Maðurinn sem skapaði Bond, Ian Fleming, var auðvitað með leiftrandi bíladellu og kom alls konar fínum bílum undir sitt fólk í bókunum um James Bond. Hann átti marga fína bíla sjálfur og skrifaði bók um bíl fyrir 8 ára son sinn. Þannig varð Chitty Chitty Bang Bang til.

image

Feðgarnir 1952

„Pabbi, þú elskar James Bond meira en mig.“ Þessi orð höfðu töluverð áhrif á hinn 53 ára gamla Ian Fleming þar sem hann „neyddist“ til að vera heima hjá sér af heilsufarsástæðum en gaf stráknum sínum lítinn gaum þótt hann væri meira heima.

Hann hafði kannski ekki tekið mikið eftir þeim stutta í gegnum reykjarkófið og bjagað útsýni augnanna og áfengisfljótandi vitundar. Hann drakk ótæpilega og reykti meira en meðal Lundúnalest á þessum árum.

Þetta er ekki falleg mynd sem ég dreg hér upp af Ian Fleming, en því miður gefur hún raunsanna mynd af veruleika Fleming-fjölskyldunnar árið 1961. Árið sem fjölskyldufaðirinn var nær dauða en lífi vegna lífernisins. Eftir alvarlegt hjartaáfall (afsakið orðalagið: Hjartaáfall er alltaf alvarlegt en ég á við að það stóð býsna tæpt) í apríl skipaði læknirinn Fleming að hvíla sig almennilega eftir að heim var komið af spítalanum.

003 og hálfur hafði lög að mæla

Sonurinn, Caspar, var hugrakkur drengur að segja hvað honum bjó í brjósti. „Pabbi, þú elskar James Bond meira en mig“ voru orð sem Ian tók til sín og ákvað að sýna átta ára syninum, og einkabarni þeirra Ian og Ann Fleming, meiri ástúð og athygli.

image

Fyrrum leyniþjónustumanninum kom kannski ekki til hugar að verja meiri tíma með Caspar litla, sem hann kallaði raunar 003-and-a-half, en það sem hann gerði fyrir strákinn lifði lengur en sonurinn blessaður. Hann skrifaði sögu fyrir 003 og hálfan: Sögu um bíl gæddan yfirnáttúrulegum eiginleikum.

Chitty Chitty Bang Bang

Það var sagan um hinn fljúgandi bíl sem síðar var gefið hið hörmulega langa nafn Chitty Chitty Bang Bang.

image

Úr Bond í Bang Bang

Ian Fleming gaf sögunni einfaldlega nafnið The Flying Car og fjallaði hún um uppfinningamanninn Caractacus Potts. Þarf nú vart að fara ofan í saumana á þræði þeirrar sögu en þó skal nefna að heitið er síðar festist við hana er byggt á bílunum  Chitty-Bang-Bang 1, 2, 3 og 4 sem Louis Zborowski smíðaði á þriðja áratugnum.

image

Caspar lengst til vinstri, ónefndur drengur við hlið hans og svo eru það hjónin Ann og Ian Fleming

Sorgarsaga Caspars Fleming

Á tólf ára afmælisdegi Caspars, 12. ágúst 1964, dó faðir hans úr hjartaáfalli. Þetta er nú alveg agalega sorglegt.

image

Caspar Fleming

Í októbermánuði árið 1975 kom hún að 23 ára syninum látnum en hann tók sitt eigið líf á heimili þeirra mæðgina. Ljótt er það og hryggilegt.

Það er ekki hægt að skilja lesendur eftir með þessa dapurlegu sögu í kollinum. Þess vegna kemur hér örstuttur bútur um bíladellu Ian Fleming sem var í miklum blóma áður en drungi drykkju og veikinda lagðist yfir.

Casino Royale peningunum vel varið

Þegar Fleming fékk greitt fyrir kvikmyndaréttinn á fyrstu skáldsögu sinni, Casino Royale, gerði hann það eina sem rökkrétt er að gera: Keypti sér árið 1955 svartan Thunderbird.  Splunkunýjan.

image

Hann var virkilega ánægður með bílinn en eftir fjögur ár var þó kominn mikill fiðringur í bílakarlinn og þá sendi hann etirfarandi orðsendingu til Antony Terry sem var góður vinur hans:

image

Brot úr bréfi Ians Fleming til vinar hans, Antony Terry. Skrifað árið 1959 en Fleming bað vin sinn að finna rétta bílinn fyrir sig í stað Thunderbird.  

image

Hvernig sem það fór þá eignaðist hann Studebaker Avanti árið 1963 og var það síðasti bíllinn sem Ian Fleming keypti, hafi ég skilið þetta rétt.

Fleira Bond-tengt:

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Við reynsluökum bílum, tökum viðtöl, skrifum greinar og fjöllum um bíla á óhlutdrægan hátt. Umferð, öryggi, vegir, tryggingamál og allt annað sem tengist bílum og umferð. www.bilablogg.is