Alþjóðleg alþýðuhetja

image

Hvað eiga VAZ 2101, Premier 118NE, SEAT 124, og Murat 124 sameiginlegt? Eða Zaztava 125, Nasr 125?

image

Árið 1964 var bíll ársins í Evrópu valinn í fyrsta sinn af (ECOTY fyrir European car of the year) samtökum bílablaðamanna í Evrópu.

Þrem árum síðar hlaut FIAT 124 þann titil.

Í samanburði við bíla nútímans er hann óttalega óspennandi en á þeim tíma þótti hann, eins og við er að búast af sigurvegara, nokkuð nýstárlegur þrátt fyrir ákaflega hefðbundið útlit.

Gormafjöðrun á öllum hornum, alsamhæfðan gírkassa og diskabremsur á öllum hjólum.

Meira að segja rúðuþurrkur með letingja voru nýlunda. Ekkert af þessu var sjálfgefið í venulegum alþýðubílum. Fyrir vikið þótti Fiat 124 hafa afburða aksturseiginleika og var auk þess rúmgóður og þægilegur ferðabíll.

image

Hvorir tveggja Fiat 124 og Fiat 125 sáust vissulega á íslenskum vegum en útlit þeirra er okkur þó líklega minnisstæðara sem Lada eða Polski Fiat.

Almúgaskýringin, og það sem allir vissu var, að hinir Austur-Evrópsku voru útdauðir Ítalir sem öðlast höfðu framhaldslíf.

Vissulega rétt, en sagan er stærri og flóknari en þetta. Fiat seldi nefnilega framleiðsluréttinn að þessum bílum miklu víðar en til Austur Evrópu. 124 var, auk Sovétríkjanna smíður á Indlandi, í Malasíu, á Spáni, í Búlgaríu, Tyrklandi, Kóreu og Egyptalandi.

image

Ekki voru allar þessar fjölþjóðlegu útgáfur þó alveg eins þó grunnurinn hafi alltaf verið hinn sami.

image

Það er sagnfræðileg staðreynd að Volkswagen Bjallan er mest seldi bíll í sögunni. Er þá átt við bíl, sem samfellt var framleiddur á sama grunni.

Það er ekkert að marka þó Toyota Corolla hafi selst í meira magni; ekkert tengir fyrstu útgáfuna við þá núverandi nema nafnið.

En maður spyr sig; á ekki Fiat 124 þennan tiltil skilið ekki síður en, eða jafnvel frekar en Bjallan? Munurinn á Fiat 124 frá 1967 og Premier 118NE frá 2001 er ekki meiri en á Bjöllu frá 1938 og Bjöllu frá 1977.

Mér tókst ekki að finna framleiðslutölur fyrir alla afkomendur Fiat 124 en Sovétmenn (og síðar Rússar) smíðuðu yfir 17 milljónir eintaka.

Ekki þykir mér ósennilegt að allir hinir samanlagt hafi á 50 árum eða svo tekist að skrúfa saman þær 5 milljónir sem þarf til að skáka Bjöllunni, sem var smíðuð í rúmlega 21,5 milljónum eintaka víða um heim.

Megum við kannski kalla Fiat 124 hina alþjóðlegu alþýðuhetju bílaheimsins?

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is