Nef Nissan

Hann hefur af mörgum bílnum þefað; af mörgum sætispúðanum hnusað og lyktað af fleiri speglum en meðalmaður horfir í á ævinni. Japaninn Ryonosuke Ino er kallaður „Nef Nissan“ og það er ekki að ástæðulausu!

Nú kunna einhverjir að halda að undirrituð sé að fíflast en svo er ekki. Enda gantast maður ekki með nef og hvað þá sjálft Nef Nissan.

image

Þetta er milljón dollara nef! Ryonosuke Ino að störfum. Myndir/Nissan Global

Ekkert nef þekkir Nissan í Japan betur en nefið á Ryonosuke Ino. Enda ber hann ábyrgð á því að hver einn og einasti nýi bíll af þeim bænum ilmi eins og vera ber. Það er ekki nóg að lyktin í „nærumhverfi“ bílstjórans sé eins og hún á að vera. Allir í bílnum eiga að geta andað að sér angan Nissan.

Loftræstingin í heild fer „undir“ hið magnaða nef meistarans og auk þess rannsakar hann og hans deild hvernig lyktin í bílum kann að breytast með tímanum.  

image

Aðsetur „loftgæðadeildarinnar“ (e. Vehicle Interior Air Quality department) er við tæknideild bílaframleiðandans og hefur loftgæðaeftirlitið, ef svo má að orði komast, verið sérþjálfað í að þekkja og greina út í haugahörgul hvaða lykt er af hverju einasta efni sem notað er í innréttingar bílanna.

Ino karlinn, eða Nebbi, eins og sumir kannski kalla hann, segir að lyktin sé gríðarstór þáttur í því hvernig upplifun fólks af ökutækinu er. „Þess vegna er nauðsynlegt að við könnum hvernig þessu er háttað hvar sem fólk kann að sitja í bílnum,“ segir hann.

image

Þefmeistarinn fer djúpt ofan í hvernig lyktarskynið er byggt upp og borar sig inn í dýpstu kjarna heilans. En þangað ætla ég nú ekki - enda ekki víst að maður rati aftur út. Áhugasömum er bent á hlekkinn neðst í greininni til að lesa meira um þetta. Í stuttu máli er lyktin í bílnum mjög mikilvægt atriði.

Vinnudagur hjá yfirþefaranum

Það eru nokkur grundvallaratriði sem hafa þarf í huga áður en þefmeistarinn mætir til vinnu: Hann þvær fötin sín með þvottaefni án ilmefna. Hann gætir þess vandlega að borða ekkert sem inniheldur hvítlauk daginn fyrir „þefjun“. Og helst bara alls ekkert sem inniheldur krydd sem mikil angan er af. Eiginlega væri best ef hann æti bara eitthvert lyktarlaust duft, en svo langt gengur okkar maður ekki. Hann bara passar sig voða vel daginn áður og sama dag og loftgæðaeftirlitið dembir sér í vinnutörn.

image

Svo er farið í að hnusa af öllu sem innan bíls kann að vera. Það er þefað af beinlínis öllu. Öllu sem lykt kann að vera af: Höfuðpúðum, sætum, sólskyggni, loftklæðningu, mælaborði, glasahöldurum, teppum, hanskahólfi og já, sem fyrr segir; öllu sem lykt er af.  

image

Ekki mega líða of margar mínútur áður en nefið er tendrað!

Framkvæmdin er auðvitað eftir kúnstarinnar reglum þó að hver vinni „með sínu nefi“. Það er mikilvægt að byrja að þefa innan fimm mínútna en helst þriggja mínútna frá því komið er inn í ökutæki. Að öðrum kosti verða menn „samdauna“ og það er alveg bannað í þessu djobbi. Það þarf að tendra nefið áður en menn venjast lyktinni.  

image

Eftir hnus, þef og meira hnus er fyrsta þætti lokið. Þá er kominn tími á nefstillingu. Enginn heyrt það nefnt fyrr? Nei, það kemur ekki á óvart. Það er eins konar núllstilling á lyktarskyninu og aðferðin er frekar tjah, hvað getur maður sagt? Já, aðferðin er helst til óhefðbundin: Hann rekur trýnið í eigin handarkrika.

image

Krikinn klikkar ekki: Lyktin þar er kunnugleg og vel fallin til nefstillingar eða núllstillingar, að sögn yfirþefara Nissan.

„Sérfræðingar hafa margir hverjir sínar leiðir til að núllstilla lyktarskynið. Sumir þefa af kaffibaunum. En ég geri þetta svona. Þarna finn ég kunnuglega lykt og það gerir mig kláran í að greina annars konar lykt á nýjan leik,“ segir Ino.

Þefmeistari verður til

Ino er frá Yokohama. Hann var ungur að árum þegar áhuginn á hinni ýmsu angan kviknaði. Í Kínahverfi Yokohama ægir öllu saman: Lyktinni úr hinni og þessari versluninni, mat sem götusalar elda og nýbökuðum snúðum. Og ekki var drengurinn lengi að læra að greina hvaða lykt kom hvaðan þó svo að götusalarnir væru margir að elda það sama, hver ofan í öðrum.

Af götum Kínahverfisins í Yokohama lá leiðin einhvern veginn inn í musteri bílaframleiðandans Nissan og þar gegnir hann þessu mikilvæga starfi sem hann sinnir af sannkallaðri ástríðu.

Greinina í heild má lesa hér og svo er líka til myndband af meistaranum að störfum. Þá er gott að stilla á enskan texta, nema lesendur séu þeim mun betur að sér í japönsku.

Það er fátt sem beinlínis tengist þessu en hér eru nokkrar áhugaverðar greinar með Japönskum blæ:

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is