þessu tilfelli skilar 715 hestöflum með hámarkstogi upp á 753 newtonmetra. Núll til 60 mílur (96 km/klst) á 3,4 sek og hámarkshraði 319 km/klst.

image

„Þú munt líklega vilja vera með hjálm þegar þú ætlar að ögra eiginleikum bílsins á brautinni,“ segir norska bílavefsíðan BilNorge, en Aston Martin hefur einnig útbúið bílana með þáttum til að draga úr „ókyrrð“ hjá þeim sem eru um borð í bílnum.

image

Ef þú ert að leita að hefðbundnu mælaborði verður þú fyrir vonbrigðum því hér eru skjáir sem eru með mælaborði og upplýsinga- og afþreyingarefni. Væntanlega eitthvað sem við verðum að venjast í framtíðinni, líka í sportbílum frá Aston Martin.

(fréttir á vef BilNorge, TopGear, Motor1 ofl – myndir Aston Martin Q)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is