Bíllinn með flug-vélina

Eftir síðari heimsstyrjöldina vantaði einkabifreiðar á markaðinn. Meginástæðan var sú að stálið var notað í annað og verksmiðjurnar einnig í að framleiða vopn, skriðdreka, flugvélar og skip.

image

Í nútímanum er hann svolítið eins og úr teiknimyndasögu.

image

Liturinn er ansi laglegur á þessum.

Eftirstríðsárin

Bandaríkjamenn höfðu ekki úr miklu að moða frekar en aðrir eftir seinni heimsstyrjöldina og voru að bjástra við að setja örlítið uppfærð boddý ofan á grindur frá því fyrir stríð. Útkoman var náttla bara gamaldags bílar.

Það vantaði nýja línu í bílaframleiðsluna, bíla með nýtt og ferskt útlit sem fylgdi tískustraumum.

Má ekki segja að Elon Musk hafi einmitt komið með þann anda inn í bílaframleiðsluna á síðasta áratug? Sagan virðist endurtaka sig.

image
image

Mjög nýstárlegt útlit miðað við bíla þess tíma.

Allt öðru vísi bíll

Í stríðslok kom maður að nafni Preston Tucker fram með hugmynd að nýjum og vægast sagt byltingarkenndum bíl. Bíllinn, sem gekk undir nafninu Tucker eða Tucker Torpedo þótti svo framúrstefnulegur á þeim tíma að ekki voru allir á eitt sáttir.

Þeir þrír stóru – Ford, GM og Chrysler voru til dæmis ekki í vafa um bíllinn yrði flopp. Reyndar kom í ljós síðar að þeir áttu þátt í því að Tucker varð ekki að veruleika. Þar réði aðgangur þeirra að fjölmiðlum og fé stóru.

image

Mælaborðið með fóðringu. Þetta lítur næstum því „franskt út".

Fullt af sniðugu stöffi

Tuckerinn var skrítinn í laginu, eins og flugskeyti má kannski segja, breiður, frekar klunnalegur og vélin var aftur í. Það voru líka þrjú framljós á honum, eitt í miðjunni. Á því kviknaði þegar bílnum var beygt og átti að lýsa upp beygjuna. Ekki svo vitlaus hugmynd miðað við að í dag eru bílar framleiddir með slíkum búnaði.

image

Magnað þetta einglyrni þarna.

Upphaflega þróunarvélin í Tuckernum var rétt undir 10 lítra, 6 strokka maskína sem var svo hávær að menn gátu vart talað saman inni í bílnum. Reyndar kom ný vél til sögunnar á síðari stigum þróunar bílsins en sú var upprunninn úr flugvélamótor, nánar tiltekið þyrlu.

Öryggi var eitthvað nýtt líka

Tucker var reyndar með fullt af nýjungum sem ekki höfðu sést áður í bílum. Við erum að tala um framrúðu sem losnaði úr við árekstur, fóðrað mælaborð, veltigrind og læstri handbremsu með sér lykli til að minnka möguleika á stuldi. Fjöðrunin var nýstárleg miðað við bíla á markaðnum en Tucker notaði steypt gúmmí í stað gorma sem þekkt var í keppnisbílum.

image

Mynd með einkaleyfisumsókn Tuckers.

Góður sölumaður

Preston Tucker safnaði fé með hlutafjárútboði og það eina sem hann hafði voru í raun teikningar af bílnum, hrífandi framkoma og ótrúleg sölutækni. Fyrst og fremst var maðurinn góður sölumaður. Preston tókst að fjármagna verkefnið með 17 milljónum bandaríkjadala og leigði gamla flugvélaverksmiðju undir búskapinn.

Á meðan viðskiptavinir biðu eftir bílnum var í boði að kaupa allskyns aukahluti fyrir Tucker.

Bíllinn var kynntur árið 1947 með viðhöfn í verksmiðjubyggingunni að viðstöddum þúsundum gesta.

image

Mjög huggulegur þessi - og hurðirnar spes.

Kvöldið áður hafði bíllinn hrunið niður með fjöðrunarbúnaðinum vegna þess að hann var alltof þungur. Á kynningunni bað Tucker hljómsveitarstjórann að spila músíkina með meiri styrk til að yfirgnæfa ofurhátt vélarhljóð Tuckersins.

image

Nokkrir af þessum 50 bílum í framleiðslu.

Allt rann út í sandinn

Um 50 Tucker bílar voru smíðaðir. Því miður fór þetta dæmi úrskeiðis. Tímaramminn var stuttur, þróun bílsins var undirfjármögnuð og ef til vill undirmönnuð, vandamál varðandi vél og skiptingu tóku of langan tíma og tengt öllu þessu missti Preston Tucker tiltrú þeirra sem höfðu látið fé í verkefnið.

Að auki ýttu fjölmiðlar undir með ásökunum um svikastarfsemi og kunnáttuleysi.

image

Tucker Preston við einn af Tucker '48 bílnum.

Að sjálfsögðu var það nóg til að rústa dæminu og til að gera langa sögu stutta fór reksturinn í þrot. Þó að ýjað hefði verið að því að Preston hefði eitthvað misjafnt í pokahorninu og hann lögsóttur vegna þess var hann sýknaður af slíkum áburði. Preston lést þann 26. desember árið 1956.

Saga Tucker Torpedo

Myndir: Wikipedia og af ýmsum erlendum bílasíðum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is