Nýr Kia Niro Hybrid væntanlegur

    • Nýr 2022 Kia Niro rafmagns- og tengitvinn sportjeppi kemur síðar á árinu
    • Komandi önnur kynslóð Kia Niro mun bjóða upp á úrval af rafknúnum aflrásum

Eftir að hafa afhjúpað endurhannaðan Kia Niro hefur kóreska vörumerkið núna komið með upplýsingar um væntanlega tvinnútgáfu.

image

Kia mun senda frá sér upplýsingar um endurhannaða tengitvinn-og rafmagnsútgáfur síðar.

Undir vélarhlífinni er „Smartstream“ 1,6 lítra fjögurra strokka vélin, sem Kia segir státa af betri kælingu, núnings- og brunatækni.

Vélin framleiðir 77kW af krafti og 144Nm tog og er samsett með 32kW rafmótor, fyrir heildarafköst kerfisins upp á 139 hestöfl – það sama og í bílnum sem er að kveðja í dag.

Uppfærð eldri útgáfa

Nýr Niro notar uppfærða útgáfu af grunni fyrri bílsins frekar en nýja E-GMP grunninn, sem er frátekinn fyrir hreina rafbíla vörumerkisins. Aflrásirnar þrjár hafa verið staðfestar: hefðbundinn tvinnbíll, tengitvinnbíll og rafknúinn e-Niro.

Í endurhönnuninni á Kia Niro má greina áhrif frá „Habaniro“ hugmyndinni frá 2019; einkum framendahönnunin og tvítónaáhrifin á C-bita bílsins.

Óvenjulegt er að C-bitinn er einnig með lóðrétt stöfluð afturljós, og skilur þau sjónrænt frá afturhleranum, sem eru núna með „búmerang“-lögun.

image

Að framan hefur „tígrisandlit“ vörumerkisins þróast, með stóru neðra inntaki og litlu efra grilli, aðskilið með krómræmu í fullri breidd. LED framljósin og dagljósin eru á aðskildum svæðum, þar sem Kia heldur því fram að dagljósin líki eftir hjartslætti.

Helsti sjónræni munurinn á hybrid Niro og full rafknúnum E-Niro er hleðslutengi sem er innbyggt í framhlið þess síðarnefnda.

Farþegarými Niro hefur einnig verið rækilega uppfært. Bogin lína flæðir upp á hurðarklæðningar, þar sem Kia heldur því fram að andstæðar láréttar og ská línur á bílnum „skapi róandi en óreglulega fagurfræði“.

Stærri en sá gamli

Hann vex að stærð miðað við forvera sinn líka og er nú 4.420 mm langur, 1.825 mm breiður og 1.545 mm á hæð. Hjólhafið hefur verið lengt um 20 mm. 12V rafhlaðan hefur verið færð aftar til að auka hagkvæmni og farangursrýmið stækkar í 451 lítra í tvinnútgáfu bílsins.

image

Mælaborðið einkennist af stórum skjá í einu stykki sem sameinar stafrænt mælaborð og breiðskjá með upplýsinga- og afþreyingarkerfi, með aðskildum snertinæmum loftstýringum undir. Ný umhverfisljósaræma nær yfir mælaborðið, en miðjustokkurinn er með rofabúnað og snúningsstýrða akstursstillingu.

Endurunnið veggfóður og fleira

Kia leggur áherslu á notkun sjálfbærra efna í farþegarými í hinum nýja Niro. Til dæmis er þakklæðningin úr endurunnu veggfóðri, sætin úr lífrænu pólýúretani með Tencel trefjum úr tröllatréslaufum og málningin á hurðaplötunum er vatnsbundin og laus við efni eins og bensen og tólúen.

image

Eina tæknin sem Kia hefur greint frá til þessa er nýr „Greenzone Drive Mode“ eða „græn akstursstilling“. Með því að nota skynjarabúnað getur kerfið sjálfkrafa skipt tvinnútgáfum af Niro yfir í rafmagnsstillingu á „grænum svæðum“ eins og íbúðarhverfum í þéttbýli, eða við skóla og sjúkrahús. Ökumaður getur einnig skráð eigin græn svæði í leiðsögukerfi bílsins.

Hingað til hefur aðeins verið upplýst í smáatriðum um hina venjulegu tvinnútgáfu af nýja Niro.

Eins og með bílinn sem er á útleið er hann með 1,6 lítra bensínvél sem skilar 104 hestöflum og 144 Nm togi og er, ásamt rafhlöðu og rafmótorkerfi, allt að 139 hestöfl. Drifið fer að framhjólunum í gegnum sex gíra DCT sjálfskiptingu.

(Fréttir á vef Auto Express og CarExpert)

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is