„Gamla greinin“ frá því fyrir 30 árum:

Þegar sá „þreytti" fékk upplyftingu

- útkoman var gerbreyttur bíll með betri aksturseiginleika

Við ætlum að birta öðru hvoru „gamlar greinar“ úr safni blaðamanna Bílbloggs, og í dag „hoppuðum við 30 ár aftur í tímann, eða til laugardagsins 5. desember 1992, en þá fjölluðum við um jeppabreytingar. Á þessum tíma var töluvert til á landinu af Cherokee-jeppum frá Jeep, en þessi gerð var framleidd lítið breytt á árunum 1984 til 1996, og ein meginbreytingin var í vélarhúsinu, í upphafi var um að ræða 4 strokka 2,5 lítra vél, vo kom 2,8 lítra V6 og loks kom enn aflmeiri 4,0 lítra 6 strokka vél.

image

En til að setja okkur inn í þennan heim fyrir þremur áratugum skulum við kíkja betur á greinina sem var skrifuð þá:

Margir jeppaeigendur hafa án efa óskað þess að bíllinn þeirra hefði verið hærri þegar ekinn hefur verið ógreiðfær vegarslóði eða ekið í snjó að vetri til. Mörgum hefur vaxið í augum að láta hækka jeppann sinn og talið slíkt vera fyrir þá sem storma til fjalla jafnt að vetri sem sumri.

Sumir hafa gefið þessum jeppum viðurnefni eins og „slyddujeppar" eða „malbiksjeppar".

Þeir sem stunda fjallaferðir, einkum að vetrarlagi, hafa gripið til ýmissa ráða til að gera bíla sína betur búna til að takast á við slíkar aðstæður, hækkað þá upp og sett undir þá miklu stærri dekk, auk þess sem drifhæð er breytt og jafnvel bætt við millikassa til að nýta aflið enn betur.

Upphækkun er lítið mál

En það er auðvelt mál að endurbæta Cherokee-jeppa þannig að hann geti tekist á við ófærð og vonda vegi án þess að þurfa að setjast á kviðinn.

Bil beggja

Bíllinn, sem við fylgdum eftir í breytingu hjá Bílabúð Benna, er sjálfskiptur Cherokee, árgerð 1986, með 2,8 lítra V6-vél. Þessi vél er ekki svo aflmikil að hún þoli stærri dekk en 31 tommu en nokkrir þessara bíla komu hingað til lands á sínum tíma á 30 tommu dekkjum. Flestir eru þó á mun minni dekkjum eða 215/75R15.

image

Ákveðið var að hækka bílinn um tvær og hálfa tommu þótt ekki væri ætlunin að setja meira en 31 tommu dekk undir hann. Með því yrði hann hærri á velli og veghæðin mjög góð.

image

Þetta gaf sömu hækkun og nýir gormar hefðu gefið en í staðinn hélst sama mýkt í fjöðrun.

Að aftan var bætt við einu fjaðrablaði frá Rancho til að „hressa hana við“. Hægt er að velja um þrjá styrkleika af þessum viðbótarblöðum og var það mýksta valið til að gera bílinn ekki of stífan.

image

Nýir höggdeyfar gera gæfumuninn

Það sem gerði hins vegar gæfumuninn í þessari „læknisaðgerð" á bílnum var tilkoma þrýstikældra Rancho RS5000 dempara á öll fjögur hjól.

image

Ný dekk og felgur

Þegar búið var að hækka bílinn var ekki lengur við hæfi að hafa hann á „gömlu 30 tommu túttunum". Því var ákveðið að setja undir hann amerísk 31 tommu Ah-Terrain T/A dekk frá BFGoodrich, sem eru sérlega mjúk og hljóðlát alhliða jeppadekk, og til að gefa bílnum enn glæstara yfirbragð voru dekkin sett á American Racing álfelgur sem eru plasthúðaðar þannig að mjög auðvelt er að halda þeim hreinum.

Einn viðstaddra sagði líka þegar bílnum var ekið út af verkstæðinu eftir breytinguna: „Það þarf greinilega ekki að fara á bílasölu til að eignast nýjan bíl.“

Aksturseiginieikarnir eru líka miklu betri, bæði vegna stífari fjöðrunar að aftan og líka nýju demparanna sem greinilega gera gæfumuninn í breytingu sem þessari.

Átti mörg góð ár

Bíllinn sem fjallað var um í greininni hér að ofan fyrir 30 árum átti mörg góð ár eftir sem heimilisbíll hjá blaðamanni Bílabloggs.

Hugsanlega hefur þetta kallað fram minningar hjá sumum sem áttu „breytta“ jeppa á þessum árum, en breyttur tíðarandi hefur orðið til þess að svona breytingar eru ekki eins algengar í dag, sem er miður að mati margra aðdáenda jeppa og fjallaferð.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is