Allir nýir bílar eru búnir spyrnustýringu eða spólvörn, en veistu hvernig þetta virkar og hvenær eða hvort á að slökkva á þessu?

Nú gengur brátt í garð sá árstími þegar fyrsta hálkan og snjórinn gerir vart við sig. Nær allir nýir bílar eru búnir ýmsum innbyggðum öryggisbúnaði sem hjálpar ökumanninum að aka með öruggari hætti t.d. við vetraraðstæður. Sumt af þessum búnaði „er bara í bílnum“ og eflaust margir ökumenn sem eru ekkert að velta honum fyrir sér dags daglega.

Má þar til dæmis nefna aðstoð við að halda bílnum á réttri akrein, búnaður sem passar upp á að ekki sé farið of nálægt næsta bíl á undan, og hemlalæsivörn.

Eitt af því sem fellur undir „hjálparbúnað“ er spyrnustýring eða „spólvörn“; öryggisatriði sem hefur verið til í áratugi í ýmsum útgáfum, en varð nánast skyldubúnaður í bílum frá árinu 2011.

Sumir vilja kalla þennan búnað „spólvörn“, vegna þess að hann kemur að hluta í veg fyrir að eitt eða fleiri hjól spóli í hálku eða bleytu.

Ég hef kosið að kalla þetta „spyrnustýringu“ vegna þess einfaldlega að búnaðurinn tryggir viðspyrnu hjólsins þegar á þarf að halda.

image

Virkar svipað og hemlalæsivörn

Ef við einföldum málið nokkuð, þá má segja að spyrnustýring sé rafeindakerfi sem notar sömu skynjara og læsivörn hemlakerfisins (ABS) til að draga úr eða koma í veg fyrir að hjól spóli.

image

Hvenær var spyrnustýring tekin upp?

Kerfi spyrnustýringar hafa verið notuð í fólksbílum allt frá því á áttunda áratugnum en tæknilegar takmarkanir þýddu að þessi eldri kerfi voru ekki sérlega áreiðanleg eða útbreidd.

Það var ekki fyrr en seint á níunda áratugnum og snemma á þeim tíunda að spyrnustýring fór að verða algengari og fágaðri.

Eins og mikið af hefðbundnum búnaði sem við erum vön í nútímabílum, er stöðlun smám saman orðin hluti af spyrnustýringu, sem afleiðing af aukinni notkun flókinna rafeindakerfa í bílum okkar.

Hvernig virkar spyrnustýring?

Grunntilgangur spyrnustýringar er að greina hvenær dekk missa grip, sem veldur því að hjólið snýst og vinnur síðan til að stöðva eða hægja á snúningshraðanum.

image

Hér má sjá dæmi um akstursaðstæður sem spyrnustýring grípur inn í akstur bílsins, og myndi beina honum inn á beina braut aftur ef hann skríður til í snjó og hálku.

Hægt er að vera með spyrnustýringu á fram-, aftur- eða fjórhjóladrifnu ökutæki og meginreglan er sú sama, sama hvaða hjól fær drifkraft frá vélinni.

Sum kerfi geta einnig beint afli vélarinnar á þau hjól sem hafa mest grip.

image

Skýringarmynd yfir helstu atriði spyrnustýringar

Hvernig veit ég hvort kerfið virkar?

Eins og með mörg öryggiskerfi er kerfi spyrnustýringar með viðvörunarljós í mælaborði sem mun kvikna stuttlega við gangsetningu til að sýna að kerfið sé virkt.

image

Spyrnustýringin hjálpar til við að halda bílnum í réttri stefnu á veginum, sérstaklega í bleytu, hálku og snjó.

Ef viðvörunarljósið logar stuttlega við akstur er kerfið í virkri notkun og vinnur að því að koma í veg fyrir að hjól sé að spóla.

image

Ætti einhvern tímann að slökkva á spyrnustýringu?

Almennt er ekki mælt með því að slökkva á spyrnustýringu við venjulegan akstur á vegum - það skiptir ekki máli hversu góður ökumaður þú ert, spyrnustýringarkerfið getur komið í veg fyrir að ökumaður missi stjórn á bílnum. Kerfið bregst mun skjótar við en ökumenn gera alla jafna undir stýri.

Svo ef verið er að aka í drullu, snjó eða ís má íhuga að slökkva á kerfinu, finnist ökumanni bíllinn vera að festast.

Alla jafna er í bílnum rofi merktur með einhverju eins og ASR, TSC, ESC eða ESP, fer eftir framleiðanda bílsins, en á sumum ökutækjum mun þetta vera í einhverri af valmyndunum í upplýsingakerfi bílsins.

[Birtist fyrst í september 20212]

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is