Víst er eftirspurn eftir rammíslensku votviðri!

Ísland er í tísku. Það er dýrkað, dáð og eftirsótt, einkum og sér í lagi vegna náttúrunnar. Óspillt náttúra, bílar sem virðast klipptir út úr vísindaskáldsögu og drungalegt og heimsfrægt veðrið: Í þessu umhverfi líta bílar vel út, segja margir.

image

Af tökustað á Snæfellsnesinu. Ljósmyndir/Hyundai

Já, ótrúlegt en satt þá halda kvikmyndatökulið á vegum bílaframleiðenda áfram að skapa ótrúleg listaverk þar sem Ísland spilar stórt hlutverk. Það sem er ótrúlegt við þetta er að maður er ekki fyrr búinn að melta eina snilldina þegar sú næsta tekur við og toppar þá fyrri.

image

Við höfum fjallað um nokkra bílaframleiðendur sem hafa kynnt sínar tegundir með aðstoð hins íslenska landslags; til dæmis Range Rover Sport við Kárahnjúka, Lamborghini Urus á Suðurlandi og Bentley Flying Spur Hybrid á ferð um landið.

image

Hyundai Ioniq 5 og Hyundai Tucson PHEV voru myndaðir hér á landi í vor og er kynningarefnið sem varð til orðið opinbert. Ekki er annað að sjá en það veki almenna ánægju, til dæmis sést það í athugasemdum við myndböndin á YouTube.

image

Stundum styttir upp. Þannig er þetta og lengi má veðrið koma manni á óvart. Ljósmynd/Hyundai

„Nei! Ert þetta þú?“

Þegar ég horfði á myndbandið greip mig sú tilfinning að ég þekkti þann sem fer þar með aðalhlutverkið. Þá á ég ekki við Ísland. Auðvitað þekki ég það. Nei, ég á við bílinn sjálfan. Ioniq 5 sem ég kunni svo ofboðslega vel við þegar ég reynsluók honum síðastliðið haust.

image

Þarna er hann, blessaður. Ljósmynd/Malín Brand

Þetta er sama eintak og undirrituð prófaði og það er nú aldeilis skemmtilegt að hafa myndað bílinn í bak og fyrir áður en hann varð þessi líka mikla ljósmyndafyrirsæta og stjarna. En þetta var nú útúrdúr.

image

Hestarnir voru mjög forvitnir þegar ég myndaði bílinn á Hliðsnesinu í september. Sennilega fannst þeim Ioniq 5 dálítið sérstakur hestur en flottur. Ljósmynd/Malín Brand

Vonandi þykir ykkur þetta myndband eins mikið listaverk og mér. Ef ekki þá er hellingur af öðru á síðunni sem hægt er að skoða.

image

Ljósmynd/Hyundai

Hér er Ioniq 5, heimsbíll ársins 2022, og meðfylgjandi myndir, að mínum undanskildum, koma frá Hyundai.

Það er reyndar ekki hægt að sleppa hinu myndbandinu. Það rignir aðeins minna í því og svo eru líka hestar með í fjörinu.

Þessu tengt:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is