Fyrir fáeinum mánuðum bættist enn einn kjörgripurinn við fagran bílaflota Samgönguminjasafnsins að Ystafelli. Það er Armstrong Siddeley Hurricane, árgerð 1946 en aðeins 2.606 eintök voru framleidd af þessari snotru gerð.

Með gæðastaðla flugvélaframleiðslu að leiðarljósi

Armstrong Siddeley varð til árið 1919, stofnað af þeim  Armstrong Whitworth og  Siddeley-Deasy, og var einkum þekkt fyrir framleiðslu á eðalbílum og flugvélamótorum á upphafsárunum. Árið 1935 sameinaðist framleiðandinn Hawker Aviation og varð mikilvægur hlekkur í hernaðarstússi Breta.

image

Flugvélatengingin ætti ekki að fara framhjá neinum.

Ættum við flest að kannast við Hawker Hurricane, vélina sem… já, það er víst rétt að sýna sjálfstjórn og birta bara mynd og hér er hlekkur á frekari umfjöllun um þá merku vél.

image

Hawker Hurricane frá The Battle of Britain.

Það er nefnilega þannig að undirrituð er forfallinn skýjaglópur og flugáhugamanneskja ofan á allt bílastússið. Þess vegna hætti ég strax að fjalla um Hawker Hurricane áður en þetta breytist í „flugvélablogg“.

image

Nema hvað! Fyrir vikið rauk framleiðsla í gang um leið og heimsstyrjöldinni síðari lauk og fyrsti „eftirstríðs-bíllinn“ var tilbúinn þann 8. maí 1945. Armstrong Siddeley var á meðal fyrstu bresku framleiðendanna til að „setja allt á fullt“ að stríði loknu.

Og bíllinn fékk nafn við hæfi: Armstrong Siddeley Hurricane.

image

Þeir voru smíðaðir eftir svipuðum gæðastöðlum og flugvélarnar sem frá framleiðandanum komu.

Hafa margir látið í veðri vaka að gæðastaðallinn hafi verið of hár í samanburði við fjöldaframleiddar gerðir á markaði þess tíma. Enda reyndist framleiðslan of dýr og bílaframleiðslu í nafni Armstrong var hætt með öllu 1960

Til Íslands

Armstrong Siddeley Hurricane voru framleiddir til ársins 1954 og voru víst flestir seldir úr landi.

image

Vitna ég hér beint í orð vinar míns Sverris Ingólfssonar á Ystafelli en hann skrifaði eftirfarandi fyrir fáeinum dögum á Facebooksíðu Samgönguminjasafnsins:

„Safnið eignaðist merkilegan bíl á síðasta ári, en það er þessi Armstrong. Þessi bíll kom nýr til landsins og var þá með blæju, fljótlega smíðaði Kjartan Zophoníasson þennan tré topp á hann. Guðmundur Marísson eignaðist bílinn 1963 og átti til febrúar 2021, þegar Guðmundur lést.“

image

Heldur Sverrir áfram:

„ Það er svolítið sérstakt að skoða hvaða efni voru notuð þegar þessi bíll var smíðaður, það er tré grind í yfirbyggingunni, svo er járn og ál notað til skiptis og svo klætt að utan með áli, þetta sést vel ef myndin innan úr skottlokinu er skoðuð.“

image

„Armstrong notaði "self changing gearbox" í þessa bíla, þetta er 4ra gíra næstum því sjálfskifting, 4 stjörnugírar stjórnað með takka við hliðina á stýrinu. Það voru bara framleiddir 2606 svona bílar,“ skrifaði Sverrir Ingólfsson á Ystafelli um þennan merka bíl.

image

Við þetta má bæta að árið 1928 hóf Siddeley samstarf við Walter Gordon Wilson en það var nú maðurinn sem fann upp skiptinguna sem Sverrir minntist á í færslunni. Skiptingin (eða gírkassinn) var markaðssett með slagorðinuCars for the daughters of gentlemen“. Svo fínn var hann að bíllinn var við hæfi dætra herramanna.

Sómabíll fyrir sómastúlkur sómamanna.

image

Bíllinn þóti svo fínn að sómastúlkur gátu vel látið sjá sig í honum.

Sverrir ætlar aðeins að snyrta bílinn til en hefur hugsað sér að varðveita Armstong Siddeley Hurricane í því ástandi sem hann er.

Ljósmyndin efst er frá Sigurði Harðarsyni og er hún tekin þann 17. júní 1977. Aðrar myndir fylgdu Facebookfærslu safnsins og var gefið grænt ljós á birtingu þeirra hér á Bílabloggi. Fleiri myndir er að finna hér á Facebook-síðu safnsins og endilega látið ykkur líka við þá fínu síðu.

Fleiri greinar sem tengjast hinu magnaða safni:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is