Ford Mustang Mach e með sjálfstýringu

Ford mun kynna Mustang Mach e með sjálfstýringu sem hluta af tækniuppfærslum á Ford Co-Pilot360 kerfinu.

image

Við erum að tala um hinn nýja Ford Mustang Mach e sem verður innkoma Ford á rafbílamarkaðinn. Ford hefur látið uppi að bíllinn verði nettengdur og hægt verði að senda uppfærslur í hann yfir netið.

Nú segja þeir hjá Ford að Mustang Mach e búinn hinu nýja Ford Hands-Free Mode og hægt verði að aka bílnum án þess að hafa hendur á stýri.

Afslappandi akstur með kók og prins?

Sjálfstýringin er í raun hluti af kerfi sem nú þegar sést í mörgum bílum á markaðnum, svokölluðu Active Drive Assist eða sem kalla mætti akreinavara með aðstoð. Það sem um er að ræða er samvinna skynvædds hraðastillis og akreinaaðstoðar og er huti af kerfi sem Ford kallar Co-Pilot360. Þannig á að vera hægt að sleppa höndum af stýri við sérstakar aðstæður og þeir hjá Ford fullyrða að nú þegar séu yfir 100 þúsund mílur af bandarískum og kanadískum hraðbrautum þar sem þetta kerfi virkar.

image

Og hvernig virkar kerfið

Sjálfstýringin verður í boði á fyrifram ákveðnum leiðum hraðbrautarkerfa og þá búið að merkja þær leiðir inn á kort. Bíllinn er búinn myndavélakerfi sem nemur andlit og augu ökumanns til að tryggja að ökumaðurinn fylgist með akstrinum. Ford segir að myndavélkerfið virki jafnvel þótt ökumaður sé með maska (flensu maska) eða sólgleraugu.

Hraðstillikerfið (cruise control) lætur ökumann vita þegar bíllinn er á svæði sem sjálfstýringin virkar á og hægt er að láta Mustanginn stýra sjálfan ásamt því að hann stýrir hraða og hemlun.

Er að verða klárt til notkunar

Til að fá þennan fídus í nýja Mustang Mach e bílinn þinn þarftu að kaupa pakka sem heitir Co-Pilot360 Active Prep sem inniheldur nauðsynlegan vélbúnað svo kerfið virki. Kerfið er svo hægt að uppfæra yfir netið. Active Prep pakkinn verður að fullu tilbúinn til afhendingar í Mustang Mach e seinnihluta ársins 2021. Á meðan getur þú notað hluta pakkans þannig að þú ýtir einfaldlega á takka í bílnum og hann leggur í stæði eða ekur út úr því.

Ford Co-Pilot360 er í raun bara ofurklárt akstursaðstoðarkerfi. Það samanstendur af búnaði eins og skynvæddum hraðastilli, blindblettaskynjara, akreinavara og skynjun á vegbrúnum.  

Í honum er einnig gatnamótaskynjari sem er nýr af nálinni í bílaiðnaðinum. Sá fídus lætur bílinn hemla ef hann skynjar komandi umferð í vinstri beygju á gatnamótum.

image

Verðmiðinn ekki verið hengdur á

Ford hefur ekki gefið út hvað sjálfstýri pakkinn muni kosta en fullyrða að hann muni ekki einskorðast við hinn nýja Mustang Mach e – heldur er þetta búnaður sem er kominn til að vera. Reiknað er með að búnaðurinn verði fáanlegur í 2021 árgerðum frá Ford.

Nú er bara vona að vegagerðin lesi þessa grein og fari að gera okkar glæsilega vegakerfi klárt fyrir framtíðina.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is