Ljósbarðarnir voru „flopp“

Ótrúlegt en satt þá reyndust uppljómuðu hjólbarðarnir frá Goodyear algjört „flopp“! Hugmyndin um hjólbarða sem lýsa í myrkri er sannarlega skemmtileg og gott ef ekki spaugileg líka. En að koma hugmyndinni í framkvæmd er eiginlega galið. Eða hvað?

image

Það var árið 1961 sem dekkjaframleiðandinn Goodyear fékk þessa hugljómun um dekkin sem myndu lýsa er rökkva tæki. Auðvitað voru menn bjartsýnir og stórhuga á þessum árum; undirbúningur stóð yfir á því að koma manneskjum út í geim og aftur heim, efnahagurinn blómstraði vestra og svo mætti áfram telja. Þannig að uppljómaðir hjólbarðar voru bara eðlilegt framhald húrrahrópa og hugmynda í hamingjuveldinu þar sem allt virtist mögulegt (athugið að þetta er mjög ónákvæm sagnfræði því auðvitað var ekki allt í himnalagi alls staðar).

Skínandi hugmynd kviknar

Bjartsýni manna komst á áður óþekkt birtustig þegar efnafræðingur hjá Goodyear, William Larson að nafni, hafði ásamt vinnufélaganum Anthony Finelli búið til ærlegt dúndur-efni í kringum 1960. Efnið var kallað Neothane og lýstu þeir félagar efnahræringnum sem „three-dimensional fishnet“ og með Neothane töldu þeir alla vegi færa.  

image

Nú veit maður að innan efnafræðinnar er margt eldfimt og jafnvel getur skapast sprengihætta þannig að ég hætti mér ekki þangað. Þeir sem vilja vita meira um þetta efni geta til dæmis lesið um það hér eða lokið lestri þessarar greinar og horft á myndbandið hér neðst.

Eins og að baka köku

Eiginleikar efnisins (Neothane) voru fjölmargir og auk þess að vera auðvelt í notkun og mjög hagkvæmt í framleiðslu þá mátti hafa það í öllum regnbogans litum. Þannig var hægt að aka um með bleika, græna eða appelsínugula hjólbarða undir bílnum og vekja lukku víðast hvar. Já, það leit sannarlega út fyrir að Goodyear hefði fundið töfrablönduna.  

image

John J. Hartz, verkefnastjóri Goodyear á þessum tíma, sagði í viðtali sem birtist í Life Magazine að dag einn myndi konan geta sagt við mann sinn: „Charlie, skrepptu snöggvast út og skiptu um dekk fyrir mig. Ég ætla nefnilega að vera í bláa kjólnum mínum í kvöld.“

image

Annars lýsti „skapari“ Neothane, Larson, efninu og mótun þess ágætlega þegar hann sagði: „Þetta er nú bara dálítið eins og að baka köku. Þú blandar innihaldsefnunum saman og setur svo í form og þá er ekkert annað eftir en að skella forminu í ofninn.“

Augnablik og 18 ljósaperur

Nú hefði mátt ætla að dekkin væru orðin nægilega skrautleg, þá þegar allir litir regnbogans voru samankomnir. En nei, þetta var nú bara sýnishorn!        

image

Myndir/Skjáskot úr myndbandi Goodyear

Neothane var hálfgagnsætt og hleypti því ljósi í gegn. Verkfræðingum datt því í hug að koma fyrir, strengja og tengja, átján ljósaperur í miðju hvers hjóls og á þessu var kveikt þegar dimmt var orðið. Voila! Uppljómaðir hjólbarðar, gjörið svo vel.

image

Bílstjórinn gat stjórnað þessu á alla vegu; hvað var uppljómað og hvenær. Meira að segja mátti stilla þetta með þeim hætti að ljósin kviknuðu þegar hemlað var. Tilkomumikið? Já, vafalaust!

Hættulegt? Tjah, já, allt þetta ljós hafði sínar skuggahliðar. Við prófanir bar strax á því að aðrir bílstjórar og vegfarendur áttu það til að verða beinlínis agndofa þegar skyndilega kviknaði á „jólaténu“ og þá fór allt úr böndunum. Ekið var á skilti, gangandi vegfarendur, staura og það sem fyrir varð og umferðarljósin urðu ósköp ræfilsleg í samanburði. Já, svo lítilfjörleg urðu þau að bílstjórar tóku ekki eftir þeim, fóru yfir á rauðu eða óku á þau (og tóku þá reyndar eftir þeim).

image

Svo fóru dekkin víst að bráðna við mikinn hita (t.d. þegar bremsað var skart), gripið var lélegt í bleytu og á miklum hraða og þegar allt kom til alls voru dekkin bara fjári dýr! Eins og þetta virtist hagkvæmt í upphafi þá var auðvitað ekki ókeypis að lýsa herlegheitin upp.

image

Dekkin fóru aldrei á almennan markað. Þó er enn örlítil ljósglæta þarna einhvers staðar. Í myndbandinu sem hér fylgir er ljóst að ekki er slokknað á öllum perum þótt ólíklegt sé að fortíðarhugmyndin verði að veruleika!

Annað spes, skemmtilegt og skrýtið: 

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.​​

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is