Bílar og knattspyrna: Hvaða bíll vinnur HM?

Eins og varla hefur farið fram hjá neinum er heimsmeistaramótið í knattspyrnu nýhafið. 32 landslið bítast um titilinn og sparkspekingar úti um allan heim velta vöngum yfir, og rífast jafnvel um hvaða þjóð sé sigurstranglegust á mótinu.

Þetta kann að hljóma fáránlega en ég ætla samt að athuga málið aðeins. Nú þegar fyrstu umferð er lokið ætla ég að bera saman úrslit leikja í hverjum riðli og bera saman við hver er mest seldi bíllinn í hverju landi.

image

Hver veit nema ég finni eitthvert munstur, sem nota má til að segja fyrir um úrslit leikja. Eftir ítarlegar rannsóknir með dyggri aðstoð Google er það kenning mín að þjóðin, þar sem litlir bílar eru vinsælastir hafi alltaf (eða alla vega oftast) betur.

Ef þessi kenning mín reynist rétt ætti því að vera hægt að spá fyrir um hvaða tvær þjóðir komast upp úr hverjum riðli.

A-riðill: Í Ekvador er Chevrolet Spark mest seldi bíllinn en í Katar er það Toyota Land Cruiser. Þó Cruiserinn sé miklu stærri og dýrari og flottari bíll er Sparkinn óneitanlega snúningaliprari, enda vann Ekvador.

image

Hverjir fara áfram: Ekvador og Holland

B-riðill: Englendingar kaupa mest af Tesla Y meðan Íranir kaupa Saipa Tiba (Íranssmíðaðan smábíl).

Hverjir fara áfram: Íran og Wales

C-riðill: Hér snúa hlutirnir á annan veg. Toyota Camry Saudi Arabanna lagði hinn litla og lipra Fiat Cronos Argentínumanna, enda þóttu úrslitin í meira lagi óvænt.

Hverjir fara áfram: Argentína og Mexíkó

D-riðill: Hér áttust fyrst við tveir smábílar, Citroen C3 Dananna og hinn kínverska Chery QQ, Túnismanna, enda varð jafntefli. Frakkar notuðu síðan Peugeot 208 til að bursta Ford Ranger Ástralanna.

Hverjir fara áfram: Frakkar og Danir

E-riðill: Hér mætir enn einn pallbílinn á sviðið í leik Spánverja og Costa Rica. Í ljósi þess sem þegar er komið fram var viðbúið að hann mundi tapa enda kom það á daginn.

Hverjir fara áfram: Spánn og Japan

F-riðill: Hér erum við komin í erfiðan riðil, því ekkert liðanna skartar sérlega stórum bíl sem sínum vinsælasta. Það er helst að Skoda Octavia Króatanna standi út úr hópnum. Þeir gerðu þó jafntefli við Dacia Sandero Marokkómannanna. Belgar á Citroen C3 unnu síðan Kanadamenn á Hyundai Kona.

Hverjir fara áfram: Belgía og Marokkó

G-riðill: Sviss teflir fram Skoda Octavia en Kamerún Kia Rio. Kamerúnar hefði því átt að vinna samkvæmt smábílakenningunni en svo fór ekki. Octavian lagði smábílinn.

image

Hverjir fara áfram: Kamerún og Brasilía

H-riðill: Portúgalir kaupa mest af Renault Clio. Þeir spiluðu við Ghana, hvar mest er selt af Toyotu Corollum.

Hverjir fara áfram: Portúgal og Ghana

Ég er ekki frá því að það sé þó nokkuð vit í þessari kenningu. Lesendur geta, ef þeir eru ekki fyrir löngu hættir að lesa þetta bull, skemmt sér við að máta hana við framhaldið.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is