Fallegasti bíllinn og af hverju?

Þetta er spurning sem undirritaðri þykir nokkuð erfið og virkilega stór! Það er þó ekki að sjá að þeim eðalnáungum sem henni svöruðu árið 1970 hafi þótt þetta mjög snúin spurning. Svörin eru skemmtileg og vel rökstudd!

Í augum sumra eru bílar einföld farartæki á fjórum hjólum. Að mati annarra eru þeir í ætt við háþróuð listaverk. Blaðamaður Lesbókar Morgunblaðsins komst skemmtilega að orði hvað þetta snertir í apríl 1970 en hann skrifaði:

„Bílar virðast hafa mismunandi skapgerð; sumir heilla við fyrstu sýn, en falla við nánari kynni. Aðrir láta lítið yfir sér í fyrstu, en sanna kosti sína í daglegri notkun, þegar frá líður. Sumir eru duttlungafullir og óvarlegt að treysta þeim, sumir eru latir og sumir eru viljugir. En umfram allt, eins og öll mannanna verk, eru bílar meira og minna ófullkomnir.“

Hver er fallegasti bíll sem þú hefur séð og af hverju finnst þér það?

Fullkominn arkitektúr

image

Fyrstur er ljósmyndarinn Sigurgeir Sigurjónsson sem þá var ljósmyndari hjá Vikunni:

Saab 96

image

„Ég gef atkvæði mitt Saab 96 og þá lít ég á málið eingöngu frá fagurfræðilegu sjónarmiði. Saab 96 er vel hannaður, en aftur á móti ekki eins vel tæknilega uppbyggður og nýi Saabinn „99“. Hvað er það þá í útliti Saab, sem mér finnst svona fallegt? Þegar ég lít á bílinn á hlið, þá standast öll hlutföll fullkomlega hvert gagnvart öðru. Og það er sama hvort maður lítur á hann framan frá eða aftan frá, alltaf stendur formið mjög vel, eins og fullkominn arkitektúr á að vera. Saab 99 hefur margt tæknilegt fram yfir, er betur hannaður að innan, en að vísu finnst mér framhlutinn of stuttur til að það hlutfall standist á móti öðrum. Ég skal játa, að ég var í vafa um, hvort ég ætti að greiða Saab atkvæði mitt, Volvo 164 eða Citroén.“

Einfalt en gott hjá auglýsingateiknaranum

image

Hilmar Sigurðsson, auglýsingateiknari hafði ekki mörg orð um sitt val en það er í góðu lagi:

Citroen DS

image

„Hvers vegna? Vegna einfaldrar og fágaðrar formmótunar hans.“

Eins og gott viskí og góð höggmynd

image

Baltasar Samper, listmálari:

Morgan +8

image

„Sá bíll, sem mér finnst fallegastur þeirra bíla, sem ég hef séð, heitir Morgan +8. Það er enskur sportbíll, tveggja manna, ýmist með harðtopp eða blæju. Mér finnst hann sambærilegur við gamalt whisky og viðráðanlegan gæðing. Hér tala ég um anda hlutarins, en hver hlutur hefur sinn anda og formið og andinn verða ekki aðskilin. Hann er eins og góð höggmynd, þar sem formið er í fullkomnu samræmi við tilgang verksins. Þó er hér ekki um að ræða neins konar kuldalegan „funktionalisma“. Og að lokum eitt, sem er mjög þýðingarmikið, þegar bíll á í hlut: Morgan +8 er sígildur og fellur aldrei úr tízku.“

Ford-bílasali valdi Volvo

image

Svar Hrafnkels Guðjónssonar, bílasala hjá Kr. Kristjánssyni, vakti nokkra athygli og kátínu hjá þeim sem hann þekktu en hér er svarið:

Volvo 164

image

„Volvo 164 Ég greiði Volvo 164 atkvæði mitt. Við fyrstu sýn vekur þessi vagn mikla athygli hér. Hann gefur strax til kynna, að hér er um traustan og þægilegan bíl að ræða. Hann minnir svo skemmtilega á hina traustu, gömlu og góðu bíla. Þó skiptir litavalið miklu máli til að hið klassíska form njóti sín sem bezt. Þegar inn er komið eru sætin leðurklædd og allur frágangur og fyrirkomulag stjórntækja með þeim hætti, að maður treystir því öllu.“

Í krafti einfaldleikans - til yndis

image

Jón Haraldsson, arkitekt:

de Tomaso Mangusta

image

„Það kann vissulega að hljóma sem þversögn að.tala um fagra bíla við núverandi íslenzkar aðstæður. En fagur hlutur er æ til yndis, jafnvel þótt í útlöndum sé. Af þeim bílum, sem ég hef séð, vildi ég telja fegurstan de Tomaso Mangusta, sem sá ítalski Ghia teiknaði, og fyrst kom fram 1966. Sá bíll sameinar að mínu viti hreyfingu, afl og stílfegurð í krafti einfaldleika.“

Forsíðumynd: Úr einkasafni

Myndir af bílum: Wikipedia

Tengt efni:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is